Verkfallsrétturinn – nauðsynlegt baráttutæki

Undanfarin ár hefur æ meira borið á gagnrýni á verkfallsréttinn. Sú skoðun hefur heyrst að verkföll séu úrelt og átök á vinnumarkaði eigi að heyra til fortíðinni. Þessarar skoðunar hefur gætt hvað mest í röðum frjálshyggjumanna, en á síðustu árum hafa æ fleiri tekið í sama streng. Umræða af þessu tagi fer hátt nú um mundir í miðju sjómannaverkfalli og gerði það einnig þegar allt leit út fyrir verkfall háskólakennara. Gagnrýna ýmsir neikvæðar afleiðingar verkfalla, þ.e. hversu víðtæk áhrif þau hafa á hagi almennings. Þess vegna vilja ýmsir afnema verkfallsréttinn.

Þetta er að ýmsu leyti hin fegursta draumsýn, en í hana vantar þó aðalatriðið, þ.e.a.s. hvað eigi að taka við af verkfallsréttinum. Hvað eiga þeir launþegar að gera sem eru óánægðir með laun sín ef viðsemjendur þeirra neita að taka tillit til krafna þeirra? Eiga þeir að segja starfi sínu lausu í stórum stíl, eða bíta á jaxlinn og halda áfram að vinna fyrir ónæg laun að eigin mati? Varla leggur nokkur það til, því óánægt starsfólk skilar ekki jafngóðri vinnu af sér og ánægt.

Staðreyndin er sú að samningar eru ávallt besta lausnin í deilum á milli tveggja aðila. Verkfallsvopnið hefur verið kallað ofbeldistæki og má það að sumu leyti til sanns vegar færa. Með því að beita því er launafólk að knýja á um úrbætur sinna mála. En á sama hátt geta atvinnurekendur beitt "ofbeldi" ef svo mætti kalla með því að neita algjörlega að verða við kröfum launafólks. Samningaleiðin er því alltaf farsælust en það segir sig sjálft að þær aðstæður geta komið upp að til annarra aðgerða þarf að grípa. Nægir að líta til baráttu lögreglumanna sem búa ekki yfir verkfallsrétti. Þar ríkir bullandi óánægja með kaup og kjör, samningar hafa verið lausir síðan í nóvember og lögreglumenn hafa lítið svigrúm til að berjast fyrir kröfum sínum.

Launafólk hér á landi hefur ólíkt meiri réttindi í dag en það hafði fyrir nokkrum áratugum. Atvinnuöryggið er meira, félagsleg réttindi fyrir hendi og launafólk getur samið um laun sín, réttindi og skyldur beint við atvinnurekendur. Verkalýðshreyfingin hefur náð þessu fram með þrotlausu starfi sínu á síðustu öld. Til þessa þurfti mörg verkföll sem öll höfðu áhrif á samfélagið á þeim tíma sem þau stóðu. Mörg þeirra höfðu hins vegar varanlegri áhrif og að því búum við í dag.

Ekki má gleyma því að marga þarf til að atvinnulífið gangi sinn gang. Allt of oft er látið eins og eigendur atvinnutækjanna eigi allan heiðurinn af því að hjól samfélagsins snúist, en eigendur vinnuaflsins séu þiggjendur í því efni. Þessi hugsun er rótgróin og þarf ekki að líta lengra en til hugtakanna "launþegi" og "vinnuveitandi" til að sjá dæmi þess. Hér er hins vegar um alvarlega hugsanavillu að ræða. Atvinnulífið er ein heild og framlag allra nauðsynlegt í því efni. Þannig hagnast allir (eða eiga að gera það) á framlagi allra.

Slík hugsun hefur að mestu horfið úr íslenskri þjóðmálaumræðu. Í sjávarútveginum eru það iðulega eigendur atvinnutækjanna sem leggja línurnar og þykir það sjálfsagt vegna stöðu þeirra. Á meðan þessi hugsun er ríkjandi er verkfallsrétturinn nauðsynlegt vopn í baráttu launþega.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.