Hræðslan við heimóttarmennskuna

Mörgum hefur orðið tíðrætt að undanförnu um fjölmenningu og þær breytingar sem orðið hafa á heimsbyggðinni á undanförnum áratugum. Fólksflutningar hafa leitt af sér blönduð samfélög þar sem áður voru einsleit og tækninýjungar hafa gert það að verkum að samskipti eru möguleg við fólk í öllum hornum heimsins. Alþjóðavæðingin, hvort sem er í formi ameríkaniseringar eða Evrópuvæðingar, hefur opnað dyr sem áður voru kirfilega lokaðar. Hún hefur hins vegar einnig þurrkað út vel þekktar þjóðleiðir með viðleitni sinni til þess að gera alla eins.

Þeir sem tjá sig um málefni líðandi stundar í fjölmiðlum, hvort sem það eru atvinnuskríbentar eða stjórnmálamenn, eru oft marki alþjóðavæðingarinnar brenndir. Í þessum kreðsum er mikið litið til útlanda eftir fyrirmyndum, markmiðið virðist vera að gera Ísland sem líkast þeim löndum sem helst er litið til. Þannig vísa nútímalegir jafnaðarmenn iðulega til Evrópusambandsins og hversu allt sé gott þar, fjölmiðlamenn vitna til líflegra stjórnmálaumræðna í Bretlandi sem andsvari við hversdagslegri umræðu íslenskra stjórnmála og svo mætti lengi telja. Hér er á ferð sambland aðdáunar á hinum erlendu hefðum og skömmustu fyrir púkalegar innlendar hefðir.

Eitt skýrasta dæmið um hið síðarnefnda má sjá í umfjöllun nokkurra þekktra fjölmiðlamanna um minningargreinar í Morgunblaðinu. Helst er á þeim að heyra að sú innlenda hefð sem skapast hefur með því að minnast látinna ættingja og vina í minningargreinum og birta í Morgunblaðinu, sé ein helsta ástæða þess að við Íslendingar verðum aldrei nútímalegir. Svona er þetta ekki í útlöndum og það leiðir af sér að þetta getur ekki verið af hinu góða. Dæmi um aðdáun á erlendum hefðum og menningu má hins vegar gjörla sjá á Skjá 1, en mýmörg dæmi eru um það að þáttagerðarmenn stöðvarinnar hafi stælt erlenda þætti s.s. Djúpa laugin, Johnny National, Björn og félagar o.fl.

Það er hið besta mál að leita eftir erlendum fyrirmyndum og reyna að auðga menningu og samfélag með útlendum straumum. Það er öllum samfélögum til hagsbóta, eykur skilning manna á millum og minnkar hættuna á fordómum með því að auka þekkingu fólks. Þegar slík leit er gengin út í öfgar og snýst um eftiröpun og stælingu – þegar menn skammast sín fyrir innlendar hefðir – þá er betur heima setið en af stað farið. Ekki er örgrannt um að ástandið sé á sumum bæjum á þessa leið. Í flýti sínum við að verða hluti af hinni nýju heimsmynd hafa margir gleymt rótum sínum.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem þetta ástand skapast hér á landi. Fyrir u.þ.b. einni og hálfri öld skrifaði Jónas Hallgrímsson smásögu um svipað fyrirbæri, „Að tyggja upp á dönsku“. Þar dró hann sundur og saman í háði þá tilhneigingu landa sinna að líta til Danmerkur eftir nýjum siðum og tísku. Sögupersónan, sem tuggði með framtönnunum vegna þess að hana vantaði jaxlana,b varð strax móðins er hún upplýsti að þetta héti að tyggja upp á dönsku. Hræðslan við það að vera álitinn heimóttarlegur, gamaldags og jafnvel þjóðlegur (sem er eitt versta skammaryrði nútímans) getur hins vegar leitt það af sér að brátt muni öll þjóðin japla með framtönnunum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.