Umhverfi í borg – I. grein

Á síðastliðnum árum og áratugum hefur vitund almennings fyrir bættri umgengni við náttúruna aukist til muna. Raunar hefur almenningur ávallt verið skrefinu á undan stjórnvöldum og fyrirtækjum í þessum efnum og svo er enn. Þrotlaus áróður þeirra sem börðust fyrir bættum hag umhverfisins hefur nú loks náð eyrum stjórnvalda eins og ýmsir alþjóðasamningar eru gott dæmi um. Stórfyrirtækin dröttuðust svo á eftir og eftir því sem kröfur almennings urðu háværari jókst framboð á umhverfisvænum vörum. Mannkynið er smám saman að vakna til vitundar um að það er aðeins gestur á þessari jörð, ekki drottnari hennar.

Þó svo að æ fleiri geri sér grein fyrir mikilvægi umhverfismála eru of margir sem álíta að þau byrji fyrst þegar þéttbýlinu sleppir, snúist m.ö.o. eingöngu um verndun ósnortinnar náttúru. Vissulega er sá þáttur mikilvægur en umhverfismál eru miklu víðfeðmari en svo. Raunar snerta þau flestar gerðir mannsins og nær allar ákvarðanatökur á öllum stjórnsýslustigum. Hér í Reykjavík eru umhverfismál einn stærsti málaflokkurinn og vegna stærðar borgarinnar, fjölda bíla og íbúa eru mörg vandamál að glíma við sem ekki finnast annars staðar á landinu.

Nú er t.d. svo komið í Reykjavík að víða er örðugt að fara fótgangandi í stillviðri vegna loftmengunar. Raunar er ástandið svo slæmt að þess hefur verið krafist að upplýsingar um loftmengun verði gefnar daglega, svipað og veðurspá, íbúum til hagræðis. Fjöldi bíla í borginn er of mikill, gatnakerfið ræður engan veginn við alla þessa bíla og óhófleg notkun nagladekkja bætir ekki úr skák. Til að bæta mannlíf í borginni er nauðsynlegt að draga úr bílaumferð, hlutfallslega a.m.k., og efla almenningssamgöngur. Borgaryfirvöld hafa fullan skilning á þessu vandamáli. Sú skoðun að allar aðgerðir til takmörkunar bílaeignar séu skerðing á persónufrelsi borgaranna er sem betur fer á undanhaldi, þótt enn megi sjá hennar stað meðal minnihlutans í borginni. Loftgæði í borginni eru sameiginlegt vandamál allra íbúanna og því þarf sameiginlegt átak til að bæta ástand í þeim málum.

Áhrifaríkasta leiðin til að bæta loftgæði er að efla almenningssamgöngur og draga úr notkun einkabíla. Margar leiðir eru færar til þess og hafa ýmsar hugmyndir verið ræddar að undanförnu. Neðanjarðarlestarkerfi er ein þeirra sem er vert að gaumgæfa. Þétting byggðar stuðlar að auðveldari almenningssamgöngum og gefur fleirum færi á að ferðast fótgangandi eða hjólandi. Á döfinni hjá borgaryfirvöldum er að skipuleggja nýtt byggingarland í hlíðum Úlfarsfells og gerði borgin nýlega makaskiptasamning við Mosfellsbæ til að eignast meira byggingarland þar. Allir hljóta að sjá hversu sú stefna að teygja byggðina eins og raun ber vitni gerir mönnum erfitt fyrir að skipuleggja skilvirkar almenningssamgöngur. Nær væri að borgin þróaðist í átt að nágrannasveitarfélögunum, í Vatnsmýrinni, með tengingu við Kópavog og jafnvel Álftanes.

Við þéttingu byggðar má þó ekki gleyma grænu svæðunum. Þau eru nauðsynleg hverri borg og best er að íbúar séu í göngufæri við útivistarsvæði, þó vissulega sé erfitt að koma því alls staðar fyrir. Þau veita borgarbúum hvíld frá amstri hversdagsins um leið og þau bæta loftgæði í borgum. Mikil hystería hefur oft gripið um sig þegar rætt er um grænu svæðin. Skemmst er að minnast þess þegar margir ágætir menn fóru á límingunum yfir undirskriftasöfnun gegn fyrirhuguðum byggingaráformum í Laugardal. Söfnunin gaf vilja borgarbúa skýrt í ljós til þess að Laugardalurinn allur yrði skipulagður sem íþrótta- og útivistarsvæði. Það mætti því byggja á honum byggingar tengdar slíkri starfsemi, t.d. með því að stækka fjölskyldu- og húsdýragarðinn, en óhæft væri að byggja þar kvikmyndahús og skrifstofuhúsnæði fyrir einkafyrirtæki.

Sú skoðun er nefnilega að verða æ útbreiddari að ekki eigi alltaf að ganga á grænu svæðin, þau sem skipulögð eru fyrir útivist. Framtíðarskipulag borgarinnar á að byggja þannig upp að nægjanlegum útivistarsvæðum verði komið fyrir í öllum nýjum hverfum. Eins og áður sagði eru umhverfismál mjög víðfeðmur málaflokkur og snertir í raun á flestum þáttum mannlegs samfélags. Í næstu grein er ætlunin að fara nánar í einstaka þætti umhverfismála í borg, s.s. sorphirðu, umhverfsvöktun, umhverfisfræðslu o.fl.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.