Dómsmál um sjálfsögð mannréttindi

Spakur maður sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að siðferðisstig samfélaga mætti meta eftir því hvernig þau byggju að þeim þegnum sínum sem minna mega sín. Margur mætti hafa þetta í huga þegar fögrum orðum er farið um ágæti ýmissa samfélaga, ekki síst þess íslenska. Í gegnum tíðina hafa ætíð einhverjir orðið hornreka í þjóðfélaginu og nú á tímum lífsgæðakapphlaups og frelsis á öllum sviðum er engin breyting þar á, nema síður sé. Ekki eru allir jafnlánsamir þegar kemur að atvinnutækifærum. Sumir eiga við veikindi að stríða og aðrir lenda í áföllum sem þeir ráða ekki sjálfir fram úr. Félagslega kerfinu ætlað að aðstoða þá sem svo er ástatt um. Til þess borgum við skatta að við getum rétt þeim meðbræðrum okkar hjálparhönd sem ekki geta hjálpað sér sjálfir. Stundum virðist sú hjálparhönd hins vegar aðeins fálma út í loftið og félagslega kerfið ekki sinna skyldum sínum.

Nýlega bárust fregnir af því að einn þeirra ógæfusömu íbúa Reykjavíkurborgar sem hvergi eiga höfði sínu að halla, hafi leitað sér lögfræðiaðstoðar. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ætlunin er að stefna borgaryfirvöldum og jafnvel ríkisvaldi fyrir dóm. Ástæða þessa er það ástand sem ríkir í félagslega húsnæðiskerfinu. Þar vantar um 3000 íbúðir til þess að allir fái þak yfir höfuðið og ekki sér fyrir endann á þeim vanda.

Dómsmál þetta, ef til þess kemur, verður prófsteinn á hlutverk opinbera kerfisins. Lögmaður mannsins telur að hinu opinbera beri skylda til þess að halda uppi félagslegu húsnæðiskerfi. Biðlistar til margra ára og sú staðreynd að margir eru á götunni sýni það að hið opinbera hafi brugðist skyldum sínum í þessum efnum. Á þetta jafnt við um sveitarfélög og ríki. Ef dómur fellur á þá leið að hinu opinbera beri skilyrðislaus skylda til að veita þegnum sínum aðgang að félagslegu íbúðarkerfi, verður um tímamótadóm að ræða.

Það er hins vegar umhugsunarvert að koma þurfi til kasta dómsstóla til að menn átti sig á jafnaugljósum skyldum opinbera kerfisins. Frumskylda stjórnvalda er að hlúa vel að þegnum sínum, ekki síst þeim sem minna mega sín. Öryrkjar, atvinnuleysingjar, ellilífeyrisþegar, sjúklingar og fólk sem býr við húsnæðisskort — hagur þessa fólks er kominn undir ákvörðunum stjórnmálamanna. Þeir eiga þess vegna ætíð að hafa bjargráðaleysi þessa hóps í huga við ákvarðanatöku sína. Það væri hins vegar óskandi að þeir flokkar sem kenna sig við félagshyggju í Reykjavík og hafa verið þar í meirihluta í 7 ár bregðist við ástandi mála án þess að dómstólar þurfi að skikka þá til þess.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.