Árangur í friðarmálum

Það er algengt viðkvæði hjá fjölmiðlamönnum og öðrum sem tjá sig um málefni líðandi stundar, ekki síst ef þeir telja sig nútímalega, að andstaða við bandaríska herinn á Miðnesheiði sé horfin. Gjarnan má heyra þá kenningu að ungt fólk hafi engan áhuga á þessum málum og þeir einu sem ljái þessum málstað lið sitt séu gamlir rugludallar af ´68 kynslóðinni. Fyrir síðustu kosningar til Alþingis bauð meira að segja einn stjórnmálaflokkur fram með þá kenningu að leiðarljósi að utanríkismál skiptu ekki máli í íslenskri pólitík. Afhroð þess flokks miðað við væntingar, þátttaka Íslendinga í árásarstríði á hendur annarri þjóð og öflug umræða um þessi mál ætti hins vegar að kenna mönnum að jarða hernaðarandstæðinga ekki of snemma.

Laugardaginn 24. júní síðastliðinn sást eitt merki þess að andstaða gegn hvers kyns hernaðarbrölti er ansi útbreidd hér á landi. Þá fór hópur fólks á vegum aðstandenda friðarvefsins (www.fridur.is) í óvissuferð sem endaði í Hamragili. Þar voru fyrir bandarísk ungmenni með byssur í höndum að þykjast skjóta hvert á annað. Þegar hinir íslensku friðarsinnar mættu á svæðið komst nokkur ókyrrð á dátana, enda hafði þeim verið talin trú um að hér á landi elskuðu allir menn amríska herinn. Eftir að friðarsinnarnir höfðu mótmælt heræfingum dátanna á friðsaman máta, afhent þeim dreifibréf þar sem andstaða við heræfingar og hersetu var tíunduð og þeir boðnir velkomnir til landsins sem ferðamenn, sáu „verndarar“ landsins sitt óvænna og hurfu á braut.

Þetta dæmi sýnir að með virkri andstöðu er hægt að hafa áhrif á aðgerðir og umfang hernaðarsinna innanlands og utan. Skemmst er að minnast þess þegar umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur kom í veg fyrir að hermennirnir æfðu sig á vatsnverndarsvæði Reykjavíkur, sem er eins gott því töluverðs sóðaskapar gætti á æfingasvæðinu í Hamragili. Fyrir tveimur árum tókst einnig að koma í veg fyrir heræfingar, en þá höfðu borgaryfirvöld á óskammfeilinn hátt heimilað æfingar hermanna í hjarta Reykjavíkur, sjálfum Hljómskálagarðinum.

Það er augljóst að andstaða gegn hernum er miklu útbreiddari en margur vill vera láta. Friðarsinnar hafa á undanförnum árum sýnt það og sannað í verki að hægt er að vængstýfa bandaríska fálkann. Betur má ef duga skal. Það er ósvinna að í upphafi 21. aldar, þegar kalda stríðinu er lokið og tækifæri er til að koma á samskiptum byggðum á friðsamlegum grunni, skuli Íslendingar skipa sér í röð þeirra sem hvað harðast ganga fram í hernaðarhyggjunni. Nú er útlit fyrir nýtt kalt stríð vegna brjálæðislegra hugmynda bandarískra stjórnvalda um geimvarnaáætlun. Íslensk stjórnvöld hafa tekið vel í þessar hugmyndir, í stað þess að tala fyrir afvopnun og friðvænlegri heimi. Kannski hugsa ráðamenn Íslands til þess að með nýju vígbúnaðarkapphlaupi gæti Ísland endurheimt mikilvægi sitt í varnarlínu Bandaríkjanna og íslensk stjórnvöld lagst aftur á spena hermangsins.

Næsta verkefni íslenskra friðarsinna er fundur leiðtoga NATO-ríkja hér á landi að ári. Ekki er að efa að þar verða talsmenn friðsamlegra samskipta, skilnings og trausts á milli þjóða áberandi við mótmæli. Helsta verkefnið er þó að koma bandaríska hernum úr landi og leggja niður herstöðina á Miðnesheiði, sem og alla hernaðarstarfsemi hér á landi. Á Íslandi hafa verið erlendir hermenn síðan landið lýsti yfir sjálfstæði árið 1944 (og raunar lengur). Hversu sjálfstæð er þjóð sem aldrei hefur staðið á eigin fótum heldur hangið í pilsfaldi stórvelda frá upphafi?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.