Brestur kominn í samstöðu með Bandaríkjunum

Stuðningur arabaríkja við árásir Bandaríkjanna og Bretlands á Afganistan eru frumforsenda þeirra hernaðaraðgerða. Höfuðáhersla var lögð á að fá þann stuðning áður en í árásirnar var lagt, og Bandaríkjamenn hafa æ síðan árétt mikilvægi þess að halda þeim stuðningi. Nýlegar yfirlýsingar vestrænna ráðamanna um umfang hernaðaraðgerðanna hafa hins vegar orðið til þess að brestur er kominn í samstöðu með Bandaríkjunum.

Af þeim arabaríkjum sem styðja Bandaríkin er stuðningur Sádi-Araba og Pakistana hvað mikilvægastur. Yfirlýsingar þarlendra ráðamanna benda til þess að stuðningurinn við Bandaríkin sé ansi brothættur. Jafnvel gæti farið svo að ríkin féllu frá honum (og féllu þar með úr flokki "siðmenntaðra ríkja" að mati Davíðs Oddssonar) og er þá vandséð hvernig Bandaríkin og Bretland ætla að halda árásunum áfram. Eins hafa verið áhöld um stuðning Írana við aðgerðirnar, rætt hefur verið um leyniskeyti til bandarískra stjórnvalda þar sem stuðningi var lýst yfir. Nýleg ummæli ayatollah Khamenei benda þó trauðla til ófrávíkjanlegs stuðnings við vestrveldi, en hann varaði við því að árásir Bandaríkjanna gætu skapað átök um allan heim.

Sádi-Arabar hafa hingað til stutt Bandaríkjastjórn, a.m.k. sádi-arabísk stjórnvöld. Þau stjórnvöld njóta hins vegar lítils stuðnings á meðal landsmanna og við flestar aðstæður væru þau kölluð harðstjórn, en þegar stuðningur þeirra er nauðsynlegur til að koma áformum Bandaríkjanna í framkvæmd kemur annað hljóð í strokkinn. Nú er hins vegar svo komið að stuðningur stjórnvalda við Bandaríkin virðist hanga á bláþræði. Innanríkisráðherra Sádi-Arabíu Naif prins, hefur nú opinberlega gagnrýnt árásirnar á Afganistan. Haft var eftir honum að árásirnar fælu í sér dráp á saklausu fólki og það væri óásættanlegt.

Mótmæli gegn árásum Bandaríkjanna og Bretlands verða æ tíðari í Sádi-Arabíu og fréttamenn í Ryadh hafa líkt ástandinu við það sem var í Teheran skömmu fyrir fall íranska keisarans. Stjórnvöld í Ryadh hafa opinberlega stutt Bandaríkin, en hafa hins vegar neitað að ljá flugvelli undir árásirnar og æðstu ráðamenn hafa verið tregir til að hitta Bush að máli. Það er ljóst að Bandaríkin þurfa að bregðast við þessum minnkandi stuðningi, enda hefur Sádi-Arabía verið þeirra helsta stuðningsríki í Arabaheiminum hingað til. Margir telja t.d. að stuðningur Pakistana velti á afstöðu Sádanna, og eitt af yfirlýstum markmiðum bin Ladens er að koma Bandaríkjunum út úr Sádi-Arabíu. Það skildi þó ekki vera að þeir væru að því sjálfir.

Stuðningur stjórnvalda í Pakistan hangir líka á bláþræði, enda óhægt um vik fyrir herforingjastjórnina vegna gífurlegrar andstöðu heima fyrir. Stuðningur Pakistana er Bandaríkjunum nauðsynlegur vegna sameiginlegra landamæra landsins og Afganistan. Bandaríkjastórn gerir sér fullvel grein fyrir þessu og Colin Powell fór til Islamabad á mánudagskvöldið til að reyna að telja kjark í pakistönsk stjórnvöld. Til að tryggja stuðning þeirra hafa Bandaríkjamenn lofað Pakistönum ýmiss konar stuðningi, þó þar séu þeir bundnir alþjóðlegum höftum sem sett voru á viðskipti við Pakistan og Indland í kjölfar kjarnorkutilrauna ríkjanna. Bandarísk stjórnvöld hafa þó lofað því að Pakistanar muni fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Það sem veldur minnkandi stuðningi arabaríkjanna eru fullyrðingar vestrænna ráðamanna um að loftárásirnar á Afganistan gætu staðið fram á sumar, jafnvel í nokkur ár og þess vegna áratug. Þetta hefur mælst illa hjá arabískum stuðningsmönnum Bandaríkjanna, vegna þess að þeir sjá sem er að í loftárásum lætur saklaust fólk lífið. Langvarandi loftárásir stofna því lífi fleiri saklaussra borgara í hættu. Skilaboð arabaríkjanna eru þessi; drífið loftárásirnar af og notið landherinn, annars mun stuðningur okkar ekki vera tryggur. Fróðlegt verður að sjá hvort Bandaríkin meta meira, líf hermanna sinna eða stuðning bandamanna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.