Af hundalógík og listrænum hundum

Ungir miðjumenn á Íslandi halda úti vefriti sem nefnist Maddaman. Velti einhver því fyrir sér hví ungir menn kenni rit sit við stútungskerlingu, þá er skýringin sú að eitt sinn voru ungir miðjumenn ungir Framsóknarmenn. Hér er því komin hin eina sanna Framsóknarmaddama sem básúnar skoðanir ungliðanna yfir landslýð. Nýlegur úrskurður skipulagsstjóra um Kárahnjúkavirkjun hefur sett ungliðana í bobba, líkt og flesta virkjunarsinna. Til þess að snúa vörn í sókn ritaði einn af pennum Maddömunnar nýlega grein sem ber heitið "Álver eða dauði".

Í stað þess að takast á við þær forsendur sem skipulagsstjóri gaf sér í úrskurði sínum og taka málefnalega afstöðu til hans, velja hinir ungu miðjumenn þá leið að ráðast undir fullum seglum að Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Nú er ekki svo að VG hafi fellt hinn margumtalaða úrskurð, það sem liðsmenn þess flokks hafa unnið sér til vansa er að leggja til að eftir úrskurðinum verði farið og annarra leiða leitað í atvinnuuppbygginu á Austurlandi. Leiða sem hafa ekki jafnmikla umhverfisröskun í för með sér og virkjunin.

Þessi málflutningur hefur hins vegar farið heiftarlega fyrir brjóstið á ungliðunum. Skríbent Maddömunnar kemst að þeirri niðurstöðu að Steingrímur J. Sigfússon hafi svikið arfleifð íslenskra sósíalista. Hann hafi fallið frá alþjóðahyggju sósíalismans og tekið í staðinn upp þjóðernishyggju. Hann hafi í raun framið versta glæp sem nokkur sósíalisti getur framið; hann gerði flokkinn að íhaldsflokki. Máli sínu til stuðnings telur greinarhöfundur þá þjóðlegu vísan sem æ megi finna í málflutningi VG: "Líkt og aðrir íhaldsmenn vitna forustumenn [svo] Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs iðulega í þjóðleg tákn á borð við landið, þjóðina, tunguna og söguna. Sérstaklega hefur þeim orðið tíðrætt um helgi landsins og íslenskrar náttúru."

Hér eru alvarlegar ásakanir á ferð. Varla getur hugsast að sá íslenski stjórnmálamaður finnist sem vitnar í þjóðleg tákn líkt og landið, þjóðina, tunguna og söguna. Einhvern veginn hefði maður haldið að slíkt væri óhugsandi í heimi íslenskrar realpólitíkur. Og þó er eins og undirritaðan rámi í leiðtoga íslenskra sósíalista, Einar Olgeirsson, sem iðulega vitnaði í þessi tákn án þess að vera sakaður um íhaldssemi. Gott ef hann vann ekki ötullega að stofnun lýðveldis (eða endurreisn þess eins og hann orðaði það) hér á landi árið 1944. En nú hefur hulunni verið svipt af Einari, Steingrími J., Ögmundi og öðrum lítt dulbúnum íhaldsmönnum og því ekki úr vegi að beina sjónum að fleiri stjórnmálamönnum og kanna hvort víðar leynist úlfur í sauðagæru.

"Hvað er það sem gerir Íslendinga að þjóð? Það er öðru fremur tungan. Hún tengir okkur saman og gerir okkur að sérstökum hópi í samfélagi veraldarinnar." Hér er greinilega rakinn íhaldsmaður á ferð og eins gott fyrir Pál Pétursson að vara sig á hinum ungu miðjumönnum sem munu koma upp um hann fyrir að hafa látið þessi orð falla á Alþingi. Og ekki á íhaldskvendið Rannveig Guðmundsdóttir von á góðu fyrir þessi ummæli sín á hinu háa Alþingi: "Aðrar þjóðir eiga mörg hundruð ára órofna tónlistarhefð, aldagömul myndverk, fagra fornmuni og glæstar hallir. Við eigum tunguna og það sem hún geymir." Og varaformaður Framsóknarflokksins virðist óeðlilega hallur undir íhaldssemina miðað við fyrstu orð í greinagerð frumvarps sem hann lagði fram á Alþingi árið 1993: "Íslenski fjárhundurinn er þjóðararfur og þjóðargersemi Íslendinga, hann er lifandi listaverk sem okkur ber að varðveita."

Oft leynist flagð undir fögru skinni og ekki er útlit fyrir annað en að mikið verk bíði hinna ungu miðjumanna við að fletta ofan af íhaldssemi íslenskra stjórnmálamanna.

Framsóknarflokkurinn og talsmenn hans hafa síðan á síðasta landsþingi sínu rekið þá stefnu að ráðast alltaf á VG í öllum málum, sama hverjar forsendurnar eru. Um margt hefur verið gaman að fylgjast með tilburðum Framsóknarmanna, stundum eru þeir leiðigjarnir og einstaka sinnum hitta skot þeirra í mark. Pistlahöfundur Maddömunnar virðist þó hafa tekið þessa stefnu fullalvarlega þegar hann segir um þann áróður sem Steingrímur J. og íhaldið í VG hefur rekið: "Því miður hefur áróðurinn borið árangur. Nú er svo komið að landsmenn getur [svo] varla snúið við steini án þess að fram fari víðtækt umhverfismat."

Fyrir utan þá augljósu skoðun unga miðjumannsins að umhverfismat sé léttvægt og heldur til vansa er ekki annað hægt en að dást að áróðurstækni VG sem kemur svo glöggt fram í grein Maddömunnar. Sá áróður verður að teljast með ólíkindum vel heppnaður. Helstu áróðursmeistarar sögunnar hljóta að snúa sér við í gröfinni af öfund yfir hinni öflugu og vel heppnuðu áróðursmaskínu VG. Enda hlýtur það að teljast einsdæmi að flokkur sem stofnaður var árið 1999 reki svo harðan áróður að hann hafi afturvirk áhrif. Lögin um umhverfismat voru nefnilega samþykkt á Alþingi árið 1995, fjórum árum áður en VG var stofnað. Já, áróðursmátturinn er svo sannarlega mikill.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.