Svik á svik ofan

Á Íslandi er minnihlutahópur sem býr við þær aðstæður að njóta ekki sömu réttinda og aðrir. Hér er að sjálfsögðu vísað til sjómanna og þess að þeir eiga ekki sama rétt til samninga um eigin kjör og annað launafólk. Sjómenn hafa ekki samið um eigin laun í árafjöld, heldur verið ofurseldir lagasetningum og gerðardómum. Síðan 1998 hafa laun þeirra verið bundin af lagasetningu og því ekki þróast miðað við eðlilega launaþróun í landinu.

Stjórnarliðar tala nú fjálglega um að lagasetning hafi verið nauðsynleg, þeir sem hafi haldið að sjómenn gætu verið endalaust í verkfalli séu bláeygðir og geri sér ekki grein fyrir raunveruleikanum. Það skyldi þó aldrei vera að þeir sem hafi haldið að sjómenn fengju að semja núna hafi fallið í þá gryfju að trúa orðum forsætisráðherra. Í viðtali við Morgunblaðið þann 10. febrúar var haft eftir Davíð Oddssyni að nú væri „…nóg komið af afskiptum ríkisvaldsins við samningagerð útgerðarmanna og sjómanna.“ Eflaust verður skáldið ekki í neinum vandræðum með að útskýra að með þessu hafi hann ekki átt við að stjórnvöld mundu ekki hafa afskipti af sjómönnum heldur eitthvað allt annað.

Það er allt á eina bókina lært í samskiptum stjórnvalda við sjómenn. Ráðherrum þykir ekki tiltökumál að ljúga í sjómenn til að ná því fram sem þeir vilja. Þannig fullyrti sjávarútvegsráðherra í umræðum á þingi að lögin um verkfallið myndu ekki ná til þeirra sem aflýstu verkfalli. Nokkrum dögum síðar var búið að setja lög á Sjómannasamband Íslands sem þó hafði aflýst verkfalli.

Oft hefur því verið fleygt fram að útvegsmenn ráði því sem þeir vilja ráða í lagasetningum um sjávarútveg. Nýafstaðin lagasetning hlýtur að taka af allan vafa um sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar. Það er augljóst að LÍÚ hefur aldrei viljað semja í þessu máli. Þeir drógu lappirnar mánuðum saman og fengust ekki að samningaborðinu fyrr en verkfall vofði yfir. Síðan hafa þeir ekki viljað hnika til neinu af sínum kröfum, en gert samning við vélstjóra sem þýðir í mörgum tilfellum launalækkun fyrir háseta. Þegar lagasetning vofði yfir og allt leit út fyrir að sjómenn ætluðu að koma sér undan gerðardómi með því að aflýsa verkfalli lýstu útgerðarmenn því yfir að þeir myndu ekki aflýsa verkbanni á sjómenn. Afleiðingin er sú að gerðardómur mun fjalla um laun allra sjómanna.

Það eru ekki nokkur rök fyrir því að LÍÚ ætti að halda verkbanni sínu til streitu, nema þau að fá ráðherra til þess að sníða lögin að stakki útgerðarmanna. Og ráðherra brást ekki skyldu sinni. Útgerðarmenn fengu það fram sem þeir vildu og þurfa ekki að semja við sjómenn í bráð. Það er hins vegar athyglivert hversu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins víla lítt fyrir sér að ljúga upp í opið geðið á landsmönnum og þar með kjósendum sínum. Væri einhver döngun í fréttamönnum landsins væri búið að taka Davíð og Árna á beinið fyrir þetta, en hér á landi komast þeir auðveldlega upp með svikin.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.