Hættulegur hugsunarháttur

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, halda úti vefriti sem ber nafnið Pólitík. Þar er að finna greinar um ýmis málefni eins og gengur og gerist hjá ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka. Einn af ritstjórnarmeðlimum Pólitíkur er Hinrik Már Ásgeirsson. Áður hef ég kallað skoðanir hans sérkennilegar á þessum vettvangi, nú ætla ég að ganga skrefinu lengra og segja þær stórhættulegar. Máli mínu til stuðnings vil ég nefna tvö dæmi.

Föstudaginn 4. maí birtist ristjórnargrein eftir Hinrik á Pólitík sem bar titilinn „Verðmyndun í sjávarútvegi“. Var þar að finna hugleiðingar hans um kröfur sjómanna um að leiðrétta þann mun sem er á markaðsverði á fiski annars vegar og skiptaverði til sjómanna hins vegar. Höfundur þeirrar greinar hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að hafa þær skoðanir sem hann setur þar fram (hins vegar er umhugsunarvert að vefrit ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar hefur birt 3 greinar um sjómannaverkfallið, allar eftir Hinrik, allar styðja málstað útvegsmanna á kostnað sjómanna). Það sem er hins vegar hættulegt við hugsanagang Hinriks er eftirfarandi setning: „Ekki er víst að forsvarsmenn sjómanna geri sér grein fyrir þessum skrýtnu lögmálum markaðarins.“ Hinrik reynir nefnilega að færa rök fyrir því að markaðurinn eigi ekki við í þessu tilfelli.

Það út af fyrir sig er saga til næsta bæjar, enda hafa Ungir jafnaðarmenn verið ötulir talsmenn markaðsins hvar sem honum er við komið. Hrokinn sem felst í því að ætla sjómenn svo skyni skroppna að þeir geri sér ekki grein fyrir afleiðingum tillagna sinna er hins vegar stórhættulegur. Í honum felst sú skoðun að sjómenn séu nytsamir sakleysingjar sem ekki átta sig á raunveruleika lífsins. Krafa þeirra sé að sumu leyti ágæt, en greyin hafi ekki hugsað hana til enda. Það, að ætla að jafnstór launþegasamtök og Sjómannafélag Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið búi ekki yfir nægilegri hagfræðiþekkingu til að gera sér grein fyrir afleiðingum tillagna sinna, er í besta falli fáránlegt, í versta falli stórhættulegt. Hér eimir nefnilega eftir af hinum gamla yfirstéttarhroka atvinnurekenda, en viðkvæðið þar var löngum að launþegar skildu ekki efnahagslífið og í raun væri það þeim í hag að falla frá kröfum sínum og taka upp sjónarmið atvinnurekenda.

Hitt dæmið sem sýnir varhugaverðan hugsanagang birtist í ritstjórnargrein Pólitíkur þann 8. maí undir heitinu „Bill Gates ákveður ekki mannréttindi“. Þar er að finna föðurlegar ábendingar Hinriks til þeirra sem mótmæla ofurvaldi alþjóðlegra stórfyrirtækja sem reka verksmiðjur í löndum þriðja heimsins. Hinrik virðist raunar álíta að kjarni mótmælanna sé sá að launin séu svo lág í þriðja heiminum, en oftar en ekki er verið að mótmæla barnaþrælkun, bágri vinnuaðstöðu og miklu vinnuálagi sem jaðrar við þrældóm, svo dæmi séu tekin. Hinrik telur hins vegar mótmæli þessi á misskilningi byggð, það séu ekki forsvarsmenn NIKE og Bill Gates sem ákveði mannréttindi í þriðja heiminum. Þeir reyni aðeins að „að græða sem mest fyrir sem lægstan tilkostnað“.

Hér hefur Hinrik hitt naglann á höfuðið. Það er einmitt sú staðreynd að fyrirtæki reyni „að græða sem mest“ með sem minnstum tilkostnaði og víli þannig ekki fyrir sér að stuðla að mannréttindabrotum sem hefur aðallega orsakað mótmæli gegn alþjóðavæðingunni. Því að þó Bill Gates ákveði ekki löggjöf þriðja heims ríkja þá stuðlar hann að því að halda henni óbreyttri með því að færa sín viðskipti þangað. Hvers vegna að hækka laun, bæta aðbúnað verkafólks, setja börn í skóla í stað vinnu ef alþjóðleg fyrirtæki krefjast þess ekki, heldur dæla milljörðum dollara inn í efnahagslífið? Það, hvernig stór fyrirtæki hafa beint viðskiptum sínum til landa þar sem mannréttindabrot viðgangast, eflir stjórnvöld viðkomandi landa og hamlar því að aðstæður breytist.

Minnstur tilkostnaður við framleiðslu vöru er ókeypis vinnuafl. Samkvæmt hugmyndum Hinriks er í fullkomnu lagi að reka verksmiðjur í þriðja heiminum með ókeypis vinnuafli (þrælum, oftar en ekki barnungum) vegna þess að það er á ábyrgð stjórnvalda viðkomandi ríkja en ekki eigenda fjármagnsins, stórfyrirtækjanna. Þessi hugsun þvær hendur alþjóðlegra peningamanna af afleiðingum fjárfestinga sinna og þeir geta lokað augunum fyrir slæmum aðbúnaði í verksmiðjum sínum. Slíkur hugsanagangur er því stórhættulegur og ætti sá sem mælir fyrir honum ekki að skreyta sig með nafngiftinni jafnaðarmaður.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.