RÚV og BBC

Mikil umræða hefur farið fram síðustu daga um stöður Rúv. Margir hafa tjáð sig um málið og sýnist sitt hverjum. Í þeirri umræðu hefur krafan um að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði verið hávær. Ekki er víst að auglýsingageirinn sé ginnkeyptur fyrir þeirri hugmynd, en sjálfsagt er að skoða hana. Áform virðast vera uppi um að setja Rúv á fjárlög og afnema þannig afnotagjöld. Sú hugmynd er góðra gjalda verð, enda er Ríkisútvarpið menningarstofnun sem kemur samfélaginu öllu til góða. Það er því eðlilegt að hún sé rekin á svipuðum grundvelli og aðrar slíkar stofnanir, s.s. Sinfoníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra skrifar um málefni Rúv í nýlegum pistli á heimasíðu sinni. Að vísu fer hann ekki djúpt í umræðuna, er meira að reifa það sem menn hafa sagt um málið og dregur sínar ályktanir af því. Athyglisverð eru ummæli hans um afstöðu vikuritsins The Economist til ríkisreksturs BBC. Margir sem talað hafa fyrir því að rekstur Rúv verði með óbreyttu sniði hafa einmitt vitnað til Bretlands máli sínu til stuðnings. Þar, í vöggu frjálslyndisins, er BBC ríkisrekið með gífurlega starfsemi í samkeppni við einkastöðvar.

Björn vitnar í pistli sínum til breyttra viðhorfa og slær þannig vopnin úr höndum þeim sem vilja ríkisrekstur sjónvarps/útvarps. Hann segir "athyglisvert að fylgjast með umræðunum í Bretlandi, en æ fleiri, þeirra á meðal vikuritið The Economist, hallast nú að því, að tími BBC sem ríkisfyrirtækis sé á enda kominn, BBC hafi ekki þá sérstöðu lengur, sem réttlæti, að ríkið reki það." Þetta eru vissulega nokkur tíðindi, því Bretar hafa hingað til staðið vörð um ríkisrekstur BBC, hvar í flokki sem þeir eru komnir. Því er ekki úr vegi að kanna hvað The Economist segir um þetta mál.

Í tölublaði ritsins fyrir vikuna 18. til 24. ágúst er að finna leiðara sem fjallar um þessi mál. Næsta öruggt er að Björn er að vitna til þessa leiðara í orðum sínum. Leiðarinn ber titilinn "Liberate the BBC. Let the BBC expand – but privatise it first." Hér eru því líklega komin þau viðhorf sem menntamálaráðherra vitnar til. Umfjöllunarefni leiðarans er ákvörðun sem breska ríkisstjórnin stendur frammi fyrir um útþenslu BBC. Leiðarahöfundur telur, líkt og Björn minnist á, að einkavæða eigi hið mikla bákn BBC.

En þar með er ekki sagt að leiðarahöfundur telji að ríkið eigi ekki heima í fjölmiðlarekstri, þvert á móti. Gefum höfundinum orðið: "Sell the BBC, then, and keep government out of television? Not quite. The good stuff on the pay-tv channels is available only to subscribers. Other viewers should still have access to the serious, thoughtful programmes which Britain´s public-service ethos produces." Höfundur telur með öðrum orðum að ríkisvaldið eigi vel heima í fjölmiðlarekstri. Stærð BBC og samkeppni við aðrar stöðvar fer hins vegar fyrir brjóstið á honum.

Það er því satt og rétt sem menntamálaráðherra segir að raddir hafi heyrst þess efnis að ríkið ætti ekki að reka BBC. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið eigi ekki að reka fjölmiðil, þvert á móti. Jafnvel hið frjálslynda tímarit The Economist telur að ríkið eigi að halda úti sjónvarpsstöð með vandaðri dagskrá opinni fyrir alla. Og það er einmitt það sem talsmenn ríkisreksturs á Rúv berjast fyrir. Ein sjónvarpsstöð sem sinni vandaðri innlendri dagskrárgerð og bjóði upp á hágæða alþjóðlegt efni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.