Valdboðið vopnahlé

Stórtíðindi bárust frá Mið-Austurlöndum í gær þegar Palestínumenn og Ísraelar lýstu yfir algjöru vopnahléi. Átökin þar hafa staðið nær linnulaust síðan Ariel Sharon heimsótti palestínska mosku og vanhelgaði hana þannig að mati Palestínumanna. Í kjölfarið varð Sharon forsætisráðherra Ísraels og átökin stigmögnuðust eins og allir þekkja. Um langa hríð hefur verið reynt að koma á fundi á milli Peresar og Arafats, en af honum hefur ekki orðið. Það er ekki síst einstrengingsleg afstaða ísraelskra yfirvalda sem hefur valdið því. Stefna Sharons var nefnilega sú að viðræður við Palestínumenn gætu ekki farið fram fyrr en Palestínumenn hefðu haldið að sér höndum og ekki hleypt af einu einasta skoti í tvo sólarhringa samfleytt.

Augljóst er að Sharon hefur fallið frá þessari kröfu sinni, enda víst að ekki hefði að öðrum kosti komið til viðræðna. Umhugsunarefni er hins vegar hvers vegna Sharon velur þennan tímapunkt til að gera það sem hann hefur heitið að gera aldrei; gefa eftir í afstöðu sinni gagnvart Palestínu.

Ekki þarf nokkur að velkjast í vafa um það að hryðjuverkin í Bandaríkjunum í síðustu viku, eru meginástæða þessarar áherslubreytingar. Bandaríkjamenn undirbúa nú aðgerðir til að hefna fyrir hryðjuverkin og allt útlit er fyrir að þær verði ekki af smærri gerðinni; Rumsfield varnarmálaráðherra hefur t.a.m. neitað að útiloka beitingu kjarnorkuvopna og Bush hefur lýst eftir Osama bin Laden "dauðum eða lifandi". Það er því augljóst að Bandaríkin hafa nóg á sinni könnu á alþjóðavettvangi. Stefna stjórnarinnar er sú að ná sem víðtækastri samstöðu um aðgerðir gegn bin Laden. Þess vegna hefur Bandaríkjastjórn beitt stríðandi aðila fyri botni Miðjarðarhafs miklum þrýstingi og vonast til þess að vopnahlé þar ýti undir stuðning arabaheimsins við aðgerðir í Afghanistan. Arafat hefur þegar lýst yfir stuðningi sínum.

Það er hins vegar athyglisvert að velta því fyrir sér hvað knýr stjórn Ísraels til að ganga bak orða sinna nú. Margir óttuðust að hún myndi nýta sér þá staðreynd að samúð með Palestínumönnum fer minnkandi vegna vaxandi tortryggni gagnvart aröbum í hinum vestræna heimi í kjölfar hryðjuverkanna. Ísraelsher mundi þannig láta kné fylgja kviði og stórauka aðgerðir sínar í Palestínu, á meðan heimsbyggðin fagnaði árásum Bandaríkjanna á Afghanistan. Raunin er hins vegar allt önnur. Nú þegar tækifæri var til enn stórtækari aðgerða, gera Ísraelsmenn vopnahlé og kasta hinum tveggja sólarhringa fresti fyrir róða.

Það sýnir betur en nokkuð annað það sem margir hafa haldið fram hingað til, m.a. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og nýlega var bent á í grein hér á Múrnum; Bandaríkjamenn gátu stöðvað átökin hvenær sem þeim sýndist. Þrýstingur þeirra á Ísrael hefur orðið til þess að nú er vopnahlé komið á. Þeim þrýstingi hefðu þeir getað beitt hvenær sem þeim þóknaðist – það hefur hins vegar ekki verið Bandaríkjunum í hag fyrr en nú. Hvort sem vopnahléið heldur eða ekki hefur þessi atburður sýnt okkur svo ekki verður um villst hve miklu Bandaríkjamenn ráða í stefnu Ísraels. Enn fremur er augljóst að eigin hagsmunir ráða utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.