Flokkur á hægri leið til heljar

Fáir stjórnmálaflokkar í sögunni hafa verið á jafnmiklum villigötum og Framsóknarflokkurinn er nú um þessar mundir. Hann er nú búinn að sitja í helmingaskiptaríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í 6 ár og hver skoðanakönnunin á fætur annarri hefur sýnt að kjósendur yfirgefa flokkinn í stórum stíl. Í því efni var ekki úr háum söðli að falla, en fylgi Framsóknarflokksins í síðustu þingkosningum var ekki til að hrópa húrra fyrir. Forystumenn flokksins eru hins vegar í stöðugri afneitun. Enginn þeirra fæst til þess að viðurkenna að hér sé alvarlegt ástand á ferð. Viðkvæðið er ávallt á þá leið að allt sé í himnalagi og brátt munu kjósendur átta sig á því hve stórkostlegur flokkur Framsóknarflokkurinn sé.

Þetta hefur áður verið bent á hér á Múrnum og er ekki vanþörf á því að reyna að hrista Framsóknarmenn út úr því draumalandi sem þeir hafa dvalið í um langa hríð. Það virðist hins vegar engar vonir vera á því að þeir vakni af þeim Þyrnirósarsvefni í bráð. Heilbrigð skynsemi segir manni að þegar flokkur hríðtapar fylgi sínu þá er eitthvað að. Stefna flokksins, forystulið, stjórnarsamstarf – á einhverju af þessu eða öllu hlýtur að vera brotalöm.

Framsóknarflokkurinn hefur í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar sveigt mjög til hægri. Fáir hafa verið duglegri við að benda á þá staðreynd en fyrrverandi leiðtogi flokksins, Steingrímur Hermannsson. Saga flokksins sýnir hins vegar að það sem haldið hefur flokknum jafnstórum um jafnlanga hríð og raun ber vitni, er sú staðreynd að hann er á miðjunni og hefur spilað ýmist til hægri eða vinstri. Halldór Ásgrímsson hefur hins vegar sveigt flokkinn frá hefðbundinni framsóknarmennsku, inn á línu hægrisinnaðra Evrópukrata með litlum árangri. Kjósendur Framsóknarflokksins snúa í stórum stíl baki við flokknum vegna þessarar stefnubreytingar. Kúrsinn er hins vegar fastur í brú Framsóknarfleytunnar.

Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins kom þetta berlega í ljós. Þar var engin tilraun gerð til þess að sveigja flokkinn lengra til vinstri, nær hefðbundnum gildum hans. Í stað þess valdi Halldór Ásgrímsson nýjan andstæðing flokksins, þann flokk sem lengst er til vinstri í hinu pólitíska litrófi; Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Á formanninum var að heyra að samstarf við þann flokk kæmi ekki til greina. Ef Framsóknarflokkurinn stefnir ekki í stjórnarandstöðu eftir næstu kosningar þýðir þetta einfaldlega það að hann ætlar í áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hver hugsandi maður sér að ekki eru aðrir kostir í boði. Framsóknarflokkurinn og Samfylking ná ekki meirihluta saman, ekki einu sinni með fulltingi Frjálslynda flokksins.

Þessu virðist ritstjóri Maddömunnar, veftímarits Sambands ungra framsóknarmanna, hins vegar ekki gera sér grein fyrir. Í pistli sínum þann 24. þessa mánaðar, lætur hann eins og ræða Halldórs Ásgrímssonar á flokksþinginu hafi ekki verið flutt, eða að formaðurinn hafi bara verið að grínast. Yfirlýsingar formannsins í ræðunni eru einfaldlega ósk um áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, nema sá fáheyrði atburður sé í uppsiglingu í sögu Framsóknarflokksins að flokkurinn stefni í stjórnaraðstöðu. Það væri þá eitthvað nýtt.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.