Auðsuppspretta í öldrunarþjónustu

Undanfarna daga hafa kaup Lyfjaverslunar Íslands á fyrirtækinu Frumafli verið mjög í fréttum. Kaup á fyrirtækjum eru í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, slíkt gerist reglulega í verðbréfaheiminum. Eðlilegt ferli er þannig að mat er lagt á verðmæti fyrirtækisins sem festa á kaup á, síðan gert tilboð og ef samningar nást gengið til kaupa. Í tilfelli Frumafls deila menn um fyrsta þáttinn í þessu ferli, þ.e. hversu verðmætt fyrirtækið er. Ekkert hefur fengist uppgefið um eignir fyritækisins og því er erfitt að leggja mat á raunverulegt verðmæti þess. Stjórnarmaður í LÍ hefur farið fram á lögbann á kaupsamninginn á þeirri forsendu að Frumafl eigi engar eignir og að vegna þess að einn stjórnarmaður LÍ eigi stóran hlut í fyrirtækinu og sitji því báðum megin við borðið.

Þetta eru alvarlegar ásakanir sem ekki hafa fengist hraktar. Það er hins vegar ómögulegt að leggja mat á það hvort þær eru sannar eða ekki fyrr en allir pappírar liggja uppi á borðinu. Ef eitthvað er til í þeim er hér á ferð alvarlegur hlutur. Einn stjórnarmanna LÍ heldur því fram að með kaupunum sé eingöngu verið að festa kaup á samningi sem Frumafl gerði við Heilbrigðisráðuneytið um rekstur á þjónustu fyrir aldraða. Ef satt er hefur ríkisvaldið búið til ótrúlega háar peningaupphæðir, 680 milljónir, úr engu og afhent nokkrum einstaklingum, fyrrum eigendum Frumafls.

Þetta leiðir hugann að þjónustusamningum sem ríkisvaldið gerir um þjónustu sem lítur að grundvallarréttindum borgaranna. Rekstur heilbrigðisþjónustu er stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisvaldsins. Sú staðreynd er stór þáttur í þeirri viðleitni ráðamanna síðustu ára að draga úr útgjöldunum til málaflokksins. Sighvatur Björgvinsson tók við stöðu heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra árið 1991 og kom á því kerfi að sjúklingar greiddu beint fyrir þjónustuna sem þeir fengu, í viðbót við það sem skattar þeirra höfðu áður greitt. Heilbrigðisráðherrar Framsóknarflokksins hafa síðan verið óhræddir við að leita til einkaaðila til að spara útgjöld ríkisins.

Það að einkaaðilar séu ætíð betur fallnir til að standa í rekstri en ríkisvaldið er gömul bábilja sem á sérstaklega illa heima í heilbrigðisgeiranum. Hvatinn á bak við rekstur einkaaðila er ætíð hagnaðurinn og eru þeir tilbúnir til að ganga langt til að ná því markmiði. Það rímar hins vegar illa saman við rekstur samfélagsþjónustu eins og heilbrigðiskerfis sem í eðli sínu verður alltaf rekið með tapi og á að vera rekið með tapi. Það að breyta hjúkrunarheimili í einkarekið heimili gerir því ekkert annað en að bæta ávöxtunarkröfunni inn í rekstrarumhverfið. Henni verður ekki náð nema með niðurskurði á þeim rekstri sem fyrir er, eða gjöldum á notendur þjónustunnar. Öll hagræðing sem einkaaðilar leggja í til að spara útgjöld er einnig á færi ríkisins og raunar enn frekar, því ríkið, líkt og stórar fyritækjasamsteypur, getur náð fram mikilli hagræðingu í krafti stærðar sinnar.

Það leiðir hugann að samningum eins og þeim sem ríkisvaldið gerði við Frumafl og hefur nú fært eigendum þess fyrirtækis 680 milljónir króna í vasann. Ekki er sú eignatilfærsla notendum þjónustannar í hag, öldruðum íbúum landsins sem eftir langan starfsdag eiga rétt á því að lifa áhyggjulaust ævikvöld án þess að vera settir á vog gróða og tekjuafgangs. Þetta er engum í hag nema þeim sem áttu nægilegt fjármagn til að fjárfesta í fyrirtækinu Frumafli og eru nú að uppskera ríkulegan arð þeirrar fjárfestingar. Hugtök eins og arður eiga ekki heima í gunnstoðum samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfinu. Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á því og hætta að ganga erinda fjármagnseigenda því betra. Það verður þó trauðla fyrr en vinstri menn komast til valda.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.