Launhelgar bókmenntanna VI: Samfélagsafurð

Eins og alþjóð veit hefur Múrinn undanfarna mánuði staðið að umfangsmikilli leit að raunverulegum höfundi bókanna um Frank og Jóa. Ýmislegt hefur verið upplýst í leit þessari, frumheimildir fundust, vakin var athygli á listaþýðingum og tengsl þeirra bræðra við hina sírannsakandi Nancy Drew voru viðruð. Eftir því sem undirritaður hefur pælt í gegnum hvern doðrantinn af öðrum, legið í skjalasöfnum víða um heim og rætt við fjölda fólks hefur fræjum efasemdanna verið sáð í huga hans. Nú er svo komið að þau hafa náð að spíra og upp er vaxinn mikill efaskógur. Hver er tilgangurinn með leitinni? Upp var lagt vegna þess að kvittur komst á kreik þess efnis að hinn heimsþekkti Franklin W. Dixon væri í raun dulnefni og hinn mikli siðapostuli því ekki til. Við það hrundi heimsmynd margra og því var lagt upp í leit að hinu heilaga grali.

En hver er sannleikurinn í þessu máli? Hvað er höfundur? Er niðurröðun orða í ákveðinni röð á blað virkilega verk einhvers eins manns? Hver eru tengslin á milli texta og höfundar, eru þau nokkur? Ábendingar lærðra manna á síðustu dögum hafa fullvissað undirritaðan (þó í raun sé efanum undirorpið hver er höfundur þessa pistils) um að slíkt er hjóm eitt. Textar eiga sér enga höfunda og það væri alrangt að segja að bækurnar um Frank og Jóa væru höfundarverk. Ef draga á þau stórvirki í dilka og setja á þau merkimiða (sem í sjálfu sér er rangt) verður að segja að bókaflokkurinn er samfélagsafurð. Bækurnar um Frank og Jóa eru, eins og allir aðrir textar, gerðir úr fjölda skrifa sem spretta úr mörgum menningarheimum og ganga í gagnkvæmt samband í samræðu, skopstælingu og ágreiningi. Því er miklu nær að kanna það samfélag sem bækurnar spretta úr en að einblína á tilgangslausar spurningar eins og hver sé höfundurinn. (Þó er þetta mjög ófullkomin aðferð og því marki brennd að hún lítur framhjá sjálfstæði textans og bindur hann við klafa þó annar sé en höfundurinn).

Bandarískt samfélag gat af sér ritröðina um Frank og Jóa. Eins og áður hefur verið bent á eru gildismat og siðferði þess samfélags boðuð í hvívetna í bókunum. Í u.þ.b. 8 áratugi hafa sömu gildi verið boðuð, sama samfélagsgerð, sama kynhlutverk og sama siðferði. Hlutverk konunnar er jafnbundið heimilinu á níunda áratug 20. aldar og það var á þeim þriðja. Í þessu liggja megináhrif bókanna. Í hverfulum heimi geta lesendur leitað öryggis og festu í faðmi þeirra. Þannig hafa þær virkað sem kjölfesta á mestu óróatímum sögunnar þegar hefðbundnum gildum var fleygt fyrir róða og ný tekin upp.

Bækurnar um Frank og Jóa eru þannig fyrst og fremst afurð samfélags í upplausn sem reynir á örvæntingarfullan hátt að halda í gömlu gildin. (Þetta hefur raunar haft áhrif á þýðendur, t.d. hér heima, en algengt er gamla orðið vagn í stað nýyrðisins bíll). Þeim er fyrst og fremt beint að unglingum og börnum sem eru að nálgast unglingsaldurinn, m.ö.o. börnum á þeim aldri þegar rót kemst á lífið og tilveruna. Það væri því alrangt að ætla sér að skoða höfund bókanna um Frank og Jóa. Samfélagið í heild sinni er höfundur þeirra. Vestrænt samfélag með sitt bandaríska úthverfagildismat gat af sér hin stórkostlegu listaverk.

kóp?

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.