Íslandssaga endurlausnarans

Hrafn Jökulsson er einn af reyndari blaðamönnum þjóðarinnar. Hann hefur skrifað í fjöldann allan af dag- og vikublöðum sem komið hafa út hér á landi og nú síðast var hann ritstjóri vefritsins Pressan. Hann er mikill áhugamaður um sögu og hefur m.a. gefið út bækur um það efni. Nýlegur pistill á Pressunni bendir hins vegar til þess að Hrafn sé eitthvað að ryðga í sagnfræðinni. Þó gæti verið að hér sé eingöngu um áróðurspistil að ræða fyrir endurkomu endurlausnara nútímalegra jafnaðarmanna.

Sá endurlausnari hlær samkvæmt heimildum Hrafns kuldahlátri í Washington þessa dagana. Ástæðan er sú að sá flokkur sem áður barðist gegn EES-samningnum hýsir nú flesta stuðningsmenn aðildar að ESB. Lítið er ungs manns gaman ef sögurnar af hláturrokum Jóns Baldvins reynast á rökum reistar. Kuldahlátur sendiherrans er heldur ekki aðalefni greinarinnar, þó að hann hafi ratað í titilinn. Tilefni greinarinnar er athyglisverð sagnfræðikenning Hrafns.

Sviðið er alþingiskosningarnar árið 1991. EES-samningurinn var eitt af stóru málum kosninganna og enginn komst upp með að hundsa hann (þetta var á þeim tíma þegar utanríkismál þóttu enn pólitík). Framsóknarflokkurinn kvað upp úr með andstöðu sína við samninginn. Alþýðubandalagið neitaði svo mikið sem að ræða samninginn, vildi beina öllum kröftum landsins í tvíhliða viðræður við ESB. (Hrafn virðist reyndar ekki muna eftir þessu útspili Alþýðubandalagsins, enda hentar það honum ekki vel í rökstuðningi sínum). Kvennalistinn var á móti samningnum, Sjálfstæðismenn voru lítt hrifnir af honum og töluðu þess í stað fyrir tvíhliða viðræðum og Alþýðuflokkurinn var hlynntur samningnum.

Úrslit kosninganna urðu þau að vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar hélt velli, vegna fylgisaukningar Alþýðubandalagsins. Ekki var því annað að sjá en að hún sæti áfram. Vissulega þurfti að gera nýjan stjórnarsáttmála eins og venja er við þessar aðstæður, enda áherslur ríkisstjórnarflokkanna í mörgum málefnum mismunandi (þetta hefur ætíð verið raunin með stjórnir sem sitja áfram, meira að segja Viðreisnarstjórnina). Bar þá til óvænt bátsferð Jóns Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar út á sundin blá, með viðkomu í Viðey. Niðurstaða þeirrar bátsferðar var Viðeyjarstjórnin, stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Þó Alþýðuflokkur væri miklum mun minni flokkur fékk hann helming ráðherra, enda kostaði hann ekki litlu til; gjaldið var forsætisráðherrastóll undir Davíð Oddsson. Á þeim stóli hefur hann setið síðan, þó að Halldór Ásgrímsson hafi tekið við stöðu meðreiðarsveins eftir að Davíð vísaði Jóni Baldvini frá.

Það hlýtur því að teljast til tíðinda þegar Hrafn Jökulsson upplýsir að það hafi alls ekki verið Jón Baldvin Hannibalsson sem leiddi Davíð til þess hásætis sem hann hefur síðan setið í. Það voru Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta vekur mikla undrun, enda hlýtur þetta að vera í fyrsta skipti í stjórnmálasögunni þar sem leiðtogi flokks er leiddur nauðugur viljugur í samstarf við annan flokk, af leiðtogum þriðja og fjórða flokksins! Það er eins gott að stjórnmálamenn víða um heim læri ekki þessa stjórnkænsku þeirra Ólafs Ragnars og Steingríms. Hver veit nema menn verði neyddir til samstarfs við óæskilega flokka á hægri vængnum (kannski var það þetta sem gerðist í Austurríki?).

Jón Baldvin og hans helstu stuðningsmenn hafa ætíð haft þá skýringu á því að Alþýðuflokkurinn sprengdi vinstri stjórnina og kom hægri stjórn á, að annars hefði Steingrímur eða Ólafur Ragnar gert það. Þau rök hafa ætíð þótt haldlítil og nú þegar endurkoma endurlausnarans hefur verið boðuð er búið að finna nýja skýringu. Bólfarir Davíðs og Jóns Baldvins voru nauðugar. Það er því ekki nema von að Jón Baldvin hlæi kuldahlátri í Bandaríkjunum nú þegar arftaki hans í íhaldsbólinu er orðinn enn meiri Evrópusinni en hann sjálfur. Hver á nú að neyða hann í bólið með Davíð?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.