Þjónustusamningar í þágu hvers?

Nýverið lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fram tillögu þess efnis að rétt sé að "skoða, hvort hagkvæmt sé að gera þjónustusamninga við starfsfólk Heilbrigðiseftirlitsins um ýmsa þjónustu og eftirlit, sem stofnunin veitir, eins og t.d. hundaeftirlit." Tillagan, sem var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu, hefur sakleysislegt yfirbragð. Af hverju ætti ekki að vera í lagi að skoða hagkvæmni ákveðinna formbreytinga? Staðreyndin er hins vegar sú að breyting sú sem tillagan gerir ráð fyrir að gerð verði ef hagkvæmt er, er grundvallarbreyting á starfsmannahaldi borgarinnar og kemur starfsmönnunum ekki til góða.

Þjónustusamningar við starfsfólk hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum. Í þeim felst að starfsfólk er ekki launþegar viðkomandi stofnunar, heldur undirverktakar sem taka að sér ákveðna þætti starfsemi hennar. Við það sparar stofnunin ýmislegt sem viðkemur starfsmannahaldi og starfsmaðurinn getur sparað sér útgjöld til stéttarfélags, í lífeyrissjóð o.fl. Hér er hins vegar um atlögu að grundvallarkerfi vinnuumhverfis að ræða. Kosti og galla starfa er ekki eingöngu hægt að meta eftir launum, starfsöryggi, vinnuumhverfi og fleiri þættir koma þar einnig inn í.

Þessu gerði verkalýðshreyfing síðustu aldar sér fullkomlega grein fyrir og eitt af helstu baráttumálum hennar var að tryggja atinnuöryggi. Þjónustusamningar gera það öryggi hins vegar að engu. Þegar vel árar og skynsamlega er haldið á málum getur starfsfólk komist ágætlega frá þeim. Ef ekkert er atvinnuleysið er atvinnuöryggi tryggt. Eins þekkist það hjá undirverktökum að þeir spara sér greiðslur í lífeyrissjóði og við það hækkar sú upphæð sem þeir fá í vasann eftir að hafa staðið skil á opinberum gjöldum. Með því eru þeir hins vegar aðeins að fá lánað hjá sjálfum sér og lítil trygging er fyrir því að það lán verði borgað til baka. Hætt er við að margir vakni upp við vondan draum þegar aldurinn færist yfir og ekki hefur verið lagt til hliðar til ellinnar.

Atvinnurekendur spara hins vegar ótvírætt á þjónustusamningum við starfsólk. Þeim ber skylda til að sjá starfsmönnum sínum fyrir ákveðnum lágmarksútbúnaði. Ef tekið er dæmi af smið þá ber atvinnurekandanum skylda til að útvega honum hlífðarfatnað, öryggisbúnað, sjá honum fyrir kaffiaðstöðu og fleira í þeim dúr. Ef smiðurinn er hins vegar undirverktaki verður hann að sjá um þetta allt saman sjálfur. Hætt er við að sumir freystist til að spara útgjöldin við einhvern af þessum þáttum sem getur verið hættulegt. Að sama skapi hafa fastráðnir starfsmenn lágmarksuppsagnarfrest, þrjá mánuði. Undirverktakar hafa engan uppsagnarfrest, um leið og atvinnurekandanum þykir tilefni til að losa sig við hann gerir hann svo.

Það er áhyggjuefni að slíkar hugmyndir skuli skjóta upp kollinum innan borgarkerfisins. Starfsmannastefna borgarinnar á ekki að vera sú að spara sér útgjöld með því að gera aðbúnað starfsfólks verri. Borgin á að hlúa vel að starfsfólki sínu og skapa því öruggt vinnuumhverfi. Engu máli skiptir hvort fyrirhuguð úttekt Heilbrigðiseftirlitsins leiðir í ljós að þjónustusamningar séu hagkvæmir eða ekki, þeim ber tafarlaust að hafna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.