Óskiljanleg minnisglöp

Einhvern tímann var haft á orði að byltingin æti alltaf börnin sín. Nú, í kjölfar þeirrar umræðu sem tröllreið fjölmiðlum vegna baráttudags verkalýðsins, verður ekki annað séð en að börnin séu farin að gæða sér á byltingunni. Hver fjölmiðillinn á fætur öðrum hefur keppst við að fá leika og lærða til að tjá sig um gildi dagsins fyrir nútímasamfélag. Upplagið er yfirleitt eitthvað á þá leið að dagurinn hafi misst gildi sitt og skipti engu fyrir nútímafólk. Síðan hafa gestir fjölmiðlamannanna haft mismunandi skoðanir á þessum fullyrðingum. Hvergi var þessi skoðun um fánýti dagsins meira áberandi en í pistli Egils Helgasonar á Silfri Egils nýlega undir titlinum: „Óskiljanlegur hátíðisdagur“.

Egill fór þar mörgum orðum um það hversu mjög dagurinn væri búinn að missa gildi sitt. Helst var á honum að skilja að afnema bæri 1. maí, líklega þá til þess að koma á fót 31. apríl. Agli þykir dagurinn ekki standa fyrir mikið lengur. Alls kyns hópar nýti sér árlega kröfugöngu verkalýðsfélaganna og gangi undir merkjum eigin samtaka, með eigin kröfur. Alls kyns „bjánagangur“ fylgir deginum að mati Egils; leikarar sýna, börn heimta sælgæti og þar fram eftir götunum. Það sem fyrst og fremst fer þó í taugarnar á fjölmiðlamanninum er að engin alvara er í þessu lengur, engar kröfur sem vit er í og það sem honum þykir þó allra verst; engir veðurbarðir verkalýðsforingjar með svip kreppunnar í rúnum ristum andlitum sínum.

Hér er að finna kjarna þeirrar gagnrýni sem samkomur á 1. maí hafa orðið fyrir að undanförnu. Fólki finnst enginn tilgangur með kröfugöngum lengur, það hafa allir það svo gott að við krefjumst einskis. Egill gengur svo langt að vitna í Fukuyama sem segir að „þegar fólk hefur ekki yfir neinu að kvarta lengur, þá er hætt við að það fari út á göturnar og reyni að gera byltingu út úr tómum leiðindum“. Nútímafólk hefur það svo fínt að hinn alþjóðlegi baráttudagur verkalýðsins snertir það ekki á nokkurn máta.

Ef eitthvað er dæmi um firringu nútímamannsins og sjálfumgleði þá er það þessi skoðun. Grunnurinn að velferðarþjóðfélagi nútímans var lagður af verkalýð síðustu aldar. Með þrotlausum átökum við fjármagnseigendur, átökum sem kostaði fólk oftar en ekki vinnuna og aleiguna þar með, átökum sem snerust upphaflega um grundvallarréttindi eins og hvíldartíma, félagafrelsi, samningsfrelsi o.fl., með þessum átökum og fórnfýsi lagði verkalýðsstéttin grunninn að nútímasamfélagi. Heilbrigðis- og menntakerfið, félagsleg réttindi, rétturinn til að hafa eitthvað um eigin laun að segja, allt er þetta árangur þrotlausrar vinnu verkalýðsins og hreyfingar hans.

En nútímamaðurinn hefur engan áhuga á slíkri forneskju. Honum líður vel í hlutabréfavæddum heimi sínum og hefur engum skyldum að gegna til að minnast fórna genginna kynslóða. Þó svo að 1. maí væri ekki annað en dagur þar sem við minntumst sigra verkalýðsins og viðurkenndum það hvernig við njótum góðs af þeim þá væri hann nauðsynlegur. Það er mönnum nefnilega ætíð hollt að vita að réttindi sem þykja sjálfsögð í dag kostuðu blóð, svita og tár verkalýðsins. En 1. maí er engin minningarhátíð. Hann er baráttudagur, vegna þess að barátta launafólks gegn fjármagnseigendum heldur sífellt áfram. Og þó svo að ýmsir hópar lífgi upp á samkomur með karnivalstemmningu rýrir það ekki raunverulegt gildi dagsins. Firring nútímamannsins er það eina sem gæti gert það.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.