Af kommum og hommum

Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt félögum mínum í kvikmyndahús að sjá nýjustu mynd Olivers Stones, JFK. Eins og flestir vita fjallaði myndin um John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna og morðið á honum. Hún skartaði stórkostlegum samsæriskenningum sem einar sér voru miðans virði.

Minnistæðast úr myndinni er mér atriði sem sýndi J. Edgar Hoover yfirmann FBI eðla sig með félögum sínum, þeir voru klæddir í hina furðulegustu búninga, olíusmurðir og fleira í þeim dúr. Enginn velktist í vafa um að hér væru vondu kallar myndarinnar á ferð, þeir bæru ábyrgð á morðinu á Kennedy. Við félagi minn hlógum dátt að þessu og sérstaklega fannst okkur lausn Stones á óvinaleysi Bandaríkjanna sniðug. Myndin var nefnilega gerð eftir að kalda stríðinu lauk og Rússar voru vinveitt þjóð. Þess vegna var hefðbundnum kenningum um tengsl við kommúnista kastað fyrir róða og nýir óvinir fundnir.

Breytingin var ekki mikil, a.m.k. ekki á íslensku, einn stafur – í stað kommanna voru hommarnir farnir að láta til sín taka.

Þetta rifjast reglulega upp fyrir mér þegar ég les greinar á Vef-Þjóðviljanum. Þar skrifa ungir Sjálfstæðismenn greinar um hin fjölbreytilegustu málefni. Þeir hafa ekki farið varhluta af óvinaleysi því sem hrjáð hefur hægri menn um víða veröld eftir fall kommúnismans (nú er svo komið að George W. Bush ætlar að eyða milljörðum dollara til að verjast hinu stórhættulega óvinaríki Norður-Kóreu). Vef-Þjóðviljamenn fóru nokkuð aðra leið í leit sinni að nýjum óvini til að sameinast gegn en Oliver Stone, sú leið enda varla greiðfær í umburðarlyndum heimi jafnréttis. Hinn nýi alheimsóvinur þeirra Vef-Þjóðviljamanna eru umhverfisverndarsinnar.

Umhverfisverndarsinnar hafa algjörlega tekið yfir hlutverk hins illa í augum Vef-Þjóðviljunga sem sjá samsæri þeirra í hverju horni. Það sem mest virðist fara fyrir brjóstið á Vef-Þjóðviljanum er óskammfeilni ýmissa aðila sem kalla sig óforvarendis umvherfisverndarsinna. Þannig hneykslast Vef-Þjóðviljamenn óspart á þeim sem þeir kalla
"sjálskipaða umhverfisverndarsinna". Ekki er ljóst hvað hér er átt við, hvort þeir telji rétt að einhver stofnun geti gefið út skipunarbréf "umhverfisverndarsinni" – þeta væri jafnvel ríkisstofnun og menn gætu orðið löggildir umhverfisverndarsinnar og hætt að skreyta sjálfa sig slíkum titlum.

Líkt og alsiða var þegar hinn gamli óvinur, heimskommúnisminn, var skotspónn hægri manna, eru umhverfisverndarsinnar lævísir og undirförulir og gengur illt eitt til. Þannig hafa þeir í raun engar áhyggjur af umhverfinu að mati Vef-Þjóðviljans, heldur eru hér á ferð "alþjóðleg fjárplógsfélög" sem hugsa um það eitt að græða peninga á hrekklausu fólki sem vill vel. Það ætti í sjálfu sér ekki að vera Vef-Þjóðviljanum á móti skapi, enda einkafyrirtæki í atvinnurekstri á ferð ef satt væri. Það sem gerir málið alvarlegt að mati Vef-Þjóðviljans er hins vegar sú staðreynd að málstaður sjálfstæðra … sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna er farinn að ná eyrum stjórnmálamanna víða um heim. Og kemur þá hryggjarstykkið í samsæriskenningu Vef-Þjóðviljans – hinir illu umhverfisverndarsinnar og áróður þeirra er hluti af samsæri vinstri manna í heiminum!

Glöggt dæmi um það telur Vef-Þjóðviljinn vera Kyotobókunina. Hún er afleiðing þess að "… vinstri menn á Vesturlöndum eru einhverra hluta vegna fullir sektarkenndar vegna velgengni landa sinna, þ.e. þeirra landa sem helst hafa búið við markaðshagkerfi. Aðferð vinstri manna þessi árin er að finna upp á hinum ýmsu leiðum til að setja fólki íþyngjandi reglur í nafni umhverfisverndar. Reglurnar hafa ekki endilega neitt með umhverfisvernd að gera og byggja iðulega á hæpnum eða engum vísindarökum, líkt og Kyoto-bókunin. Rökin skipta vinstri menn þó ekki máli því nauðsyn brýtur lög þegar barist er við sektarkenndina."

Það er ekki nema von að Bush bandaríkjaforseti vilji ekki staðfesta Kyoto-bókunina til að skrifa upp á syndaaflausn vestrænna vinstri manna. Og ekki er Davíð Oddsson ginkeyptur fyrir því heldur. Það ber í raun að þakka Vef-Þjóðviljanum fyrir að koma upp um strákinn Tuma. Ófáir héldu að til Kyoto-bókunarinnar hefði verið stofnað vegna ótta við afleiðingar útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Nú kemur í ljós að hér er á ferð samsæri vestrænna vinstri manna sem stýra ríkjum eins og Japan, Spáni, Kína og fleirum, en samtals 186 ríki hafa skuldbundið sig til að undirrita bókunina.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.