Morð í nafni lýðræðis

Það hefur aldrei vafist fyrir Bandaríkjamönnum að finna heilaga réttlætingu fyrir hernaðaraðgerðum sínum. Fyrr á tíðum var verið að berjast gegn „hinu illa heimsveldi“ Sovétríkjunum og hræðslan við dómínóáhrifin (þ.e. að ef eitthvert land tæki upp sósíalískt skipulag myndu fleiri fylgja í kjölfarið) var oftar en ekki réttlæting hernaðarafskipta þeirra í Asíu, Afríku, S-Ameríku og víðar. Bandaríkjamenn hafa gert innrás í lönd til að frelsa lýðræðiselskandi Bandaríkjamanninn sem bjó í brjósti undirokaðra þegna og til að bjarga kúguðum þegnum Arabaríkis frá því að verða kúgaðir af öðru Arabaríki í nafn lýðræðis og frelsis. Lýðræðið er mantra Bandaríkjanna, það er ástæðan fyrir heilögu stríði þeirra.  

Sagan sýnir okkur hins vegar að lýðræðið er það fyrsta sem fær að fjúka þegar kemur til átaka; lýðræðið og fylgifiskur þess, sannleikurinn. Í Víetnamstríðinu lærðu Bandaríkjamenn að hagræða sannleikanum eftir eigin hentugleika. Þar léku fréttamenn lausum hala og myndir af brennandi börnum í napalmeldi, aftökum án dóms og laga og frásagnir af fjöldamorðum bandarískra hermanna brugðu skugga á hina glampandi ímynd Bandaríkjanna sem baráttumenn fyrir frelsi og lýðræði. Colin Powell lærði sína lexíu þar, enda var eitt af hans fyrstu ábyrgðarverkum í bandaríska hernum að breiða yfir fjöldamorðin í víetnamska þorpinu My Lai. Þar murkaði bandaríski herinn lífið úr flestöllum þorpsbúum, konum, börnum og gamalmennum.  

Bandaríski herinn, með Powell í fararbroddi, hafði þannig fengið eldskírnina þegar kom að Persaflóastríðinu, en í millitíðinni höfðu bandarískir áróðursmeistarar þurft að fóðra ýmsar miður geðslegar athafnir stjórnar sinnar, s.s. innrásina í smáríkið Grenada. Persaflóastríðið var sjónvarpsstríð, öllum upplýsingum var stjórnað af herráði Bandaríkjanna. Almenningur sá ljósrákir eftir næturhimni Íraks enda í sprengingu og var sagt þar hefði farið hernaðarskotmark, og eingöngu hernaðarskotmark.  

Hið sama var uppi á teningnum í Kososvo. Það stríð var nefnilega einnig háð í nafni lýðræðis og frelsis og því þótti ekki góð latína að ljóstra upp um mannfall meðal óbreyttra borgara. Serbneska ríkissjónvarpið var hins vegar svo óskammfeilið að koma þeim upplýsingum á framfæri, en Bandaríkjamenn áttu svar við því. Stöðin var sprengd í loft upp í nafni lýðræðis og frelsis. Og nú er komið að Afganistan og enn er Colin Powell við sama heygarðshornið.  

Fyrir nokkrum árum tók til starfa sjónvarpsstöð í furstadæminu Qatar. Stöðin, Al-Djazira, er gerfihnattastöð og starfar undir merkjum frjálsrar og óháðrar fréttamennsku. Tilkoma stöðvarinnar þótti skýrt dæmi um þróun í lýðræðisátt, en því hefur heldur verið áfátt í furstadæminu. Vestrænar þjóðir fögnuðu þessum lýðræðisvotti, en sá fögnuður reyndist skammvinnur. Al-Djazira er eina sjónvarpsstöðin sem hefur fréttamenn á yfirráðasvæði Talibana, svæðinu sem Bandaríkjamenn og Bretar eru gera árásir á. Stöðin hefur flutt fréttir af því hvað er að gerast á svæðinu, mannfalli meðal óbreyttra borgara og starfsmanna Sameinuðu þjóðanna. Óvíst er hvort stöðin heldur áfram þeim fréttaflutningi, því sannar frásagnir eiga ekki upp á pallborðið í lýðræðisstríði Bandaríkjanna og Bretlands.  

Colin Powell hefur nú komið ábendingum sínum á framfæri við stjórnvöld í Qatar um að þetta sé nú ófært, önnur sjónarmið en Bandaríkjamanna eiga ekki að fá að komast að í neinum fjölmiðlum, allra síst sannleikurinn. Því sannleikurinn er auðvitað sá að í sprengjuregni farast allir þeir sem eru á því svæði sem sprengjurnar lenda á, hvort sem þeir eru hermenn, óbreyttir borgarar, fréttamenn, starfsmenn hjálparstofnana, Sameinuðu þjóðanna eða hvað heldur sem er. Sprengjur gera ekki mannamun. Og hversu heitt sem Óli Tynes, Ólafur Sigurðsson og aðrir blindir fylgismenn bandarísks áróðurs vilja trúa því að einungis vondu mennirnir falli í þessum árásum, þá er það firra ein.  

Það er hins vegar sorglegt að vestrænir fjölmiðlar skuli ekki vera sjálfstæðari en svo að þeir gleypi einu sinni enn þegjandi og hljóðalaust lygar og áróður marskálkanna. Hversu oft þarf að sanna að hér er blygðunarlaus áróður á ferð til að fréttamenn kveiki á því fyrirfram, en ekki eftirá eins og í Írak og Kosovo? Lýðræðisstríð Bandaríkjanna þetta árið er ekkert frábrugðið öðrum slíkum stríðum sem þeir hafa háð. Þar er öllum meðölum beitt, ekkert er heilagt, allra síst lýðræðið og sannleikurinn.  

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.