Hryðjuverk og hefndaraðgerðir

Ein af þeim aðferðum sem nasistar beittu til að brjóta niður andspyrnu í hernumdum löndum var að beita hörðum refsingum. Þannig brugðust þeir af mikilli hörku við öllum árásum á þýska hermenn. Oftar en ekki náðist ekki til þeirra sem höfðu staðið að árásunum á Þjóðverjanna og þá var gripið til einhverra nærstaddra af handahófi. Raunar var það oft og tíðum gert þrátt fyrir að tilræðismenn næðust. Ætlun Þjóðverja var að fæla andspyrnumenn frá árásum með þeim skilaboðum að það mundi bitna margfalt á saklausum borgurum. Þegar andspyrnuhreyfingunni tókst að myrða þýskan offíser þá var gripið til sérstaklega harkalegra aðgerða. Stundum voru fjölmargir saklausir borgarar úr nálægum hverfum, þorpum eða héruðum skotnir, stundum hengdir.

Raunar voru það ekki nasistar sem fundu upp þessa aðferð við að veikja baráttuþrek hernumdra þjóða, hún er ævagömul og hefur sennilega fylgt mannkyninu um aldaraðir. Þetta var t.d. alþekkt í öllum þeim fjölda uppreisna sem áttu sér stað í Mexíkó á síðustu öld, Tyrkir beittu þessu á Krít o.s.frv. Þjóðverjar nýttu sér þetta með „góðum“ árangri. Stuðningur við andspyrnuhreyfingar í hernumdum löndum varð minni en ella. Gyðingar voru meðal þeirra sem urðu fyrir bráðinu á þessari mannvonskulegu aðferð nasista. Þetta var ekki óalgengt í gettóinu í Varsjá og fleiri hverfum gyðinga, þ.e.a.s. áður en nasistar hertu enn róðurinn gegn gyðingum og hófu helförina.

Nú bregður hins vegar svo við að afkomendur fórnarlamba nasista og frændur þeirra, guðs útvalda þjóð, hefur leitað í smiðju nasista eftir meðulum til að kúga hernumdar þjóðir. Daglega heyrum við fréttir af loftárásum Ísraela á hverfi Palestínumanna til þess að hefna fyrir árásir hryðjuverkamanna. Nú hefur enn frekari harka færst í leikinn og yfirvöld í Ísrael hafa hótað því að hefna allra árása Palestínumanna grimmilega með loftárásum á íbúðabyggðir þeirra. Palestínumenn hafa í staðinn hótað því að gera enn frekari árásir.

Aðgerðum Palestínumanna má gróflega skipta í tvennt. Annars vegar eru það fjöldamótmæli þar sem leikar æsast með tilheyrandi grjótkasti o.fl. þar sem ísraelskum hermönnum er að mæta. Fórnarlömb þeirra aðgerða eru oftar en ekki Palestínumennirnir sjálfir. Síðan eru það árásir hryðjuverkamanna, oft á tíðum sjálfsmorðsárásir. Þær beinast að hvaða Ísraelum sem er, jafnt hermönnum sem óbreyttum borgurum. Iðulega eru hér á ferð sprengjuárásir á fjölmenn svæði almennra borgara, um borð í strætisvögnum, á markaðstorgum og víðar. Hér eru á ferð ótíndir hryðjuverkamenn sem hljóta fordæmingu heimsbyggðarinnar sem slíkir.

Þessum árásum hafa Ísraelar hins vegar ávallt svarað á sama máta, þ.e. með árásum á óbreytta borgara. Ísraelsher beitir hins vegar ekki heimatilbúnum sprengjum í sjálfsmorðsárásum, heldur nýtísku vígtólum sem vinir hans í Bandaríkjunum hafa útvegað, eða í það minnsta lánað honum fyrir. Þessar árásir eru gerðar á íbúðahverfi og fleiri svæði þar sem óbreyttir borgarar halda til. Endrum og eins hleypur Ísraelsmönnum kapp í kinn og þeir varpa sprengjum á skrifstofur eða heimili Yassirs Arafat, líkt og gerðist nú í vikunni. Þessar árásir heita hins vegar ekki hryðjuverk á máli Ísraelsmanna eða stuðningsmanna þeirra, eða á íslenskum fréttastofum. Hér eru á ferð hefndaraðgerðir, þannig að almenningur fær á tilfinninguna að hér sé um réttmæt viðbrögð við óprúttnum árásum að ræða.

Það væri gaman að vita hvernig Ólafur Sigurðsson fréttamaður hefði sagt frá hefndaraðgerðum nasista gegn pólskum gyðingum, júgóslavnesku eða frönsku andspyrnuhreyfingunni. Eða hvort stjórnvöld í Bandaríkjunum hefðu verið jafnmiklir stuðningsmenn þeirra aðgerða nasista og þeir eru í tilviki Ísraelsmanna nú um stundir. Það hlýtur að flokkast undir kaldhæðni örlaganna að synir og dætur fórnarlamba helfararinnar leiti í smiðju nasista til að kúga hernumdar þjóðir.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.