Vorboðinn „ljúfi“

Nýlega birtist einn af síðustu vorboðunum. Rauðmaginn og lóan voru komin og nú er sá síðasti kominn í hús. Á þessum árstíma má heyra kaffihúsaspekinga landsins býsnast yfir því hve þingmenn vorir séu leiðinlegir eftir að hafa horft á eldhúsdagsumræður. Tvisvar á ári, vor og haust, rýfur Ríkisútvarpið hefðbundna dagskrá sína í sjónvarpinu og hleypir kjörnum fulltrúum þjóðarinnar að. Á vorin gera þeir upp yfirstandandi þing, horfa til framtíðar og fleira í þeim dúr. Löngum hefur þetta farið í taugarnar á mörgum, en með tilkomu fleiri sjónvarpsstöðva kom sá möguleiki að skipta hreinlega á aðra stöð og leyfa þingmönnunum að masa í friði. Kaffihúsaspekingarnir sitja hins vegar allir sem fastast og eru alltaf jafn hissa á því hversu þingmennirnir eru leiðinlegir.

En í hverju felast leiðindi þingmanna? Ef marka má tvo netskríbenta landsins, þá Egil Helgason og Hrafn Jökulsson, felst það aðallega í því hversu mónótónískir þingmennirnir séu, þeir horfi of mikið niður á blaðið þegar þeir halda ræðu, tafsi, séu ekki sniðugir o.fl. Engu líkara er en að hér sé mælistika Morfískeppna sett á þingmenn, en aðall þeirra keppna hefur ætíð verið blæbrigðaríkar raddir sem fara frá hæstu tónum og niður í þá lægstu, miklar handasveiflur, leikmunir og aulabrandarar.

Einhver skyldi þó ætla að það sem skipti máli í stjórnmálum væri innihaldið frekar en umbúðirnar. Að ræður þingmanna skyldu metnar eftir inntaki þeirra, en ekki því hversu sjóaðir þeir eru í framsetningu. Nú skal ekki litið framhjá því að vaskleg framkoma og sjálfsöryggi eru góð hjálpartæki þeim sem vill ná langt í stjórnmálum. Menn skulu þó ekki gleyma því að ósjaldan á það við að hæst bylur í tómri tunnu.

Það sem mest virðist fara í taugarnar á ýmsum varðandi eldhúsdagsumræðurnar er umfjöllunarefnið. Hrafni fannst til dæmis lítið til þess koma að Vilhjálmur Egilsson skyldi hafa eytt mestum tíma sínum í að tala um efnahagsmál. En um leið og hann fór að skjóta á stjórnarandstöðuna, þá var nú gaman. Og er það ekki málið? Á meðan menn skjóta órökstuddum fullyrðingum hver á annan þá er gaman að lifa. Og bestar eru dylgjur sem enginn skilur, en vei þeim sem ætlar sér að fara að tala um pólitík, stjórnun landsins, efnahagsmál, samfélagsþjónustu og fleiri smáatriði. Og ritstjóri Fréttablaðsins virðist halda að stjórnmálaumræður séu einhvers konar utanbókarlærdómur og hneykslast mjög á því að flestir þingmenn flytji skrifaðar ræður.

Egill Helgason horfir til Bretlands í leit að fyrirmynd, þar séu stjórnmálin skemmtileg. Þar er reglulega fyrirspurnartími fyrir forsætisráðherra og stjórnarandstöðuleiðtoginn baunar á hann. Leiðtogarnir tveir sitja hvor andspænis öðrum, sá sem talar stendur upp, þingmenn klappa, stappa, baula og hlæja eftir því sem við á. Nú skal játað að þetta er ansi skemmtilegt sjónvarpsefni og margir góðir óratorar hafa látið ógleymanleg gullkorn falla (t.d. sá sem sagði að hálfur þingheimur væri asnar, tilneyddur dró hann þetta til baka og sagði að hálfur þingheimur væri ekki asnar), en þetta er ósköp innihaldsrýrt.

En það er kannski í takt við nútímann að heimta hanaslag í staðinn fyrir pólitískar umræður. Að horfa til lands þar sem stjórnmál einkennast af innihaldsleysi. Þetta er í takt við nútímann, en sá nútímalegasti af stjórnmálaflokkum Íslands samsamar sig einmitt breska Verkamannaflokknum, og leiðtogi hans, Tony Blair, lýsti því nýlega yfir að nú ætli hann að hætta að einblína á tilkomumiklar umbúðir og fara að einblína á innihald í ræðum sínum. Eldhúsdagsumræður þessa árs voru hvorki verri né betri en undanfarinna ára. Þar fóru stjórnmálamenn yfir sviðið og voru misáhugaverðir, sumir æði klisjukenndir, fæstir skemmtilegir en margir höfðu eitthvað til málanna að leggja. Og er það ekki það sem stjórnmál snúast um?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.