Slæmar fréttir frá Ísrael

Nú er útlit fyrir að ekkert verði af fyrirhuguðum fundi Yassers Arafat og Simonar Peres, sem fram átti að fara í dag.  Margir hafa lagt hönd á plóginn til að koma fundinum á, enda talið að hann geti leitt til þess að friðvænlegra horfi fyrir botni Miðjarðarhafs. Ástæðan er árás Palestínumanna á Ísrael nú um helgina.

Þeir Arafat og Peres munu því ekki ráða ráðum sínum við lausn mála í Ísrael og Palestínu.  Þess í stað mun ofbeldi verða svarað með ofbeldi, Ísraelar geta hefnt sín fyrir árásir helgarinnar og Palestínumenn svarað í sömu mynt.  Á meðan leiðtogar Ísrael þráast við að setjast við samningaborðið finnst engin lausn á deilunni.  Arafat hefur ítrekað lýst sig reiðubúinn til viðræðna við Peres og sá síðarnefndi hefur ekki útilokað slíkan fund.  Peres hefur hingað til ekki verið talinn fylgjandi skoðun forsætisráðherra síns þess efnis að engar samningaviðræður skuli fara fram fyrr en ofbeldinu hefur lokið.  Hann hefur opnað á þann möguleika að þeir Arafat setjist niður og reyni að finna lausn sem hefur í för með sér endalok ofbeldisins, í stað þess að bíða eftir að það gerist af sjálfu sér.
 
Þess vegna eru fréttir af viðbrögðum Ísraela nú sérstaklega mikil vonbrigði.  Ljóst er að herskáir aðilar af báðum þjóðum munu ætíð gera sitt til að koma í veg fyrir samkomulag.  Þó Arafat sé valdamikill ræður hann ekki yfir öllum gerðum Palestínumanna, ekki frekar en aðrir þjóðarleiðtogar yfir gerðum þegna sinna.  Því er viðbúið að öfgamenn munu ætíð nýta tækifærið þegar hyllir undir friðarviðræður og hefja árásarhrinu á Ísrael.  Vegna vanþroska ísraleskra ráðamanna munu þeir síðan bregðast við á þann eina hátt sem þeir kunna, með hefndaraðgerðum.  Þá skiptir þá engu hvort þeir sem verða fyrir þeim árásum eru þeir sömu og stóðu fyrir árásunum sem verið er að hefna, það dugar að þeir séu sömu þjóðar.
 
Deilan fyrir botni Miðjarðarhafs er flókin og augljóst að engin lausn er í sjónmáli, a.m.k. á meðan Ísraelar neita að ræða við Palestínumenn.  Þar er ábyrgð þeirra mikil og ekki síður ábyrgð Bandaríkjanna.  Bandaríkjastjórn hefur haldið hlífiskyldi yfir Ísraelum á alþjóðavettvangi og gert þeim kleift að stunda mannréttindabrot óáreittir og að hundsa samþykktir Sameinuðu þjóðanna.  Á meðan alþjóðlegur þrýstingur er ekki meiri en hann er í dag er hæpið að nokkuð breytist í þeirri stöðu.  Það væri óskandi að íslenskir ráðamenn, sem voru bóngóðir þegar kom að því að gera árásir á Serbíu, sýndu þroska í alþjóðlegum samskiptum og beittu Bandaríkjamenn þrýstingi.  Sá þrýstingur einn og sér skiptir risaveldið kannski ekki miklu, en um leið og ljóst er að dyggustu taglhnýtingar bandarískrar utanríkisstefnu fordæma stefnu Bandaríkjanna í málefnum Ísrael, gætu fleiri farið að hugsa sinn gang.  Það er nefnilega ekki nóg að vera keikur þegar verið er að kasta sprengjum í fólk í fjarlægum löndum, samningar eru ábyrga leiðin í stjórnmálum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.