Af róttækum miðjumönnum og öðrum kynjaskepnum

Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á landslagi íslenskra stjórnmála. Flokkar hafa orðið til og aðrir lognast út af og stærðarhlutföll hafa breyst, t.d. þannig að Framsóknarflokkurinn sem lengst af var næststærsti flokkur landsins mælist iðulega næstminnstur. Ekki er nema von að þessar hræringar rugli marga í ríminu, gömlum gildum flokkanna hefur verið kasta fyrir róða og hin nýju virðast falla misvel í kramið hjá kjósendum. Aðallega hefur orðið vart við þessar hræringar á miðju stjórnmálanna en þar berjast tveir flokkar um atkvæðin; hinn gamalgróni miðjuflokkur Framsóknarflokkurinn og nýmiðjungar í Samfylkingunni.

Barátta þessara flokka um forystuna á miðjunni hefur tekið á sig ýmsar myndir. Einkennilegust þeirra er sennilega slagurinn um Tony Blair. Suður í Bretlandi ræður nefnilega ríkjum mikill stjórnmálaskörungur er Blair heitir. Sá hefur skilað flokki sínum ómældum fjölda atkvæða með því að yfirgefa þá stefnu sem hann stóð fyrir og taka upp miðjustefnu með hægri ívafi. Um nokkurt skeið hefur staðið yfir barátta um það hver geti talist réttmætur systurflokkur Verkamannaflokksins hér á landi – hvort Ásgrímsson eða Skarphéðinsson sé Blair Íslands. Í þessu ati hafa mörg þung högg fallið, pólitískir löðrungar fokið og pústrar gengið manna á milli.

Ljósið í myrkri hinna hatrömmu átaka um miðjuna er hins vegar vefsíða ungra miðjumanna, Maddaman. Sú var áður kennd ungum Framsóknarmönnum en hefur nú fengið yfirhalningu og ættleiðingu og er, eins og áður segir, nú afkvæmi ungra miðjumanna. Af þeim gjörðum má sjá að hér er að skapast grundvöllur fyrir bandalag ungra Framsóknarmanna og Samfylkingarmanna. Ekkert er því til fyrirstöðu að ungir Samfylkingarmenn skipi sér við hlið ungra Framsóknarmanna og saman riti þeir á síðu ungra miðjumanna.

Þyki einhverjum þessi kenning ævintýraleg ætti sá hinn sami að lesa pistil ritstjóra síðu ungra miðjumanna fimmtudaginn 21. júní. Þar fetar hann í fótspor þekktra penna og skrifar heilræði. Þessum heilræðum er beint til Samfylkingarinnar. Líkt og í mörgum heilræðum, hvort sem er í bundnu eða óbundnu máli, er að finna mörg gullkorn í Heilræðum til Samfylkingarinnar. Ritstjórinn notar hið þekkta stílbragð, in medias res, og hendir lesandanum beint í hringiðu heilræðanna: „Formannsskipti munu ekki leysa vanda Samfylkingarinnar. Flokkurinn verður einfaldlega að skerpa áherslur sínar og færa sig hægt en örugglega á miðju stjórnmálanna.“

Hér er ekki verið að skafa utan af hlutunum. Vanda Samfylkingarinnar er ekki lýst heldur komið beint að lausn hans, skerpa áherslur og færa sig á miðjuna. Þar eru hins vegar á fleti fyrir aðstandendur Maddömunnar, Ungir miðjumenn, svo augljóslega er hér um pólitískt boðorð að ræða. Fleiri heilræði á ritstjórinn í fórum sínum Samfylkingarmönnum til handa. Hann telur nafn flokksins vera honum mikla byrði og einföld en árangursrík aðgerð sé að skipta um það. Máli sínu til stuðnings bendir hann á títtnefndan Blair og flokk hans, sá hét áður Verkamannaflokkurinn en ber nú nafnið Nýi verkamannaflokkurinn. Telur ritstjórinn þetta vera skýringu á góðu gengi Blairs og liðsmanna hans, þó hann ráðleggi Samfylkingarmönnum að fara aðra leið í sinni nafnbreytingu, Ný samfylking muni ekki ganga upp. Kannski er einfaldasta leiðin í þessu sú að breyta nafni Samfylkingarinnar í Framsóknarflokkurinn, með því væru öll skilyrði heilræðanna uppfyllt.

Í lok greinar sinnar leggur heilræðarinn Samfylkingarmönnum þó nokkuð þungt verk á herðar. Að vísu telur hann nægan tíma til stefnu, næstu kosningar eru ekki fyrr en eftir tvö ár. Þó mundu margir telja að það væri vart nægur tími til verksins, enda bæði flókið og erfitt. Ritstjóri vefrits ungra miðjumanna leggur þá þraut fyrir Herkúles Samfylkingarinnar „að reyna að finna hina róttæku miðju íslenskra stjórnmála“. Ljóst er að erfitt verk bíður Samfylkingarmanna og jafnvel óleysanlegt. Gralinn sem bíður þeirra er hins vegar stór og opinn faðmur Framsóknarflokksins. Hversu róttækur sá miðjuflokkur yrði skal hins vegar ósagt látið.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.