Viðskiptaöfgar í Washington

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum á síðasta ári var hver sótraftur á sjó dreginn hér á landi til að lýsa skoðun sinni á frambjóðendunum, stefnu þeirra og því hvernig málin myndu þróast eftir því hvor hefði sigur. Þessi umræða varð oft og tíðum ansi heiftúðug, t.d. hófust ritdeilur um gáfnafar George W. Bush og fleira mætti nefna. Oft og tíðum fékk maður á tilfinninguna að frammistaða íslenskra stuðningsmanna frambjóðendanna skipti sköpum fyrir úrslit kosninganna. Andrés Magnússon, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og fleiri stuðningsmenn Bush höfðu betur og tryggðu sínum manni sigurinn á endasprettinum.

Iðulega heyrðust heimsendaspár úr þeim herbúðum vegna mögulegs sigurs Al Gore. Einkum var Hannes Hólmsteinn iðinn við að útmála það hve ástandið yrði skelfilegt ef umhverfisöfgamaður eins og Gore yrði kjörinn valdamesti maður heims. Af orðum hans mátti oft skilja að íslenskur efnahagur yrði rústir einar ef Gore kæmist til valda. Öfgamaðurinn Gore myndi hefja baráttu gegn fiskveiðum og gera fleira það sem myndi valda Íslendingum óbætanlegu tjóni. Varnaðarorðin hrinu og Bush hafði sigur og getum við Íslendingar því sótt sjóinn í friði og ró enn um sinn. Nýlega komu hins vegar miður skemmtilegar afleiðingar þess að Bush var kjörinn forseti í ljós. Hann ætlar sér ekki að staðfesta Kyoto-bókunina og neitar því fyrir hönd Bandaríkjanna að taka ábyrgð á sameiginlegum vandamálum heimsins.

Bandaríkin munu þannig skorast undan ábyrgð sem hvílir ríkulega á þeirra herðum. U.þ.b. þriðjungur gróðurhúsalofttegunda sem losaðar eru út í andrúmsloftið kemur frá Bandaríkjunum. Þar eru orkuver úr sér gengin og úrbóta víða þörf. Hins vegar hefur Bush komist að þeirri niðurstöðu að það henti ekki viðskiptahagsmunum Bandaríkjanna að undirrita Kyoto-bókunina. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, meginhugsunin á bak við bókunina er sú að iðnríkin taki ábyrgð á gerðum sínum í fortíðinni og skerði eigin hagsmuni með hag heildarinnar í huga. Þróunarríkin líða hins vegar á margan hátt fyrir stefnu vesturvelda og því var samþykkt að þau fengju að menga meira en iðnríkin til að vega upp á móti því. Bush ætlar hins vegar að fara algjörlega öfuga leið; hann ætlar að skylda þróunarríkin til að fara eftir ákveðnum viðmiðunum.

Ekki er örgrannt um að enduróminn af málflutningi Bush megi heyra frá ráðamönnum hér á landi. Ríkisstjórn Íslands hefur þverskallast við að staðfesta Kyoto-bókunina, vegna efnahagslegra hagsmuna. Þess er varla langt að bíða að Siv, Halldór og Davíð fylki liði með Bush í því að taka hart á loftslagsmálum og láti þróunarríkin ekki komast upp með neitt múður. Þessi afstaða er hins vegar algjörlega ábyrgðarlaus. Stundarhagsmunir eru teknir fram yfir langtímahagsmuni. Ríkustu löndin eru þannig ekki tilbúin til þess að minnka gróða sinn með sameiginlega hagsmuni mannkynsins í huga. Frekar vill Bush berja á þróunarríkjunum, væntanlega í því augnamiði að veita síðan meiri þróunaraðstoð til þeirra og gera þau þannig háðari vestrænum ríkjum.

Íslenskum stuðningsmönnum Bush var tíðrætt um umhverfisöfgamanninn Al Gore. Sá stimpill var í besta falli hjákátlegur, ferill Gores sýnir það glöggt að þar fer ekki öfgamaður í umhverfismálum, því er nú verr og miður (og raunar er erfitt að sjá að Al Gore sé öfgafullur í nokkru máli). Bush hefur hins vegar sýnt að hann er hinn eini sanni öfgamaður; mann sem er tilbúinn til að láta viðskiptahagsmuni ofar öllu, jafnvel sameiginlegri velferð mannkynsins. Viðskiptaöfgamaðurinn Bush á hins vegar hauk í horni þar sem ríkisstjórn Íslands fer. Raunin verður líklega sú að Íslendingar fylgi Bandaríkjamönnum í þessu máli líkt og öðrum þeim málum sem snerta utanríkismál.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.