Að setja öll eggin í eina körfu

Fáir atburðir hafa skekið íslenskt þjóðlíf jafnharkalega og nýlegur úrskurður skipulagsstjóra um Kárahnjúkavirkjun. Skipulagsstjóri þurfti lögum samkvæmt að meta framkvæmdina og hvort sú röskun sem hún hefði í för með sér væri réttlætanleg fórn. Landsvirkjun hafði kveðið upp sinn dóm, fórnin var léttvæg í augum þeirra sem réðu þar ríkjum. Skipulagsstjóri leit hins vegar öðrum augum á málið og í vönduðum úrskurði eru færð rök fyrir því að áhrif virkjunarinnar séu svo gífurleg að ekki sé ráð að leggja í hana.

Úrskurður skipulagsstjóra er hluti af ferli sem komið var á í lögum fyrir nokkrum árum. Þá lagði umhverfisráðherra fram frumvarp um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum og samráðherrar hans lögðu blessun sína yfir það. Meðal þeirra var Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Samkvæmt þeim lögum ber skipulagsstjóra að leggja mat á allar meiriháttar framkvæmdir með tilliti til umhverfismála. Nú hefur hann gert það og séð það sem margir höfðu séð áður; svo tröllaukin framkvæmd er ekki réttlætanleg.

Nú ber hins vegar svo við að sömu ráðherrar og höfðu lagt blessun sína yfir lögin bregðast hinir verstu við því að eftir þeim sé farið. Davíð Oddsson sást nýverið í blíðunni á Skriðuklaustri dæma úrskurðinn óvandaðan og það sem meira er um vert, lögbrot. Ekki taldi hann þó ástæðu til að taka fram á hverju sú skoðun væri byggð og hefur hann ekki gert það enn. Í hans stað mátt nýverið sjá Pétur Blöndal í sjónvarpinu víkja sér fimlega undir spurningum umsjónarmanns Kastljóssins sem lagði þá nýjar spurningar fyrir kappann sem hann hundsaði jafn harðan. Vafasamt er að stjórnmálamaður hafi áður komist í gegnum heilt viðtal í spjallþætti án þess að svara einni einustu spurningu umsjónarmannsins.

Nú hefur Halldór Ásgrímsson vaknað úr dvala og hefur lagt sitt mat á aðstæður. Hann ætlar að vísu ekki að taka afstöðu til þess hvort úrskurður skipulagsstjóra brýtur í bága við lög, nokkuð sem hlýtur að vekja athygli. Ef úrskurðurinn er lögleysa ein hlýtur málið að vera leyst fyrir virkjanasinna. Ekki þarf þá annað en að kæra hann á þeim forsendum að hann brjóti lög og málið fellur þá um sjálft sig. Þá leið virðast klækjarefir ríkisstjórnarflokkanna hins vegar ekki ennþá komið auga á.

Halldór beindi hins vegar spjótum sínum sérstaklega að stjórnarandstöðuflokkunum og þá sérstaklega formönnum þeirra, Steingrími J. Sigfússyni og Össuri Skarphéðinssyni. Þegar hann var inntur eftir því hvort ekki þyrfti að finna nýjar leiðir í atvinnumálum Austfirðinga brást hann hinn versti við og taldi að það væri hlutverk Össurar og Steingríms. Þeir hefðu fellt dauðadóm yfir Kárahnjúkavirkjun og þeirra væri að finna eitthvað í staðinn. Ríkisstjórnin hefði öðrum hnöppum að hneppa.

Það eitt er út af fyrir sig athyglivert að stjórnarandstaðan hafi skyndilega öðlast það vald að fella dauðadóm yfir því sem stjórnarliðar hafa nefnt "mesta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar". Fáheyrt er að yfirlýsingar tveggja forystumanna stjórnarandstöðuflokka sem ráða yfir rétt rúmum þriðjungi þingmanna hafi slíkt vægi að 38 þingmenn stjórnarflokkanna verði að fara eftir þeim. Öllu athygliverðara er þó það að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki einu sinni leitt hugann að því að svo gæti farið að Kárahnjúkavirkjun stæðist ekki lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Tilgangur laganna hlýtur að vera sá að fá úr því skorið hvort til ákveðinna framkvæmda megi stofna, eða hvort áhrif þeirra á umhverfið séu óásættanleg. Í hlutarins eðli liggur að sumar framkvæmdir standist þetta mat, aðrar ekki. Kárahnjúkavirkjun er, ef af verður, stærsta framkvæmd sem Íslendingar hafa ráðist í. Svo tröllvaxin framkvæmd hlýtur að hafa áhrif á umhverfi sitt, það vissu allir. Spurningin snerist eingöngu um það hvort áhrifin væru óásættanlega mikil. Það virðist hins vegar ekki hafa hvarflað að ríkisstjórninni að skipulagsstjóra þættu þau óásættanlega mikil. Þess í stað hefur öllu verið veðjað á framkvæmdina, milljónum króna verið eytt í undirbúning og landslýð tilkynnt að lausnin fælist í virkjuninni. Það hlýtur að teljast óvenjumikil skammsýni af stjórnmálamönnum að leiða ekki hugann að því að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum gæti verið á tvo vegu og því þyrfti að undirbúa aðgerðir á hvorn veginn sem hún væri. Kannski áttuðu menn sig bara ekki á því að lögin sem þeir settu hér um árið giltu fyrir þá sjálfa eins og aðra landsmenn.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.