Stöndum vörð um einstaka náttúruperlu

Á morgun rennur út frestur almennings til að gera athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Virkjunin er tröllaukin framkvæmd og ef til hennar kemur verður hún stærsta framkvæmd sem Íslendingar hafa lagt í. Því er mikilvægt að sem flestir segi álit sitt á skýrslunni um umhverfisáhrif hennar en segir það sig sjálft að framkvæmd af þessari stærðargráðu hefur gífurleg áhrif á umhverfi sitt. Það er hins vegar mat hagsmunaaðila (þeirra sem ætla sér að græða á því að selja rafmagnið sem virkjunin framleiðir) að þau áhrif séu „innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir“.

Ekki fylgir sögunni hver séu þessi viðunandi mörk, en ljóst er að fyrirtækið sem ætlar að græða fé á framkvæmdinni telur að umhverfisáhrifin séu innan þeirra óskilgreindu marka. Í húfi eru hins vegar gífurleg verðmæti, bæði í peningum og ekki síst í náttúru landsins. Við rannsóknir á svæðinu sem um ræðir hefur æ betur komið í ljós hve sérstætt það er. Þar hafa fundist dýrategundir sem ekki var vitað að væru til hér á landi og meira að segja tegundir sem áður voru ekki þekktar í heiminum. Gróðurfar á svæðinu er mjög sérstakt og hafa ýmis dýr viðurværi sitt, að hluta eða öllu leyti, af svæðinu. Öllu þessu verður fórnað ef miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar verður að veruleika. Lónið mundi einnig kljúfa stærsta ósnortna víðerni Vestur-Evrópu í tvennt.

Það er því mikilvægt að almenningur láti í sér heyra og sendi athugasemdir sínar til Skipulagsstofnunar. Leiðbeiningar um það hvernig best er að bera sig að í því má finna á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands. Vilji menn sjá ítarlegar athugasemdir við matið er ráðlegt að líta við á heimasíðu Hjörleifs Guttormssonar. Þar er að finna margvísleg dæmi um alvarlegar brotalamir á mati Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur fellt sinn dóm yfir náttúru landsins, hún má missa sín þegar einhver von er um krónur og aura í vasann. Nýlegir útreikningar Þorsteins Siglaugssonar rekstrarhagfræðings sýna hins vegar að ekki er hagnaður á framkvæmdinni heldur tap. Með því er allur málatilbúnaður Landsvirkjunar og stjórnvalda fokinn út í verður og vind. Aðalatriði málsins er hins vegar það að náttúran verður að fá að njóta vafans og gæði hennar verður að meta til fullnustu.

Það er skylda Skipulagsstofnunar að taka tillit til allra þeirra athugasemda sem berast vegna matsskýrslunnar. Fyrir nokkrum árum skipaði umhverfisráðherra svo fyrir að við mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum mætti ekki taka tillit til efnahagslegra áhrifa framkvæmdanna. Útreikningar Landsvirkjunar á mikilvægi umhverfismála í samhengi við efnahagslegan ávinning munu engu skipta þar. Það gera hins vegar athugasemdir við skýrslu fyrirtækisins um mat á umhverfisáhrifum. Því ættu sem flestir að kynna sér málin og senda athugasemdir sínar til Skipulagsstofnunar, það er áhrifarík leið til þess að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Og ef svo hörmulega færi að Skipulagsstofnun gengi erinda stjórnvalda í þessu máli og hundsaði hagsmuni náttúrunnar, þá myndu allar athugasemdir skipta máli í kæruferlum sem umhverfissinnar stæðu fyrir.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.