Af ólíkum uppruna

Í aðalfréttatíma sjónvarpsins miðvikudaginn 6. júní mátti heyra frásögn af óeirðum í ensku borginni Leeds. Upp á síðkastið hafa átök sett svip sinn á bæinn, sem hófust með því að lögreglan notaði táragas við að handtaka ungan mann. Sá á ættir að rekja til Asíu og telja þeir íbúar Leeds sem hið sama á við að lögreglan hafi beitt óþarfa hörku vegna þessa. Íbúar Leeds sem eiga ættir að rekja til Asíu og Afríku telja að þeir sitji ekki við sama borð og aðrir íbúar borgarinnar. Fréttamaður ríkissjónvarpsins sagði skilmerkilega frá óeirðunum umrætt kvöld og virtist hafa ótrúlega nákvæmar upplýsingar um framættir þeirra sem tóku þátt í þeim.

Þeirrar miklu vitneskju varð vart þegar fréttamaðurinn upplýsti hverjir hefðu átt hlut í óeirðunum því það fólk var "… bæði breskt og af asískum og afrískum uppruna." Nú hljóta margir að spyrja sig að því hvaða viðmið hið íslenska ríkissjónvarp notar þegar skorið er úr um þjóðerni. Augljóst er að það fólk sem á ættir sínar að rekja til Asíu og Afríku er ekki breskt að mati þess fréttamanns sem sá um umrædda frétt. Ágætt væri að fá úr því skorið hvort það er vegna þess að það hefur ekki búið nógu lengi í Bretlandi og ef svo er hversu lengi menn þurfa þá að búa þar til að teljast breskir, hvort fólkið talar ekki ensku, er ekki með breskt ríkisfang o.s.frv.

Ekki er ólíklegt að ástæða þess að fréttamaður ríkissjónvarpsins telur þetta fólk ekki breskt, a.m.k. ekki þegar það á í átökum við hvít bresk ungmenni, sé sú að hörundslitur þeirra er annar en hvítur. Það er hins vegar algjörlega óáættanlegt að slíkra sjónarmiða sjái stað í fréttaflutningi, ekki síst hjá opinberri fréttastofu. Öruggt má teljast að einhverjir forfeður þeirra ungmenna sem fréttastofan nefndi bresk í umræddri frétt, koma frá öðrum löndum en Bretlandi, s.s. Frakklandi, Hollandi eða jafnvel Íslandi. Þau eiga það hins vegar sameiginlegt að bera hvítan hörundslit og því getur fréttastofan óhrædd stimplað þau bresk.

Mikið hefur verið rætt og ritað um kynþáttahyggju að undanförnu hér á landi, ekki síst í kjölfar ákæru ríkissaksóknara á hendur forsprakka sértrúarsöfnuðar sem telur hvíta kynstofninn öðrum æðri. Sjálfsagt er að vara við slíkum málflutningi. Öllu alvarlegri en afmörkuð ummæli sérvitrings er þó málflutningur eins og fréttamaður ríkissjónvarpsins gerði sig sekan um. Hann er þó ekki einn á báti. Iðulega er þess t.d. getið þegar einhverjir Íslendingar komast í kast við lögin hvort þeir eru "af asískum uppruna". Eins er hugtakið "nýbúar" sérstaklega notað yfir fólk sem á ættir sínar að rekja til Asíu (þó Austur-Evrópubúar falli stundum undum hugtakið) en engum fréttamanni mundi til hugar koma að kalla hingaðflutan Bandaríkjamann nýbúa.

Þjóðernishyggja er áhrifamesta hugmyndafræði síðustu alda. Hún hefur skapað ríki (s.s. Þýskaland og Ítlalíu) og sundrað öðrum (s.s. Austurríki-Ungverjalandi), getið af sér kynþáttarhreinsanir og ótal átök. Þjóðerni er hins vegar ekki líffræðilegt fyrirbæri. Fólksflutningar síðustu alda hafa gert það að verkum að þjóðir eru blandaðara úr ólíkum þjóðflokkum. Þjóðerni er huglægt. Velji einhver það að verða Íslendingur og fái ríkisborgararétt með öllum þeim réttindum og skyldum sem honum fylgja, þá er hann Íslendingur. Engu máli skiptir hvar viðkomandi er fæddur, hvar forfeður hans bjuggu eða hvaða mál hann talar.

Í baráttunni gegn viðhorfum kynþáttahyggju sem víðast hvar er landlægt vandamál má ekki missa sjónar á skóginum fyrir trjánum. Það eru skoðanir eins og þær sem heyrðust í umræddum fréttatíma sem þarf að berjast gegn. Að það sé svo sjálfsagt að einhverjir séu af asískum uppruna vegna hörundslitar, en hinir breskir og þá væntanlega af breskum uppruna vegna hörundslitar. Slík flokkun byggir á rasisma og ber að berjast gegn henni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.