Gallvaskir falsspámenn

Einhver skemmtilegsta bókin í bókaflokknum um þá Ástrík og Steinrík er sagan af falsspámanninum. Hann kemur nótt eina til Gaulverjabæjar í miklu óveðri þegar allir íbúar bæjarins hafa safnast saman hjá höfðingjanum til að forðast það að himnarnir hrynji ofan á höfuðið á þeim. Langur og mjór, íklæddur úlfsskinni og með staf gengur hann inn í skini eldinga og beljandi þruma. Falsspámanninum tekst að vefja Gaulverjabæingum um fingur sér með stórkostlegum spám sem boða það sem þeir vilja heyra. Fyrsta spá hans er á þá leið að þegar óveðrinu sloti muni veðrið batna. Þetta verður til þess að styrkja bæjarbúa í bjartsýni á betra líf.

Það er ekki örgrannt um að manni verði hugsað til þessa falsspámanns í umræðu um efnahagsmál hér á landi. Ríkisstjórn Íslands minnir óneitanlega á spámanninn. Ráðamenn segja fólki það sem það vill heyra, að ástandið sé nú ekki svo slæmt eftir allt saman og fyllst ástæða sé til bjartsýni. Í leiðinni bera þeir af sér allar ásakanir þess efnis að þeir hafi eitthvað með málin að gera, en hér á landi situr fyrsta ríkisstjórn sögunnar sem hefur ekkert með ástand efnahagsmála að gera. Söngurinn var annar þegar góðærið svokallaða reið húsum. Þá mátti varla opna fyrir sjónvarp eða útvarp, eða kíkja í blöð án þess að sjá Davíð, Halldór og félaga berja sér á brjóst yfir stórkostlegum árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Um leið og fór að gefa á bátinn sór kallinn í brúnni hins vegar af sér alla ábyrgð og benti á messaguttann.

Í nýlegri einræðu forsætisráðherra í „blaði allra landsmanna“ úttalaði hann sig um ástæður hinnar óheillavænlegu þróunar sem nú er öllum augljós. Að vissu leyti er mikið framfaraspor hér á ferð, ekki er langt síðan Davíð neitaði að viðurkenna að blikur væru á lofti í efnahagsmálum og reyndi m.a. að leggja niður heila ríkisstofnun sem leyfði sér að halda slíku fram. Nú hefur Davíð hins vegar séð ljósið og þá var ekki annað eftir en að finna sökudólginn. Og ekki var forsætisráðherra í vandræðum með það. Launafólk landsins ber ábyrgð á ástandinu, en ríkisstjórn Íslands virðist ekki hafa gert ráð fyrir launahækkunum í efnahagsáætlunum sínum. Kennarar, sjómenn, opinberir starfsmenn, allir nema forsætisráðherra og samráðherrar hans bera ábyrgð á ástandi mála. Fólk hlýtur að spyrja sig hvers vegna Davíð samþykkti samninga við kennarana fyrst þeir höfðu þessar ógurlegu afleiðingar í för með sér.

Í skýringum ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að spámaður er ekki það sama og spámaður. Davíð Oddsson bendir brúnaþungur á það sem miður horfir í nýrri þjóðhagsspá og segir að þetta sé nú „bara spá“ og ekki merkilegri en hans eigin. Hins vegar tekur hann glaðbeittur þá örlitlu sólargeisla sem sjá má í spá Þjóðhagsstofnunar og gerir að algildum sannleika. Eins gerir Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins. Í nýlegum ummælum sínum vegna orða forsvarsmanna stéttarfélagsins Eflingar segir hann: „Mér er mjög illa við falsspámenn.“ Því næst gerir hann sína eigin spá, sem af einhverjum orsökum er meira virði en spá Eflingarmanna: „Ég trúi að það sé bjart fram undan og við náum tökum á efnahagslífinu aftur.“ Spá varaformannsins er ekki á neinum rökum reist nema tilfinningu bóndans fyrir veðrabrigðum.

Það er skammarlegt að ráðamenn þjóðarinnar skuli bera annan eins þvætting á borð fyrir landsmenn. Lengi vel skelltu þeir skollaeyrum við augljósum hættumerkjum efnahagslífsins. Þegar þeir loksins viðurkenna vandann, þó ekki allir, keppast þeir við að skella skuldinni á aðra. Það er hins vegar enn skammarlegra að þeir skuli komast upp með þetta. Fréttamenn og almenningur gerir sér fáránlegar útskýringar þeirra að góðu. Hvað halda menn að yrði um ráðamenn í alvöru lýðræðisríkjum sem afneituðu augljósum staðreyndum og tækju á vanda efnahagslífsins með því að yppa öxlum og segja „þetta lagast allt“? Væri íslenska þjóðarbúið fyrirtæki í einkaeigu væri í það minnsta löngu búið að sparka stjórnendunum. Falsspámenn eiga ekkert að hafa með stjórn efnahagsmála að gera.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.