Skattlagning á almenningssamgöngur

Samgönguráðherra lýsti því nýlega yfir að hann væri að íhuga tillögur þess efnis að létta opinberum gjöldum af flugfélögum. Ástæða þessa er hin slæma staða innanlandsflugsins sem fréttir berast reglulega af. Flugfélag Íslands tapaði um 380 milljónum króna í fyrra og áætlanir um taplausan rekstur þetta árið eru farnar í súginn. Mikill niðurskurður hefur orðið síðustu árin í fluginu, flugleiðum hefur fækkað og flugfargjöld hækkað. Það er því sjálfsagt að ríkisvaldið endurskoði aðkomu sína að rekstrinum. Flugsamgöngur eru öryggisatriði fyrir íbúa landsins um leið og þær eru hluti af almenningssamgangnakerfinu. Sem slíkar eru þær í eðli sínu umhverfisvænni kostur en einkabíllinn. Ef ekkert væri flugið myndi bílaumferð aukast til muna.

Það er því ekki óeðlilegt að ríkisvaldið íhugi skattlagningu sína á innanlandsflug og ánægjulegt að heyra að samgönguráðherra virðist vera hlynntur því að skattaálögur þar minnki. Skattheimta er nauðsynleg til að halda samneyslukerfi þjóðarinnar gangandi, en flugsamgöngur innanlands eru öryggisatriði og því ekki óeðlilegt að þær séu undanskildar skatti. Það leiðir hins vegar hugann að fleiri þáttum almenningssamgangna.

Hið nýstofnaða byggðasamlag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu er stærsti þáttur almenningssamgangna hér á landi. Lítil reynsla er komin á rekstur þess, en ekki er óvarlegt að ætla að framlag Reykjavíkurborgar, t.a.m., verði svipað og til SVR. Reykjavíkurborg greiddi árlega u.þ.b. hálfan milljarð í framlag til reksturs SVR og svipuð upphæð kom inn í reksturinn með fargjöldum. Um það bil 30% af rekstrartekjum fyrirtækisins runnu beint í ríkiskassann í formi þungaskatts, aðflutningsgjalda o.fl. Aflétting þessarar skattheimtu gæti orðið til þess að efla almenningssamgöngur til muna.

Líkt og áður sagði eru almenningssamgöngur í eðli sínu umhverfisvænni kostur en það að ferðast með einkabíl. Það er þó háð því að einhver nýti sér það samgöngukerfi sem stendur til boða. Lengi hefur loðað við SVR að nýting þar hafi ekki verið nógu góð, en margir gera sér vonir um að sameiginlegt kerfi á höfuðborgarsvæðinu eigi eftir að bæta þar úr. Það er hins vegar ótækt að ríkisvaldið skuli ekki gera sitt til að gera sveitarfélögunum kleift að efla almenningssamgöngur. Ríkisstjórnin þráast við að staðfesta Kyotobókunina og skera niður útblástur gróðurhúsalofttegunda, vegna þess að hún vill hrinda brjálæðislegum stóriðjuáformum sínum í framkvæmd. Það að fella niður opinber gjöld á almenningssamgöngur eykur hins vegar möguleikana á því að efla þær og draga um leið úr bílaumferð og þar með úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Það er fagnaðarefni að ráðherra skuli vilja hreyfa við þessum málum hvað varðar innanlandsflug. Skattheimta er eins og áður sagði nauðsynleg, en hún á þó að vera háð aðstæðum og nokkuð sveigjanleg. Það væri óskandi að ráðherra og ríkisstjórn stigju skrefið til fulls og afléttu opinberum gjöldum á almenningssamgöngur í landinu. Það verður þó varla á meðan núverandi ríkisstjórn situr við völdin. Hún hefur sýnt að hún er ekki sérstaklega baráttuglöð í umhverfismálum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.