Davíð þyngir refsingarnar

Sú var tíðin að Davíð Oddsson var fremur nægjusamur í tyftunaraðferðum. Ef menn komust upp á kant við höfðingjann lét hann nægja að koma landsföðurlegur fram á sjónarsviðið og segja "svona gera menn ekki" og hlýddi þá þingheimur allur. Með tímanum hrönnuðust hins vegar upp vísbendingar um að Davíð hefði hent handbók Dr. Spock og væri farinn að taka upp nýjar og áhrifameiri aðferðir gegn ólátabelgjum. Hægt og rólega jókst þungi þeirra aðferða, geistlegir menn misstu stöður vegna smásagnaskrifa, lögspekingar voru ekki endurráðnir vegna gagnrýni á stjórnvöld og fleira í þeim dúr. Nú virðist þessi tilhneiging loks hafa náð sérstöku hástigi – vonandi.

Nú dugar ekki lengur að tyfta einn og einn óþekktarorm, nú eru það heilu stofnanirnar sem fá það óþvegið. Reyndar virðist sú aðferð vera orðin lenska hjá ríkisstjórninni, enda allt á sömu bókina lært þar. Umhverfisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa báðir beitt afbrigðum af þessum aðferðum, með misgóðum árangri þó. En nú hefur Davíð hins vegar stigið fram á sjónarsviðið og sýnt hvernig á að gera þetta. Þjóðhagsstofnun hefur undanfarið verið honum nokkuð óþægur ljár í þúfu, enda menn ósínkir á sannleikann þar á bæ. Það er sama hversu oft Davíð hefur komið í fjölmiðla og tjáð sig um það að Þjóðhagsstofnun sé að oftúlka, vantúlka, mistúlka … þar á bæ láta menn sér ekki segjast og þrjóskast við að reikna rétt.

Eins og gefur að skilja dugar það ekki til lengdar þegar það kemur illa út fyrir forsætisráðherra. Það var líka öllum ljóst að þetta gengi ekki mikið lengur. Davíð var búinn að gefa ýmislegt í skyn sem flestir skildu, nema Þórður Friðjónsson. Á ársfundi Seðlabankans í fyrra sagðist hann vilja endurskoða hlutverk og verkaskiptingu Þjóðhagsstofnunar, Hagstofu og Seðlabanka. Þórður var á þeim fundi en þverskallaðist við að skilja að með þessu átti Davíð aðeins við eitt; að Þjóðhagsstofnun, en hvorki Seðlabanki né Hagstofan þó sömu orð féllu um þær stofnanir, yrði lögð niður. Áfram hélt Þórður og hans fólk að fara eftir leikreglum hagfræðinnar í stað reglumeistarans Davíðs.

Og nú er líka komið að því. Tími Þjóðhagsstofnunar er liðinn, hún þjónar engu hlutverki lengur. Það sér líka hver maður að það er satt og rétt. Stofnanir sem ekki þjóna Davíð þjóna engu hlutverki og ber því að leggja niður. Þjóðhagsstofustjóri þráaðist við að dansa eftir tónlist Davíðs og því þarf að leggja stofnunina niður. Hér er í raun á ferð andstæða þekktrar skáldskaparkenningar sem kallast "hluti fyrir heild", þetta er "heild fyrir hluta". Þjóðhagsstofustjóri hlýðir ekki Davíð og því er stofnunin í heild sinni lögð niður. Og sökin? Sú að gefa upp upplýsingar sem gefa í skyn að ástandið í efnahagsmálum sé kannski ekki alveg eins gott og forsætisráðherra vill hafa það.

Það verður spennandi að sjá hvernig Davíð beitir þessum nýja tyftunarmáta. Verður þjóðkirkjan lögð niður ef Karl Sigurgeirsson lætur ekki af gagnrýni sinni á þá græðgi sem ríkir í góðærinu svokallaða? Og hvað með forsetaembættið? Forsetinn hefur látið nokkur orð falla þess efnis að fátækt sé nokkuð útbreidd hér á landi og stór hópur þjóðarinnar hafi það bara alls ekki nógu gott í góðæri Davíðs. Það er spurning hvort Davíð slær tvær flugur í einu höggi og rýmir Bessastaði fyrir flugvelli. Líklegra er þó að menn sjái að sér og láti þegar í stað af gagnrýni sinni á forsætisráðherrann. Vonandi er því hápunkti refsigleði Davíðs náð, annars eiga menn varla von á góðu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.