Borgaryfirvöld á villigötum

Mikil umræða hefur átt sér stað að undanförnu um ástandið í miðborginni. Flestir sem tjá sig um málið telja ástandið óvenju slæmt nú í sumar, útigangsmenn séu fleiri en áður, almenn ölvun meiri og ólæti vegna skemmtanahalds hafi aldrei verið meiri. Menn hafa leitað ýmissa skýringa á þessu máli og nýlegur starfshópur á vegum borgarstjórnar komst að þeirri niðurstöðu að helsta vandamálið væri skortur á lögreglumönnum í miðbænum. Fulltrúar lögreglunnar gátu að vísu ekki skrifað upp á þetta en aðrir voru þessu sammála. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru ekki seinir á sér að leggja til stofnun nýrrar miðbæjarlögreglu til að hægt væri að auka eftirlit. Upp á síðkastið hefur umræðan síðan snúist um ákveðið veitingahús við Austurstræti og einn borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans vill flytja starfsemi þess í útjaðar miðborgarinnar, þó lögreglan hafi reyndar engin afskipti haft af starfsemi hans.

Það verður að segjast eins og er að öll umræðan um vanda miðborgarinnar hefur verið á heldur skrýtnum forsendum. Á síðustu árum hefur margt gerst sem orðið hefur til þess að gera ástandið eins og það er og skal þrennt nefnt í því samhengi. Fyrir nokkrum árum var veitingastaður við Hlemm sem hét Keisarinn. Hann var um margt merkilegur og var þekktastur fyrir það að þar var saman komið það fólk sem halloka hefur farið í lífsbaráttunni og snúið sér að áfengi eða öðrum vímuefnum. Lögreglan sagði reglulega frá því að þegar einhvers væri leitað í tengslum við afbrot færi hún einfaldlega á Keisarann og þar væri viðkomandi, eða rétt ókominn. Þessi staður þótti hin mesta plága, sérstaklega var hann þyrnir í augum stjórnenda Tryggingastofnunar ríkisins sem var í sama húsi. Því var honum lokað og sjá; vandamálið hvarf af svæðinu. Það skaut að vísu upp kollinum annars staðar, því ekki hvarf fólkið af yfirborði jarðar með staðnum.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í fyrra breyttan afgreiðslutíma skemmtistaða. Eigendum þeirra var gefið frjálst hversu lengi mætti vera opið, þó með einhverjum takmörkunum. Afleiðingin varð sú að margir eigendur breyttu afgreiðslutíma staða sinna á þá leið að hafa opið lengur, sumir til fimm, aðrir sex, nokkrir sjö og enn aðrir til níu að morgni. Þeir sem skemmtanaglaðastir voru gátu nú skemmt sér fram á morgun og ef menn hófu skemmtun sína um níuleytið að kveldi, gaf þetta hálfan sólarhring í taumlausri gleði og áfengis- og vímuefnaneyslu og jafnvel lengur, klukkan níu eru nefnilega sumir eigendur kaffihúsa búnir að opna sína staði og þar er hægt að halda áfram. Afleiðingin varð sú að á morgnana þegar fólk heldur til vinnu sinnar eða í miðbæinn að spóka sig, eru verið að loka sumum þessara staða og út streymir fólk eftir hálfs sólarhrings fyllerí.

Í þriðja lagi má nefna lokanir geðdeilda. Það leiðir til þess að sumt geðfatlað fólk á hvergi höfði sínu að halla og leitar því á götuna. Allt þetta samanlagt skýrir að miklu leyti það hversu "vandamál" miðbæjarins eru orðin sýnileg. Fólk sem áður var komið í heimahús að morgni eftir nautnanótt er nú á ferð í bænum og því meira áberandi en áður. Skemmtistað sem áður var í útjaðri miðbæjarins og var aðallega sóttur af fólki sem síður þykir æskilegt annars staðar var lokað og fólkið fann sér því nýjan stað í miðborginni. Og fólk sem á að vera hluti af heilbrigðiskerfinu og samfélagið á að hlúa að vafrar heimilislaust um borgina.

Engar töfralausnir eru til á þeim vanda sem margir telja að miðborgin eigi við að etja. Eitt er þó öruggt; það að flytja vandmálið úr augsýn og fjölga lögreglumönnum er engin lausn. Nær væri að taka á rótum vandans, hlúa almennilega að þeim sem ekki fóta sig í neyslusamfélagi nútímans.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.