Mannréttindi lítils virði

Miklar deilur hafa að undanförnu átt sér stað í suðurafrísku borginni Durban. Deiluaðilar eru allir fulltrúar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og deilurnar hafa að mestu snúist um tvennt; bætur vegna þrælasölu nýlenduveldanna og orðalag yfirlýsingar þar sem síonismi er kenndur við rasisma. Fyrrum nýlenduþjóðir eru tregar til að borga bætur vegna þrælasölu sinnar og lítil von virðist vera um lausn á því máli. Ekki horfir betur til hvað varðar deilurnar um síonismann. Fulltrúar Bandaríkjanna stormuðu út af ráðstefnunni á mánudaginn var og Ísraelar voru ekki lengi að feta í fótspor þeirra. Nú lítur út fyrir að fulltrúar Frakka og fleiri Evópuþjóða muni fylgja í kjölfarið.

En um hvað snýst deilan um síonismann? Síonismi er hreyfing sem kom fram um miðja 19. öldina. Aðalbaráttuefni hennar var stofnun Ísraelsríkis og í því samhengi komu ýmsar hugmyndir upp, m.a. um endurreist Ísraelsríki í Úganda. Talsmenn síonisma horfðu þó helst til Palestínu og árið 1948 komu SÞ Ísraelsríki á fót þar. Síonisminn hvarf ekki þó helsta baráttumál hans væri orðið að veruleika. Eftir 1948 hefur skilgreiningin á síonisma verið heldur á reiki, en yfirleitt er hreyfingin tengd við þróun og útþenslu Ísraels, ekki síst eftir sex daga stríðið. Þannig eru ekki allir gyðingar síonistar, ekki einu sinni allir Ísraelar. Fjöldi þeirra telur að halda eigi sig innan ramma þeirra samþykkta SÞ sem voru grundvöllur stofnunar Ísraelsríkis.

Í texta lokayfirýsingar mannréttindaráðstefnunnar í Durban er lagt til að rætt sé um "kynþáttafordómafullt eðli síonisma" auk þess sem minnst er á "nýja aðskilnaðarstefnu" Ísraels. Hvað varðar fullyrðinguna um kynþáttafordómafullt eðli síonisma er erfitt að sjá annað en hún eigi fullan rétt á sér. Síonismi í dag gengur að miklu leyti út á þá hugmynd að nema ný svæði fyrir Gyðinga þar sem þeir einir eigi réttinn á búsetu þar vegna þess að þeir eru Guðs útvalda þjóð. Það er m.ö.o. gengið út frá þjóðerni sem rétti til búsetu, ekki ósvipað því sem var uppi á teningnum í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu. Þar var fjöldi manns hraktur á vergang til að rýma fyrir hinum "réttu" íbúum svæðisins og reynt var að gera stór svæði þjóðernislega einsleit. Hið sama er uppi á teningnum hjá Ísraelum.

Enginn vafi getur heldur leikið á því að Ísrael stundar "nýja aðskilnaðarstefnu". Palestínumenn eru á stórum svæðum einangraðir og aðskildir frá öðrum íbúum landsins. Þeir þurfa að ferðast með skilríki á sér, þeim er meinaður aðgangur að svæðum, oft og tíðum geta þeir ekki stundað vinnu sína og ef þeir komast til vinnu verða þeir að fara í gegnum varðstöðvar þar sem vopnaðir Ísraelar athuga þá í bak og fyrir. Innan landamæra Ísraels búa tæplega milljón kristnir arabar og eru þeir meðhöndlaðir sem annars flokks borgarar. Ísraelar bera því við að hér sé um öryggisráðstafanir að ræða, þessi harða meðhöndlun þeirra á aröbum sé forsenda öryggis Ísraelsríkis. Það má vel vera að í stríði eins og því sem nú geisar verði menn að grípa til öfgakenndra aðgerða, en margar ráðstafanir Ísraela hafa verið við lýði árum saman. Öryggisrökin hljóma líka skelfilega lík þeim rökum sem ávallt hafa verið höfð uppi þegar einn samfélagshópur er einangraður, t.d. þegar Þjóðverjar einangruðu Gyðinga og neyddu til að ganga með sérstök merki.

Það er því mikill skaði að fulltrúar á mannréttindaráðstefnu SÞ geti ekki horft framhjá dægurpólitík og rætt um mannréttindi á afstæðari nótum. Ábyrgð Bandaríkjastjórnar í málinu er gífurleg, því eins og Halldór Ásgrímsson sagði réttilega á dögunum þá er í hennar valdi að stöðva átökin hvenær sem henni sýnist. Eiginhagsmunir eru hins vegar ríkari alþjóðlegum sáttmálum og fögrum gildum þegar til kastanna kemur. Það hefur því miður sýnt sig aftur og aftur að mannréttindi eru lítils virði þegar pólitískir hagsmunir eru í húfi.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.