Hræðsla við nýja hugsun

Oft hefur verið sagt að unga kynslóðin sé öðrum kynslóðum opnari fyrir nýjungum, bæði í tækni og hugmyndum. Oftar en ekki á þessi fullyrðing rétt á sér, þó dæmi séu til um að hún eigi sér engan stað í raunveruleikanum. Þannig er sorglegt að sjá viðbrögð sumra þeirra sem tilheyra ungu kynslóðinni við þeim hroðalegu hryðjuverkum sem skuku heimsbyggðina þann 11. september síðastliðinn. Nýjasta dæmið um þetta er grein sem finna má á Frelsi, vefriti Heimdalls, þriðjudaginn 2. október.

Það er kannski ekki við öðru að búast en að ungir íhaldsmenn séu ekki færir um annað en að hugsa voðaverkin út frá gömlu kalda stríðs, hernaðarhyggjuhugsuninni. Hitt er þó öllu verra þegar sagan er misnotuð máli manna til stuðnings. Um það eru mýmörg dæmi í grein Frelsis, sem ber yfirskriftina Ísland varnarlaust? Mestanpart reynir greinarhöfundur þó að hæðast að málstað þeirra sem vilja hverfa frá hernaðarhyggju og leita friðsamlegri lausna. Frelsispenninn reynir að hrekja margar fullyrðingar sem birst hafa á "vefriti ungra sameignarsinna". Líklega á hann þar við Múrinn og rennir skírskotun hans í "Jakobssyni" stoðum undir þá túlkun.

Gefum Frelsaranum orðið: "Því er haldið fram að afnám "félagslegs" misréttis muni afstýra hættunni á hryðjuverkum. Þessi röksemd fellur um sjálfa sig þegar af þeirri ástæðu að sá sem grunaður er um hryðjuverkin er milljarðamæringur." Hér er spaklega mælt og augljóst að í heiminum er eingöngu til einn hryðjuverkamaður og hefur sá nóg fé handa á milli. Félagslegt misrétti í löndum sem alið hafa af sér öfgahreyfingar, hefur greinilega ekki borist unga íhaldsmanninum til eyrna. Þær aðstæður sem milljónir manna búa við, m.a. í flóttamannabúðum, hafa alið af sér reiða unga menn sem tilbúnir eru að fórna lífi sínu við málstaðinn. Eða var það kannski bin Laden sjálfur sem flaug vélunum? Augljóst er að með því að uppræta félagslegt misrétti, bera virðingu fyrir menningu framandi þjóða og sjá til þess að fólk hafi í sig og á, minnkar hættan á hryðjuverkum til muna.

Frelsispenninn heldur áfram í ályktunum sínum og nú uppljóstrar hann um söguþekkingu sína. Má þar m.a. heyra gamlan söng úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins, nefnilega þann að Bandaríkjunum sé að þakka að Íslendingar hafi getað fært út landhelgi sína. Meiri firru er varla hægt að finna. Þegar Lúðvík Jósepsson stóð í stríði vegna útfærslu landhelginnar, fyrst árið 1958 og síðar árið 1972, voru það Natóþjóðirnar sem stóðu gegn henni með dyggum stuðningi innlendra Natóvina. Á hafréttarráðstefnu SÞ árið 1960 lögðu Bandaríkjamenn til alþjóðasáttmála um 6 mílna landhelgi. Þá höfðu Íslendingar búið við 12 mílna landhelgi í eitt og hálft ár. Íslendingar greiddu atkvæði gegn tillögu Bandaríkjanna og vantaði hana einungis eitt atkvæði til að fá þá 2/3 hluta sem hún þurfti til að verða að alþjóðlegum lögum. Slík var barátta Bandaríkjanna fyrir hagsmunum Íslendinga. Það var í tíð vinstri stjórnanna 1958 og 1972 sem Ísland stóð eitt uppi í hárinu á Natóþjóðunum og það var eingöngu óttinn við úrsögn landsins úr Nató sem fékk Bandaríkjamenn til að minnka stuðning sinn við Breta í baráttu þeirra við smáríkið Ísland.

Frelsispenninn vitnar einnig til stefnu Chamberlain gagnvart Hitler, stefnu sem hann nefnir "stefnu veikra varna og samninga". Á síðum Múrsins hefur áður verið fjallað um friðkaupastefnuna svonefndu og þarf því ekki að fara djúpt ofan í hana hér. Þó má ljóst vera að þegar Chamberlain var í samningaviðræðum við Hitler var Bretland engan veginn í stakk búið til stríðs. Þess vegna keyptu Bretar sér tíma á meðan þeir byggðu upp eigin hergagnaiðnað. Þá er það furðuleg ályktun að "sameignarmenn" hafi stutt stefnu Chamberlains gagnvart Hitler, þvert á móti predikuðu þeir stríð fyrstir manna. En það hefur hent betri menn en Frelsarann að rugla saman byltingarsinnum og friðarsinnum. Chamberlain var hins vegar enginn friðarsinni heldur voru íhaldsmenn um alla Evrópu lítt reiðubúnir til að fara í stríð við Hitler sem þeir töldu brjóstvörn gegn kommúnistum. Chamberlain stórjók hernaðarútgjöld í Bretlandi á sínum tíma og stefna hans um að semja ætti við Hitler stafaði ekki af því að hann væri almennt hlynntur samningastefnu. Þá féllust margir borgaralegir stjórnmálamenn að hluta á þjóðerniskröfur Þjóðverja og var það ekki fyrr en Hitler hernam land sem allir viðurkenndu að ekki væri byggt "Þjóðverjum" að Vesturlönd sögðu honum stríð á hendur.

Meðal fleiri rangfærslna frelsarans er að það hafi verið sérstakt happ að Bretar hafi hernumið Ísland á undan Þjóðverjum. Með því er gefið í skyn að Þjóðverjar hafi haft áætlanir um að hernema Ísland og tök til þess en hvorugt kemur heim og saman við álit þeirra sagnfræðinga sem eru fróðastir um hernað í seinni heimsstyrjöldinni. Þá er nýstárleg söguskoðun Frelsarans að lýðveldið Ísland hafi ekki orðið til nema vegna stuðnings Bandaríkjamanna. En þetta er eins og hver annar brandari. Helsta framlag Bandaríkjastjórnar til lýðveldisstofnunarinnar var að vara við áformum svonefndra "hraðskilnaðarmanna" sem vildu stofna lýðveldi á Íslandi fyrr. Hins vegar sendi Bandaríkjastjórn Íslendingum einlægar hamingjuóskir við lýðveldisstofnun eins og flestar ríkisstjórnir bandamanna.

Það er nokkur vandi að bregðast við skrifum Frelsarans, ekki vegna þess að þau séu rökföst og málefnaleg heldur vegna þess að sögukunnátta höfundar er svo bágborin að fátt er að gera annað en að leiðrétta rangfærslur. Það er sorglegt að sjá hvernig hinn ungi íhaldsmaður neitar að horfast í augu við staðreyndir. Hvarvetna má sjá skrif manna sem tala um að með hryðjuverkunum í Bandaríkjunum hafi heimurinn breyst. Ný heimsmynd þarf nýja hugsun, alþjóðamál þarf að hugsa upp á nýtt. Fyrir þessu hefur verið talað af sameignarsinnunum á Múrnum. Það er miður að ungir íhaldsmenn séu fastir í gömlum kreddum hernaðarhyggjunnar.

kóp/sj

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.