Launhelgar bókmenntanna V: Frank og Jói Drew, Nancy Hardy?

Eins og alþjóð veit hefur þó nokkuð áunnist í rannsóknum á uppruna þeirra Franks og Jóa. Heimsóknir í skjalasöfn hér heima og vestra hafa leitt undirritaðan á sporið og er óhætt að segja að miklir leyndardómar hafi verið afhjúpaðir. Hvað er sameiginlegt með Frank og Jóa og Nancy Drew? Nancy Drew-bókaflokkinn þekkja margir. Hin ljóshærða, siðprúða Nancy Drew er bandarísk og líkt og þeir bræður hefur hún sérstakt lag á því að flækja sig í spennandi mál. Nancy Drew bækurnar eru skrifaðar af Carolyn Keene og hafa að vissu leyti sömu stöðu á meðal stúlkna og bækurnar um Frank og Jóa hafa á meðal drengja. Það var því löngum vitað að siðferðilegur skyldleiki væri á milli Nancy og Franks og Jóa, og þá um leið á milli Carolyn Keene og FranklinW. Dixon.

Rannsóknir á uppruna þeirra bræðra hafa hins vegar leitt sláandi upplýsingar í ljós. Ýmislegt bendir til þess að skyldleikinn sé meiri en virðist í fyrstu. Sumir fræðimenn ganga jafnvel svo langt að segja að Franklin W. Dixon og Carolyn Keene sé einn og sami höfundurinn! Þó verður að taka það skýrt fram að þetta eru umdeildar kenningar. Ekki eru allir fræðimenn tilbúnir að ganga svo langt, en flestir hallast að minnsta kosti að því að einhver tengsl hafi verið á milli bókmenntajöfranna tveggja. Það verður að teljast sennilegt vegna hins mikla skyldleika sem með bókaflokkunum er.

Það verður hins vegar að segjast eins og er að hér eru viðkvæmar upplýsingar á ferð. Fyrir mörgum voru bækurnar um Frank og Jóa leiðsögn um fyrirmyndaheim að bandarískum sið. Í þeim heimi lentu siðprúðir, hjartahreinir piltar í alls kyns ævintýrum við hina hversdagslegustu iðju. Hvert smáatriði í daglega lífinu gat haft spennandi ævintýri í för með sér. Á meðan karlpeningurinn leysti úr þessum spennandi gátum var kvenfólkið hins vegar heima við, gerði hreint og bakaði og eldaði til þess að körlunum liði vel þegar heim kæmi.

Frank og Jói eiga báðir vingott við stúlkur, enda miklum kostum prýddir. Frank rennir hýru auga til Köllu Shaw, en Lóla Morton (sem heitir reyndar Lúlla í sumum þýðingum), systir tryggðartröllsins Sidda, á hug Jóa allan. Þær Lóla og Kalla eru skólafélagar þeirra bræðra og augljóslega bíður fátt annað þeirra en að gerast húsmæður, hvor á sínu Hardy-heimilinu (hvenær sem það nú verður, Frank og Jói eru búnir að vera 17 og 18 ára í áratugi!) Hlutverk þeirra eru nákvæmlega sömu lögmálum bundin og hlutverk Geirþrúðar frænku og Frú Hardy, þær eiga að sjá til þess að karlmönnunum í lífi þeirra líði vel. Ekki gilda sömu lögmál um hegðun þeirra stallsystra og þeirra bræðra eins og eftirfarandi setning úr Leyndarmálinu um hvalinn sýnir glögglega: "Jói tók símann: "Halló, Júlla, er þetta ekki nokkuð áliðið fyrir ungar stúlkur að vera enn á fótum?"” Sjálfsagt mál er að Jói sjálfur sé á fótum, enda að leysa erfitt mál, en jafnaldra hans ætti hins vegar að vera komin í rúmið.

Allt þetta rímar illa við hina sjálfstæðu Nancy Drew sem er um margt miklu líkari þeim Frank og Jóa heldur en Lólu Morton og Köllu Shaw. Hún er sjálfstæð, leysir úr sakamálum og hegðar sér um margt á þann hátt sem Geirþrúður Hardy mundi jesúsa sig yfir. Að vísu er Nancy Drew ekki algjörlega laus við föðurlega aðstoð karlmanna, kærasti hennar kemur henni yfirleitt til hjálpar þegar mest á reynir. Það skilur hins vegar himinn og haf þær Lólu Morton og Köllu Shaw annars vegar og Nancy Drew hins vegar.

Þess vegna hafi margir orðið til þess að efast um sannleiksgildi þeirrar kenningar að hér sé um einn og sama höfund að ræða. Geta Frank og Jói Hardy, uppfullir af gamaldags viðhorfum til kynjanna, sprottið fram úr sama penna og Nancy Drew sem gengur gegn mörgum af þeim gildum sem Hardybræður halda í heiðri? Rannsóknir undirritaðs benda til náinna tengsla. Von stendur til þess að á næstunni takist að upplýsa um sannleikann um þau tengsl og þá um leið um höfund bókanna um Frank og Jóa.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.