Kosningabandalag í borginni?

Nú er ekki nema rúmt ár í sveitarstjórnarkosningar og því við hæfi að fara að huga að undirbúningi þeirra. Síðustu mánuði hafa ýmsir tjáð sig um framboðsmál hér í Reykjavík, framtíð Reykjavíkurlistans og fjölda framboðslista. Það hefur einkennt umræðuna að hún er í lausu lofti, einn og einn aðili hafa verið að tjá sína skoðun á málinu, en engar formlegar viðræður hafa farið fram um málið. Það hefur á ýmsan hátt skaðað málið vegna ábyrgðarlausra yfirlýsinga einstakra manna. Sú hugsun ætti að vera ríkjandi að menn leystu málin sín á milli í viðræðum áður en hlaupið er í fjölmiðla til að básúna skoðanir sínar.

Pólitískt landslag hefur breyst til muna frá því að Reykjavíkurlistinn bauð fram árið 1998. Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn og Kvennalistin runnu saman í Samfylkinguna og Reykjavíkurlistinn í dag er því eingöngu borinn uppi af tveimur flokkum, Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð á enga formlega aðild að listanum þó svo að ýmsir félagar í henni starfi innan vébanda hans. Eigi VG að taka þátt í kosningabandalagi við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn þurfa að fara fram viðræður um þau mál og nást málefnasamstaða á milli flokkanna þriggja um kosningabandalag.

Það er hins vegar einsýnt að slíkar viðræður eiga að fara fram, annað væri óráð. Þeir flokkar sem hafa kennt sig við félagshyggju í Reykjavík eiga að láta á það reyna hvort ekki næst málefnasamstaða þeirra á milli og hvort ekki er grundvöllur fyrir myndun kosningabandalags. Versta mögulega niðurstaða úr sveitarstjórnarkosningunum væri sú að Sjálfstæðisflokkurinn næði völdum á ný í borginni. Ekki þarf að horfa lengra en til Hafnarfjarðar, eða Stjórnarráðsins, til að sjá hvað það hefði í för með sér.

Þess vegna er sjálfsagt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin reyni að komast að samkomulagi um kosningabandalag í Reykjavík. Til þess að svo megi verða þarf að nást samstaða um málefni og fyrir félaga í VG er nauðsynlegt að málefnaskrá slíks bandalags endurspegli málefnaskrá VG að miklu leyti. Hvort það verður eða ekki kemur ekki í ljós án viðræðna á milli flokkanna. Það er þó alveg ljóst að málefnin skera úr um mögulegt samstarf. Í ljósi þess hve tíminn er naumur er ráð að hvetja alla hlutaðeigandi aðila til þess að fara sem fyrst í viðræður sín á milli um möguleika á samstarfi. Það er öllum í hag að fá niðurstöðu úr slíkum viðræðum sem fyrst.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.