Ártíðir merkismanna XIX: Jón Jónsson

Íslendingar hafa ekki verið þekktir fyrir sjórán og eru þeir yfirleitt víðsfjarri í sögnum af Morgan, Bláskeggi og fleiri slíkum köppum. Þó hafa þeir ekki látið þessa starfsgrein algjörlega afskiptalausa. Víkingarnir áttu það til að ráðast á verðmæt kaupskip þó að strandhögg hafi verið meira eftir þeirra höfði. Íslendingar eiga hins vegar a.m.k. einn nafnkunnan sjóræningja, sem heitir því þjóðlega nafni Jón Jónsson, og í dag eru einmitt liðin 350 ár og átta dögum betur síðan hann lést.

Jón var einn þeirra er herleiddur var af sjóræningjum í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu. Hann var sonur Jóns Þorsteinssonar prests að Kirkjubæ í Eyjum og var einungis 15 ára gamall þegar hann var numinn á brott. Hann þótti hins vegar mjög harðger og varð fljótt dugandi sjómaður. Það varð honum mjög til framdráttar og hans beið frami í Alsír sem erfitt er að ímynda sér að hefði staðið honum til boða ef ekki hefði komið til ránsins.

Jón varð skipstjóri og herforingi og fór víða um höf og stundaði sjórán. Þótti hann rækja skyldur sínar vel og sagan segir að eitt sinn hafi hann komið úr leiðangri með 20 skip sem hann hafði hertekið. Jón var hins vegar fleiri kostum búinn og kunnátta hans í skáktafli var alræmd. Sú kunnátta átti eftir að koma honum til góða. Sagan segir að hann hafi beðið ósigur í orrustu á Möltu og verið handtekinn. Lá nú ekki annað fyrir honum en að brennast á báli fyrir glæpi sína. Kom þá til skjalanna Spánverji nokkur sem hafði mikið dálæti á skák. Hann keypti Jón frá dauða til þess að geta notið snilli hans í skáktaflinu.

Jón komst á endanum til Kaupmannahafnar og sættist við guð og menn. Hann stóð opinberar skriftir í Hólmakirkju og þáði aflausn af Kaspari Brochmann Sjálandsbiskupi. Fortíð Jóns varð honum þó næstum að falli, því sagan segir að biskup hafi heimtað líflát Jóns eftir að upp komst að hann hafði látið umskera sig. Til þess kom þó ekki og er mælt að voldugur embættismaður hafi haldið hlífiskildi yfir Jóni. Ekki er vitað hvort embættismaðurinn var með skákkunnáttu Jóns í huga, en honum var í það minnsta borgið frá bráðum bana og fékk hann aflausn synda sinna. Jón lifði hins vegar ekki lengi eftir þetta því hann lést í Kaupmannahöfn þann 29. mars 1651, 39 ára að aldri.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.