Ungir jafnaðarmenn ganga erinda útvegsmanna

Pólitík er vefrit sem haldið er úti af ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar og er tæki hennar til þess að koma skoðunum sínum á þjóðmálum á framfæri. Undanfarið hefur þar verið lýst sérkennilegri afstöðu til sjómanna sem aðstandendur ritsins finna flest til foráttu. Þannig birtist ritstjórnargrein föstudaginn 20. apríl um kröfur sjómanna. Athygli vekur að höfundur greinarinnar, Hinrik Már Ásgeirsson, tekur algjörlega svari útvegsmanna og greinin gæti þess vegna verið skrifuð á skrifstofu LÍÚ.

Hinrik reynir að mála deilu sjómanna og útvegsmanna þeim litum að hún snúist fyrst og fremst um mönnunarmál. Það er mikil firra, en útvegsmenn hafa reynt að halda þessu fram til að draga athyglina frá aðalatriðinu, deilunum um verðmyndun. Mönnunarmálin eru vissulega hluti deilunnar, en engan veginn aðalatriðið. Samkvæmt ritstjórnargreininni er deilan hins vegar í hnút vegna krafna sjómanna og víst að "á meðan jafn ósanngjarnar kröfur koma frá sjómönnum þá verður ekki samið." Deilan um mönnun snýst um þá kröfu sjómanna að þegar fækkað er í áhöfn skipa skiptist sú upphæð sem sparast við launakostnað niður á þá sem eftir eru. Árið 1976 var skiptahlutfall lækkað vegna tæknibreytinga og í kjölfarið á því varð talsverð fækkun í áhöfn. Sjómenn halda því fram að raunfækkun í áhöfn sem til hafi komið vegna tækninýjunga hafi að mestu orðið fyrir árið 1980 og útgerðarmenn hafi þegar hagnast á fækkuninni, en vilji þó enn á ný lækka skiptahlutfallið. Þessara sjónarmiða er hvergi getið á Pólitík.is enda hentar það ekki þeim sem vilja koma höggi á sjómenn.

Síðastliðin 10 ár hafa kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna öðru fremur snúist um verðmyndunarmál og enn er engin lausn fundin á þeim málum. Árið 1991 hófust þær deilur þegar útvegsmenn létu sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Þegar verkfall sjómanna var stöðvað með lögum þann 14. janúar árið 1994 var stofnuð samstarfsnefnd deiluaðila sem átti að athuga verðmyndunarmál. Með skipun nefndarinnar var sú staðreynd viðurkennd að verðmyndunarmálin væru helsti ásteytingarsteinninn í deilunum. Nefndin hafði hins vegar engin tæki til að bregðast við vandanum. Ári síðar voru sett lög um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna sem einnig átti að taka á verðmyndunarmálum. Þremur árum síðar, árið 1998 var verðmyndunarvandinn enn á ný viðurkenndur sem aðalvandi deilunnar og Verðlagsstofu skiptaverðs komið á fót.

Þegar samningar sjómanna runnu út árið 2000 lýsti Verðlagsstofan því yfir að munur á aflaverðmæti í beinum viðskiptum og markaðsverði færi vaxandi og Þjóðhagsstofnun staðfesti það. Nú er svo komið að munurinn á markaðsverði og verði í beinum viðskiptum á slægðum þorski hefur aukist um 25% síðan 1996. Þessu hafa sjómenn viljað taka á, enda lækkar þetta heildarverðmæti aflans og þá um leið laun þeirra. Útgerðarmenn hafa hins vegar þráast við, enda sitja þeir oftar en ekki báðum megin borðsins, þ.e.a.s. eru bæði seljendur og kaupendur aflans. Eftir að útgerðarmenn lögðu fram tilboð síðastliðinn föstudag þar sem lagt var til að þessi munur yrði leiðréttur um 6% gengu sjómenn af fundi og ríkissáttarsemjari sleit viðræðum.

Um þetta snúast deilur sjómanna og útgerðarmanna fyrst og fremst og hafa gert síðustu 10 árin. Útgerðarmenn reyna hins vegar að drepa athygli fjölmiðla og almennings á dreif með því að leggja ofuráherslu á mönnunarmálin. Við það njóta þeir aðstoðar ritstjórnar vefrits ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, Pólitíkur. Sjónarmið sjómanna komast ekki að á síðum málgagns Ungra jafnaðarmanna, þar eiga útvegsmenn hins vegar hauk í horni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.