Lýðræði í orði

Fylgjendur Evrópusambandsins hér á landi þreytast seint á því að dásama það bandalag og það eina bjargræði Íslendinga í gjörbreyttum heimi. Fullyrðingar þeirra sem ekki eru eins ginnkeyptir fyrir samruna við Evrópusambandið um að með því myndu Íslendingar skerða fullveldi sitt, missa yfirráð yfir eigin málum og fleira í þeim dúr, eru af stuðningsmönnum ESB taldar hjóm eitt. Þeir fara mikinn í að sýna fram á að fullveldi landsins standi engin ógn af inngöngu í ESB og benda gjarnan á það að sambandið sé lýðræðislega uppbyggt og raddir allra aðildaríkja þar réttháar. Þess vegna myndu Íslendingar hafa mikið um eigin málefni að segja og vart verða þvingaðir til neins sem þeir væru andvígir.

Viðbrögð ráðamanna ESB við nýlegri þjóðaratkvæðagreiðslu Íra um Nice-sáttmálann benda þó til þess að fyllsta ástæða sé til þess að hlusta á varúðarraddir. Nice-sáttmálinn snýst m.a. um stækkun sambandsins til austurs og í honum er að finna ýmsar þær ráðstafanir sem aðildarríkin verða að grípa til vegna hennar. Við samningu sáttmálans var skýrt tekið fram að öll aðildarríki ESB þyrftu að samþykkja hann til þess að hann kæmi til framkvæmda. Danir hafa einir þjóða samþykkt hann en búist er við að fleiri fylgi í kjölfarið.
Írland er hins vegar eina landið þar sem samninga af þessu tagi verður að bera undir þjóðaratkvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðslur í ýmsum aðildarríkjum sambandsins hafa verið helsti akkilesarhæll þess undanfarin ár. Kemur þar yfirleitt í ljós að almenningur er ekki jafnhrifinn af auknum samruna og forkólfar ESB. Nægir í því samhengi að vitna til þjóðaratkvæðagreiðslu Dana um Maastricht-samninginn, en hann var felldur þar árið 1992. Í kjölfarið þurfti að breyta honum fyrir Dani og bera hann aftur undir þjóðaratkvæði og var hann þá samþykktur. Leiðtogar annarra aðildaríkja en Írlands geta hins vegar andað léttar, þeir þurfa ekki að spyrja þjóð sína álits.

Viðbrögð forkólfa ESB við synjun Íra við Nice-sáttmálanum gefa hins vegar tilefni til að draga í efa allar fullyrðingar um sameiginlega stefnu aðildarríkjanna, lýðræðislega uppbyggingu og fleira í þeim dúr. Ef farið væri að prótokollum í einu og öllu væri sáttmálinn úr sögunni og semja þyrfti nýjan, sem vegna ákvæða í írsku stjórnarskránni yrði borinn undir atkvæði írsku þjóðarinnar. Slíkt ferli mundi hins vegar tefja frekar samruna og stækkun bandalagsins til austurs. Forystumenn Evrópusambandsins hafa hins vegar ákveðið að það sé aðildarríkjunum fyrir bestu að uppfylla ákvæði Nice-sáttmálans og því ætla þeir hvergi að hvika frá upphaflegri stefnu sinni.

Nú hafa þessir forystumenn gefið út yfirlýsingar þess efnis að sáttmálinn muni standa óhaggaður og koma til framkvæmda þannig, þó fyllsta tillit verði tekið til afstöðu Íra. Hvernig hægt er við framkvæmd samningsins að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem vilja ekki framkvæmdina er ekki ljóst. Augljóst er hins vegar að ekki verður farið eftir hinum ströngu kröfum um að samþykki allra aðildarríkja þurfi til þess að samningurinn verði að veruleika. Stjórnmálamenn Evrópusambandsins, þar á meðal fulltrúar Íra, telja sig nefnilega vita svo miklu, miklu betur heldur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Og þegar leiðtogarnir tala ætti almúginn að hlusta.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.