Lýðræði varið með ólýðræðislegum aðgerðum

Þriðjudaginn síðastliðinn kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp úr með það að bann tyrkneskra stjórnvalda við starfsemi flokks sem ber nafnið „Íslamskar dyggðir“ bryti ekki gegn evrópskum mannréttindaákvæðum. Starfsemin var bönnuð í Tyrklandi í júní síðastliðnum og forkólfar hans kærðu það bann til Mannréttindadómstólsins. Bann var lagt við starfsemi flokksins vegna þess að hún er talin stofna lýðræði Tyrklands í hættu með því að koma á ríkistrú, en stjórnarskrá Tyrklands bannar að tengja ríki trúarbrögðum (öfugt við stjórnarskrá Íslands t.a.m.). Þá var því hafnað að flokkurinn væri ólöglegt framhald Velferðarflokksins, en starfsemi þess flokks var bönnuð í Tyrklandi árið 1998. Markmið flokksins er að koma á íslömsku ríki eftir kennisetningum Kóransins.

Flokkurinn hlaut um 15% atkvæða í þingkosningum í Tyrklandi árið 1999 og var stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fram að úrskurðu mannréttindadómstólsins. Hann starfar eftir lýðræðislegum leiðum, býður fram til þings og starfar eftir reglum þingræðisins þar. Flokkurinn er ekki byltingarflokkur – hann vill ekki komast til valda með því að steypa stjórnvöldum af stóli. Hvernig getur Mannréttindadómstóll Evrópu staðfest bann yfir starfsemi flokks sem fylgir hinum lýðræðislegu leikreglum?

Ákæran á hendur „Íslömskum dyggðum“ kom fyrst fram fyrir um tveimur árum síðan. Þá var þess krafist að þingmenn flokksins misstu sæti sín og leiðtogum hans yrði meinuð þátttaka í pólitísku starfi í fimm ár. Saksóknari lýsti félögum flokksins á þá leið að þeir væru vampírur sem þrifust á pólitískri fávisku fólksins. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú tekið undir sjónarmið saksóknara með úrskurði sínum. Meirihluti dómara við Mannréttindadómstólinn taldi bannið við starfsemi flokksins alls ekki brjóta á funda- og málfrelsi því sem öllum á að vera tryggt. Þvert á móti væri það liður í því að verja lýðræðið.

Mannréttindadómstóll Evrópu er kominn á hættulega braut með þessum úrskurði sínum. Hann hefur nú bannað starfsemi lýðræðislegs stjórnmálaflokks vegna markmiða hans, sem eru að koma á íslömsku ríki. Það er ekkert sem segir að það íslamska ríki verði ekki lýðræðisríki, ekki þarf að horfa lengra en til Írans til að sjá dæmi þess (og þó hið íranska lýðræði sé ófullkomið á vestræna mælikvarða má ekki gleyma því að hið tyrkneska er það líka). Öllu alvarlegra er þó það að með þessum úrskurði eru dómarar í Evrópu að segja að hin lýðræðislega aðferð að leyfa öllum að bjóða fram stangist á við eitthvert æðra markmið, sem er að viðhalda þessari sömu aðferð. Um leið eru þeir búnir að skilgreina það lýðræði sem sé öllum fyrir bestu og eru t.d. á móti því að íslamskt lýðræðisríki verði stofnað. Þannig eru þeir búnir að taka sér það vald að skilgreina markmiðið og standa vörð um það með öllum tiltækum ráðum.

Dómararnir eru m.ö.o. að segja að engu skipti þó 99% tyrknesku þjóðarinnar fylgdu flokknum að málum, þá þyrfti samt sem áður að banna starfsemi hans til að vernda lýðræðið. Skiptir þá engu hvort vilji fólksins stendur í aðra átt, það er eingöngu dæmi um „pólitíska fávisku“ lýðsins. Verið er að banna starfsemi lýðræðislegs flokks á trúarbragðaforsendum. Dómararnir hafa kveðið upp úr með það að íslam og lýðræði fari ekki saman. Hér er á ferð gamalkunnur hroki Vesturlandabúa sem halda að það stjórnkerfi sem þeir búa við sé endapunktur þróunar sem sé náttúrulögmál. Þannig séu „vanþróuð“ lönd eingöngu aftar á þróunarbrautinni (sem er bara ein) en vestræn ríki og okkur beri að tryggja að þau komist framar á þeirri braut, í átt til okkar lifnaðarhátta.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú opnað leiðina fyrir frekari takmörkunum á þátttöku í lýðræðinu. Þeir sem vilja berjast fyrir hugsjón sem dómarar í Evrópu telja ekki samræmast lýðræðinu geta ekki gert það eftir lýðræðislegum leiðum. Og þá eru fáar leiðir mönnum færar nema hinar ólýðræðislegu. Í Austur-Þýskalandi máttu allir stjórnmálaflokkar starfa óáreittir, nema þeir sem taldir voru ógna öryggi ríkisins (þ.e.a.s. vildu breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum). Er það hugsjón Mannréttindadómstóls Evrópu?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.