Fjárlagafrumvarp frjálshyggjunnar

Fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp ársins 2002 í gær, mánudaginn 1. október. Þar kennir margra grasa eins og við er að búast, enda um stærsta mál hvers þings að ræða. Ríkisstjórnin ætlar sér að skila tekjuafgangi upp á 18,6 milljarða á næsta ári og er óskandi að betur fari fyrir þeim áætlunum en tekjuafgangi þessa árs. Fyrirhugaður tekjuafgangur byggist hins vegar eingöngu upp á sölu ríkisfyrirtækja og reynsla þessa árs sýnir að ekki er á vísan að róa í þeim efnum. Þannig ætlar ríkisstjórnin að selja Landssímann hvað sem tautar og raular, þó almenningur hafi ekki sýnt neinn áhuga á að kaupa hann fyrir nokkru.

Meðal breytinga sem fjármálaráðherra hefur boðað er skattalækkun á fyrirtæki. Þar kveður við kunnuglegan tón, því frjálshyggjumenn hafa ætíð haldið því fram að fyrirtæki hér á landi sé skattpínd úr hófi fram og hagur þjóðarinnar felist í því að lækka þann skatt. Samanburður við nágrannalöndin sýnir þó að svo er ekki. Miðað við niðurskurð síðustu ára í mennta- og heilbrigðiskerfi er einnig fáránlegt að ætla sér að fara að lækka skatta.

Heilbrigðiskerfið hefur orðið sérlega illa fyrir barðinu á niðurskurðarhnífnum og fréttir af lokunum deilda, tímabundið og ótímabundið, eru alltof algengar. Þessa dagana eru hundruðir sjúkraliða í verkfalli vegna lélegra launa og hefur af þeim sökum þurft að draga mjög úr skurðaðgerðum. Biðlistar í aðgerðir eru alltof langir og ljóst er að heilbrigðiskerfinu er alltof þröngur stakkur sniðinn. Hið sama má segja um menntakerfið og hefur Háskóli Íslands t.a.m. verið í fjársvelti til margra ára. Hins vegar er víða tilefni til niðurskurðar, eða tilfærslu, eins og glöggt má sjá á fjárlagafrumvarpinu. Það er t.d. ætlun stjórnvalda að eyða nær 200 milljónum króna í öryggisgæslu til að utanríkisráðherrar hernaðarbandalagsins Nató geti fundað í friði og ró. Augljóst er að lögregluembætti víða um land mundu ekki slá hendinni á móti þessari upphæð til eflingar löggæslu.

Það er því ljóst að víða er pottur brotinn í fjárhagsáætlunum ríkisstjórnarinnar. Tekjuaukning ríkissjóðs byggir á ótryggum forsendum og ekki er lengur stuðst við þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar. Sú spá gerir ráð fyrir samdrætti á næsta ári en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir 1% hagvexti. Ljóst er að um milljarða króna sveiflu er að ráða hvor áætlunin stenst. Grundvöllur frumvarpsins er því ekki traustur.

Hins vegar er ekkert að því að gera breytingar á skattkerfinu og ef tekjuafgangur ríkissjóðs verður í líkingu við það sem stjórnvöld gera ráð fyrir er tækifæri á ýmsum úrbótum. Þá má hugsa sér að skattleysismörk verði hækkuð og skattaumhverfi þeirra sem minnst mega sín verði lagað. Þannig verði ríkissjóður notaður til að auka jöfnuð í samfélaginu, en það á alltaf að vera fyrsta hlutverk ríkisins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.