Á stéttaskiptingu tapa allir

Lengi hefur það verið viðkvæðið að Ísland sé stéttlaust þjóðfélag. Ýmislegt er til í þessari fullyrðingu, ekki síst í samanburði við önnur lönd. Þannig hefur skólaskyldan orðið til þess að allir njóta lágmarksmenntunar og varla er hægt að segja að málfarslegum stéttamun sé fyrir að fara hér á landi. Þó hefur ætíð verið einhver stéttaskipting hér á landi líkt og í flestum öðrum samfélögum. Á síðustu árum hefur efnahagsleg misskipting hins vegar aukist til muna í þjóðfélaginu og nú er svo komið að stéttaskipting er meira áberandi en áður.

Á síðustu árum hefur munur hæstu og lægstu launa aukist margfalt. Þeir sem tala mest fyrir ofurlaunum stjórnenda vilja meina að þar séu menn í ábyrgðarstöðum og því þurfi þeir há laun. Hins vegar má spyrja að því hvaða afleiðingar það hefur að hafa rúma milljón á mánuði. Í hvaða tengslum er slíkt fólk við lífið í landinu? Er ekki hætt við því að þeir sem hafi endalaust fé handa á milli og geti leyft sér það sem þeir vilja, öðlist smátt og smátt það viðhorf að ætíð sé til nægilegt fé og fari því ógætilega með það?

Eins má velta því fyrir sér hvað er ábyrgðarstaða og hvað ekki. Hvort er meira ábyrgðarhlutverk að höndla með verðbréf eða að hlúa að velferð ungra barna? Hvort er alvarlegra þegar einhver verðbréfaforstjórinn gerir mistök sem kosta milljónatap, eða ef einhver leikskólakennarinn gerir mistök sem kosta líf eða heilsu ungs barns? Hér á landi hefur ætíð verið litið á umönnun sem annars flokks starf og afleiðingin er sú að laun þeirra sem hana stunda eru svívirðilega lág. Nægir í því sambandi að benda á þroskaþjálfa sem nú standa í deilum um laun sín. Eftir háskólanám og fimm ára starfsaldur hafa þeir um 100 þús. krónur í laun á mánuði.

Ein ástæða þess að svo er komið er sú að samfélagsleg hugsun er af skornum skammti hér á landi. Ráðamenn líta ekki á hlutina í réttu samhengi, á samfélagið sem eina heild. Þess í stað horfa þeir á afmarkaða hópa þess og etja þeim með því saman. Það ætti að vera öllum í hag að allir á Íslandi hefðu sómasamleg laun. Lágmarkslaun á því skilyrðislaust að hækka til muna. Það er engu samfélagi til góðs að gjá myndist á milli þeirra sem hafa hæstu launin og þeirra sem við verst kjör búa. Þess vegna þarf að jafna þennan launamun. Í því skyni er ekkert því til fyrirstöðu að lækka laun þeirra sem hæst launin hafa.

Það hverjir stunda mikilvægustu og ábyrgðarmestu störf hvers samfélags er alltaf háð huglægu mati. Það ber ætíð að hafa það í huga þegar rætt er um ástæður ofurlauna ýmissa stjórnenda. Ef framboð og eftirspurn réðu ætíð launum, líkt og margir frjálshyggjumenn vilja meina, þá væru menntaðir leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennarar með miklu hærri laun en verðbréfamiðlarar og fjármálabraskarar. Ekki stendur á slíkum til að manna verðbréfafyrirtækin, framboðið þar fullnægir eftirspurninni auðveldlega. Hins vegar er ætíð skortur á menntuðum kennurum, eftirspurnin er miklu meiri en framboðið og því ættu laun þeirra að hækka til muna ef lögmál markaðarins réðu.

Það er hins vegar ekki hægt að reka mannvænlegt samfélag eingöngu eftir lögmálum markaðarins. Samfélagsleg hugsun verður að vera ríkjandi. Það er samfélaginu öllu í hag að þegnar þess hafi það sem best, búi við sem jöfnust kjör og njót góðrar samfélagsþjónustu. Til þess að ná því markmiði eru ýmsar leiðir færar. Ein af brýnustu aðgerðunum er að brúa þá miklu gjá sem hefur myndast í samfélaginu á milli þeirra sem verst hafa það og þeirra sem við best kjör búa.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.