Mannréttindi bönnuð – brotamenn velkomnir

Íslendingar skera sig úr fyrir margra hluta sakir og eru oftast stoltir af sérstöðu sinni, eins og smárra þjóða er gjarnan siður. Þó gera þeir sér grein fyrir því að enginn er eyland í heimi alþjóðasáttmála, jafnvel ekki Ísland. Af þeim sökum miða Íslendingar sig gjarnan við nálægar frændþjóðir þegar kemur að lífsskilyrðum, lögum og réttindum landsmanna. Nýlegur dómur héraðsdóms þar sem hann staðfesti lögbann á aðgerðir verkalýðsfélaga gegn farþegaskipi sem sigldi undir hentifána ásamt harkalegum viðbrögðum lögreglu í kjölfar þess dóms, skilur þó á milli Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða. Með honum er Ísland gert griðland fyrir skipaútgerðir sem spara sér launaútgjöld með því að sigla undir hentifána og hundsa alþjóðlega kjarasamninga. Slíkir skipakóngar eiga hauk í horni þar sem íslenskt dómskerfi og lögregla er.

Með dómnum varð Ísland eitt Norðurlandanna hæli fyrir slíkar skipakomur, þar sem menn, sem græða á því að borga starfsmönnum sínum lúsarlaun, geta athafnað sig óáreittir. Á öllum hinum Norðurlöndunum hefur Alþjóðaflutningamannasambandið (ITF) fullan rétt á því að beita aðgerðum gegn hentifánaskipum þar sem áhöfn er samningslaus. Íslenskir dómsstólar átelja slík mótmæli hins vegar – og lögreglan sparar ekki hörkuna þegar verið er að fást við menn sem berjast fyrir hag verkalýðsins. Þrátt fyrir mikið tal um manneklu í lögreglunni virðist sem svo að enginn skortur sé á lögreglumönnum til að hafa hemil á friðsömum mótmælendum – hvort sem verið er að mótmæla komu erlendra ráðamanna, eða að reyna að standa vörð um alþjóðasáttmála.

Neikvæðar afleiðingar alþjóðavæðingarinnar eru meðal annars þær að hægt er að komast hjá viðurkenndum stöðlum um aðbúnað og laun verkafólks, með því að reka starfsemi sína í ríkjum þar sem staðlar þekkjast ekki. Þannig hafa skipaútgerðir víðs vegar um heiminn kosið að láta skip sín sigla undir fána landa sem virða enga alþjóðasáttmála um laun og aðbúnað. Þannig geta útgerðirnar greitt starfsmönnum sínum laun sem eru langt undir því sem alþjóðasáttmálar segja til um. Á þessum skipum eru engin lágmarkskjör, starfsmenn koma oft frá löndum þar sem mikil eymd ríkir og eru því ekki í aðstöðu til að krefjast hærri launa. Hér er nútímaþrælahald á ferð og íslenskir dómsstólar hafa lagt blessun sína yfir það.

Lögreglan hleypur síðan til með hörku til að koma í veg fyrir að verkalýðshreyfingin geti beitt samtakamætti sínum til að knýja á um úrbætur mála. Þeir þrír félagsmenn Sjómannafélags Íslands sem handteknir voru fyrir mótmæli voru ekki að berjast fyrir auknum launum sér til handa, heldur að standa vörð um alþjóðleg mannréttindi til mannsæmandi lífs. Lögreglan kom hins vegar í veg fyrir það og afleiðingarnar eru m.a. þær að sjötugur maður þurfti að leita á slysastofu vegna áverka sem lögreglan veitti honum í ákafa sínum við að koma járnum á hann.

Þessir atburðir allir eru Íslandi til skammar. Fordæmið sem þeir gefa er stórhættulegt og búast má við því að hafnir landsins verði innan tíðar reglulegur viðkomustaður allra þeirra auðjöfra sem vilja skara örlítið meiri eld að sinni köku með því að halda starfsmönnum sínum í herkví lúsarlauna. Íslensk skipafélög hljóta að læra sitthvað af þessu – þessi þróun er reyndar hafin hér á landi þar sem nokkur íslensk skip sigla undir hentifána. Af hverju ættu íslensk skipafélög að greiða laun eftir kjarasamningum þegar þau vita að dómstólar landsins hafa lagt blátt bann við aðgerðum gegn þeim sem gera það ekki? Og lögreglan er alltaf tilbúin til að berja á þeim sem flækjast fyrir fjármagnseigendum þessa heims.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.