Vopnaður friður

Fyrir nokkrum árum fór undirritaður í frí til Bandaríkjanna. Eftir kvíðafulla bið við tollhliðið þar sem þess var beðið hvort svarti listinn þar ytra næði enn yfir fyrrum meðliði Æskulýðsfylkingarinnar var haldið inn í fyrirheitna landið. Þar dvaldist undirritaður í heimahúsi, í úthverfi Orlando. Hverfið var allt víggirt með mikilli gaddavírsgirðingu. Tvær leiðir voru inn í það og við þær báðar sat öryggisvörður. Til að komast þangað inn þurfti hann að samþykkja komu þína, sem var auðsótt fyrir íbúa hverfisins. Gestir þurftu hins vegar að bíða á meðan hringt var til þeirra sem átti að heimsækja og leyfi fengið fyrir komunni. Vei þeim sem lenti í því að viðkomandi var í baði, úti í garði eða heyrði einfaldlega ekki í símanum. Sá þurfti að snúa aftur.

Dvölin í þessu hverfi hefur ítrekað komið upp í hugann við umræður um afleiðingar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum. Svo virðist sem margir telji að nú sé svo komið að leiðin sem farin var í þessu úthverfi Orlando sé sú eina rétta. Einkalíf og frelsi verði að fórna fyrir öryggið. Áður en menn koma upp víðtæku eftirlitskerfi er þó líklega rétt að staldra aðeins við og hugsa sinn gang og velta fyrir sér ástæðu þess að þegnar krefjast meira öryggis.

Glæpir eru eitt mesta samfélagsmein sem heimsbyggðin glímir við. Ástæður að baki þeirra geta verið margar, ást, afbrýðissemi, hatur o.s.frv. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra glæpa sem framinn er á þó undirrót sína í þeirri örbirgð sem glæpamennirnir búa við. Þannig fremja fíkniefnaneytendur glæpi til að fjármagna neyslu, í fátækrahverfum stórborga ríkir vonleysi sem brýst út í glæpum, og peningaleysi verður fólki tilefni til rána. Á sama hátt eru engin hryðjuverk framin án ástæðu, þ.e.a.s. hryðjuverkamennirnir telja sig allir hafa eðlilegar ástæður fyrir verknaði sínum, hversu fáránlegar sem þeir kunna að hljóma í eyrum venjulegs fólks.

Þannig velkist enginn í vafa um ástæður þær sem búa að baki hryðjuverkum IRA eða ETA, hvort sem menn eru samþykkir þeim eða ekki. Hið sama má segja um ýmsa hryðjuverkahópa araba. Í Palestínu berjast menn gegn hernámi og kúgun Ísrael og víða berjast menn gegn íhlutun Bandaríkjanna í þessum heimshluta. Það er staðreynd sem ekki verður vikist undan, að utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur orkað mjög tvímælis. Yfirgangur þeirra í Mið-Austurlöndum hefur til dæmis kynt undir hatri á Bandaríkjunum. Þar hafa aðgerðir þeirra algjörlega stjórnast af eiginhagsmunum. Ef í ljós kemur að hin nýlegu hryðjuverk voru framin af aröbum má ljóst telja að utanríkisstefna Bandaríkjanna er sú ástæða sem hryðjuverkamennirnir hafa til að réttlæta aðgerðirnar fyrir sér.

Til að taka af allan vafa skal tekið fram að undirritaður er ekki að réttlæta hryðjuverkin. Dráp á fólki eiga aldrei rétt á sér, hver sem á í hlut og því ber að fordæma þessi ódæðisverk. Til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig, verður hins vegar að fara að hugsa málin upp á nýtt. Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur um árabil verið umdeild. Þeir sjá sjálfan sig sem alheimslögreglu sem eigi að halda uppi röð og reglu. Gallinn er sá að enginn réð þá til verksins og sjálfsskipuðum löggæslusveitum hættir til að gera hlutina á eigin forsendum. Svo er og um Bandaríkin. Afleiðingar kalda stríðsins eru þær að úti um allan heim búa misjafnir menn yfir vopnum og verjum frá öðru hvoru stórveldanna. Yfirgangur Bandaríkjanna hefur síðan víða alið af sér hatur sem brýst út með slíkum voðaverkum.

Eina raunsanna lausnin á þessum málum er að uppræta þær aðstæður sem ala af sér slíkt ástand. Eftir lok kalda stríðsins var færi á að hugsa heimsmálin algjörlega upp á nýtt. Þá voru Vesturlönd, undir forystu Nató, hins vegar ölvuð af sigurvímu og sáu færi á að láta kné fylgja kviði. Þess vegna hefur heimsmyndin svo til ekkert breyst, þrátt fyrir hrun Sovétríkjanna. Enn eru menn í vígbúnaðarkapphlaupi, enn er verið að hrókera ríkjum á valdatafli heimsmálanna, enn er vopnum dælt í sum ríki. Hugsunin er enn sú sama; bandarískir hagsmunir ofar öllu.

Nú er hætt við að hryðjuverkin geti af sér hefndaraðgerðir sem geri ekkert annað en að ala enn frekar á hatri á Bandaríkjunum og þar með hættu á frekari hryðjuverkum. Við því verður brugðist með því að auka eftirlit, herða hernaðarleg tök í fjarlægum heimshornum. Þetta er sennilega besta mögulega niðurstaða fyrir þá sem frömdu hryðjuverkin, því þeir sem beita ofbeldi þrífast á ofbeldi. Talsmenn friðar og mannúðar munu hins vegar beita sér fyrir öðrum leiðum. Friðsamlegar lausnir á deilum fyrir botni Miðjarðarhafs, virðing fyrir mannréttindum hvort sem um Ísraela eða Palestínumenn er að ræða, aðstoð í stað þvingana – þetta eru leiðirnar sem munu gera heiminn að byggilegri stað. Ekki sprengjur og aukið eftirlit.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.