Norðurvíkingur á villigötum

Í dag hefjast heræfingar á Íslandi. Heræfingar þessar hafa verið reglubundinn þáttur í lífi landsmanna að undanförnu. Fullorðnir karlmenn (og jafnvel einstaka kvenmaður) munu skríða um landið í felubúningum og plaffa hver á annan með púðurskotum. Í þetta verður eytt milljónum og ákveðin svæði verða lokuð fyrir íbúum landsins. Þessar heræfingar ganga undir nafninu "Norður-Víkingur" og hafa verið haldnar á tveggja ára fresti undanfarin ár. Stjórnvöld hafa yfirleitt ekki sett hermönnunum neinar skorður og þeim verið hleypt inn á hvaða svæði sem þeir hafa óskað sér. Þó hefur komið fyrir að almenningi hefur verið nóg boðið, líkt og fyrir tveimur árum þegar komið var í veg fyrir heræfingar í Hljómskálagarðinum.

En til hvers eru öll herlegheitin? Jú, hér er á ferð "varnaræfing", okkur Íslendingum til hugarhægðar. Fyrir tveimur árum voru það brjálaðir umhverfisverndarsinnar sem líklegastir voru til að gera okkur grikk og því var síðustu æfingu beint gegn þeim. Nú eru það alþjóðlegir hryðjuverkamenn sem gera harða hríð að Íslandi. Hermennirnir munu "æfa varnir mikilvægra staða gegn alþjóðlegum hryðjuverkum" eins og segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Og hverjir eru þessir mikilvægu staðir? Fyrir utan herstöðina á Miðnesheiði er um að ræða Varnarstöðina á Miðnesheiði, Helguvíkurhöfn, Sogsvirkjun, Nesjavallavirkjun, Skálafell, Skíðasvæðið í Hamragili og Skíðasvæðið í Skálafelli. Þetta eru mikilvægustu staðir Íslands, staðir sem alþjóðlegir hryðjuverkamenn eru líklegastir til að herja á. Allir hljóta að gera sér grein fyrir því hversu gífurlegar afleiðingar það hefði fyrir landslýð ef skíðasvæðunum í Skálafelli og Hamragili myndi verða lokað vegna hryðjuverka, ja eða Helguvíkurhöfn.

Það hefur verið hálfpínlegt að fylgjast með íslenskum ráðamönnum réttlæta þessar heræfingar á tveggja ára fresti. Fyrir æfingarnar þetta árið sóttist utanríkisráðuneytið eftir því að norðurvíkingarnir fengju að skjóta hver á annan innan vatnsverndarsvæðis Reykjavíkur og gista í skálum í Bláfjöllum. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir það. Utanríkisráðuneytið er þó ekki af baki dottið og kemur byssumönnunum m.a. fyrir í barnaskólum í Sandgerði og Hveragerði.

Staðreyndin er hins vegar sú að það hefur ekkert varnargildi fyrir Ísland að skríða um brekkur í Hamragili eða í Skálafelli. Hér eru tilgangslausar aðgerðir á ferð sem kosta milljónir króna og ættu hverjum manni að vera mótfallnar. Það skiptir hermennina engu máli í hvaða gili þeir æfa sig að skjóta hver á annan, þeir gætu sem best verið heima hjá sér í byssuleikjum, eða á þar til gerðum litboltavöllum.

Vonandi munu sem flestir Íslendingar sjá sóma sinn í því að mótmæla þessum skrípaleik. Það er fáránlegt að Íslendingar skuli ekki nýta sér þá aðstöðu sem þeir eru í til þess að vera boðberi friðar á heimsvísu. Ráðamenn þjóðarinnar velja frekar að styðja byssustingina. Gleymum því þó ekki þegar við horfum á hermennina veltast um í skítnum og skjóta púðurskotum hver á annan, að hér eru á ferð menn með morðtól í höndum, sem undir öðrum kringumstæðum væru að skjóta alvöru kúlum á lifandi fólk með það að markmiði að drepa það.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.