Morgunblaðið skerðir atvinnufrelsi blaðbera

Frjálshyggjupostular þessa lands hafa hingað til átt hauk í horni þar sem Morgunblaðið er. Blaðið hefur talað mjög fyrir auknu frelsi á hinum ýmsu sviðum mannlífsins, ekki síst í atvinnulífinu. Frelsi atvinnulífsins er talið forsenda hagvaxtar, framfara og gott ef ekki undirsstaða blómlegs mannlífs. Nýlega kom þó í ljós að ekki er um frelsi á öllum stigum atvinnulífsins að ræða. Frelsi blaðbera Morgunblaðsins þykir ekki ýkja mikilvægt á þeim bæ og því hefur stærsta fyrirtækið á þeim fákeppnismarkaði sem blaðaútgáfa er, heft frelsi blaðberanna.

Þegar undirritaður stundaði hið göfuga starf blaðberans var um auðugri garð að gresja í blaðaútgáfu. Þjóðviljinn, Tíminn, Alþýðublaðið, DV og Mogginn fylltu töskur blaðbera um allt land. Þá þótti ekki tiltökumál að ferð blaðberans um bæinn væri nýtt til fullnustu, og jafnvel þótti í því viss hagræðing. Því ægði flokksmálgögnunum saman í tösku blaðberanna og gat oft reynst örðugt að muna hver átti að fá Moggann og hver Þjóðviljann, en ruglingur á því var ekki vinsæll.

Líklega hefur þetta eflt lýðræðisvitund barnanna. Þau hafa gert sér grein fyrir því að þrátt fyrir ólíkar skoðanir blaðanna og hnífilyrði þeirra í millum sátu þau við sama borð í blaðatöskunum. Það má segja að þar hafi ríkt pólitískt „status quo“. En nú er friðurinn úti. Tilskipun Morgunblaðsins þess efnis að blaðberar þeirra eigi að bera út Moggann og ekkert nema Moggann svo hjálpi þeim Árvakur sá til þess.

Þessi frelsisskerðing er ekki óþekkt í atvinnulífinu. Í líftækniiðnaðinum er skýrt tekið fram að ekki megi vinna fyrir keppinautinn og sömu sögu er að segja af hátækniiðnaðinum. Þar óttast menn ekkert meira en að starfsmenn þeirra vinni hörðum höndum að uppfinningum ýmiss konar þar til þeir standi upp einn daginn og gangi glaðbeittir til keppinautarins með afrakstur vinnu sinnar og leyndarmál fyrirtækisins. Blaðberar hafa hingað til ekki verið settir á þann bás.

Það verður fróðlegt að sjá hvað helstu talsmenn frjálshyggjunnar segja um þetta mál. Vart verður þess langt að bíða að Vef-Þjóðviljinn, Frelsi, Deiglan, Pétur Blöndal o.fl., taki undir gagnrýni Múrsins á þessa siðlausu frelsissviptingu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.