Látið símann í friði!

Nýlega kom óvænt bakslag í einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar. Síðan Davíð Oddsson fékk Halldór Ásgrímsson sér til hjálpsinnis við stjórnun landsins, hafa þeir haft fullan hug á því að koma sem flestum eignum ríkisins sem skila af sér arði, í hendur einkaaðila. Þetta er í fullu samræmi við þá miklu markaðsvæðingu sem tröllriðið hefur íslensku samfélagi undanfarin ár, þar sem allt snýst um hlutabréfatíðindi og verðbréfasölu. Nýlega var komið að því að selja fyrirtæki sem íslenska þjóðin hafði byggt upp í tæplega heila öld, Landsímann.

Áður hafði verið farin hin hefðbundna undirbúningsleið þegar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja er að ræða. Óarðbæri hluti fyrirtækisins var aðskilinn og því skipt upp í símafyrirtæki og póstþjónustu. Þar næst var fyrirtækinu breytt í hlutafélag, sem virðist vera öruggasta merki þess að einkavæðing sé á næsta leyti. Fyrir síðustu helgi var síðan komið að því að bjóða almenningi herlegheitin til sölu (hvernig sem hægt er að selja þjóðinni fyrirtæki sem hún á þegar). Eitthvað fór hins vegar úrskeiðis og í ljós kom að þjóðin hafði engan áhuga.

Áform ríkisstjórnarinnar fóru gjörsamlega út um þúfur, í stað þeirra 15 milljarða sem salan átti að skila í ríkissjóð var uppskeran 2 milljarðar. Samgönguráðherra og kollegar hans gripu til hefðbundinna útskýringa þegar eitthvað sem þeir hafa planlagt mistekst, kenndu öðrum um. Í þetta sinn var það Búnaðarbankinn sem varð fyrir valinu, en hans glæpur var að sjá um söluna á hlutabréfunum sem svo fáir vildu kaupa. Sá sem skipulagði einkavæðinguna, Hreinn Loftsson formaður einkavæðingarnefndar, samgönguráðherra og samráðherra hans hafa hins vegar algjörlega þvegið hendur sínar af klúðrinu. Augljóst er hins vegar að Búnaðarbankinn gerði ekkert nema það sem fyrir hann var lagt og ábyrgðin liggur því ekki hjá bankanum.

Margir hafa rætt og ritað um þessa misheppnuðu sölu og sýnist sitt hverjum um ástæður þess að hún fór út um þúfur. Eftirtektarvert er hins vegar að enginn virðist lengur setja spurningamerki við réttmæti þess að selja símann yfir höfuð. Það er hins vegar ekkert sjálfsagt við einkavæðingu símans, síst með þeim formerkjum sem ríkisstjórnin og einkavæðingarnefnd hafa sett sér. Einn kjölfestufjárfestir á að fá meirihluta í stjórn fyrirtækisins í krafti u.þ.b. fjórðungs eignarhlutar. Þannig verða yfirráð þjóðarinnar yfir þessu fyrirtæki hennar afhent einum aðila á spottprís. Einkavæðing símans yfir höfuð á hins vegar engan rétt á sér. Síminn hefur verið í þjóðareign frá stofnun hans og hann hefur alla tíð verið öryggistæki þjóðarinnar. Lögmál markaðins eiga ekki að ráða þegar öryggistæki eiga í hlut.

Þau rök að selja verði símann vegna þess að þar sé á ferð ríkisfyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki eru haldlítil. Það skiptir engu hvort ríkið keppir við einkaaðila eða er eitt um hitun á einokunarmarkaði. Það sem skiptir máli er hvernig þjónusta neytendum stendur til boða og hvað er gert við þann hagnað sem hlýst af rekstrinum. Það að einn eða fleiri aðilar ákveði að fara út í rekstur á ákveðnu sviði þar sem ríkið er á fleti fyrir, þýðir ekki að allt eigi eftir það að meta eftir þeirra forsendum. Það eru forsendur þjóðarinnar sem skipta máli. Ef menn hins vegar vilja keppa við ríkið á sú keppni að fara fram á sanngjarnan hátt af beggja hálfu. Það er hins vegar ekkert að því að ríkið hagnist á fyrirtækjarekstri, hvort sem er í samkeppni við einkaaðila eða ekki, svo lengi sem hagnaðurinn er nýttur í samneyslu þjóðarinnar.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.