Óeðlileg afskipti stjórnvalda

Síðastliðinn mánudag setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lög sem frestuðu verkfalli sjómanna. Sjómenn hafa þannig enn einu sinni verið sviptir lögbundnum verkfallsrétti sínum og er varla hægt að segja að sjómannastéttin búi við þau sjálfsögðu mannréttindi sem hann er. Sjómenn hafa verið samningslausir um langa hríð og viðræður á milli þeirra og útvegsmanna hafa staðið lengi. Fyrst eftir að flotinn var á leið í land vegna verkfallsins komst einhver skriður á samninga og viðræður um verðlagsmál voru t.a.m. komnar nokkuð langt á veg. Lagasetning ríkisstjórnarinnar verður hins vegar til þess að hleypa málinu upp, því það er gömul saga og ný að slík afskipti verða til þess að menn þurfa að byrja upp á nýtt í viðræðum. Lengi vel fengust útvegsmenn ekki einu sinni til samninga við sjómenn og það var ekki fyrr en verkfall vofði yfir að viðræður hófust.

Athyglisvert er hversu óhikað forsætisráðherra gengur á bak orða sinna í þessu máli, þó það sé kannski hætt að koma á óvart. Í Morgunblaðinu þann 10. febrúar síðastliðinn sagði hann að ekki kæmi til greina að ríkisstjórnin hefði afskipti af deilunni með lagasetningu. Taldi hann slíkt heyra fortíðinni til og nú væri „…nóg komið af afskiptum ríkisvaldsins við samningagerð útgerðarmanna og sjómanna“. Þrjátíu og sjö dögum síðar svíkur forsætisráðherra þetta loforð sitt án þess að blikna.

Sjómönnum hefur ekki verið gefinn friður til þess að ná samningum við viðsemjendur sína um langa hríð. Æ ofan í æ hafa verið sett lög til að hafa áhrif á vinnudeilur þeirra, stöðva eða fresta verkfalli. Sjómenn eiga skýlausan rétt á því að semja um kaup sín og kjör líkt og aðrir launþegar. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar beitir gamalkunnum rökum fyrir sig, að við höfum einfaldlega ekki efni á því að hafa sjómenn í verkfalli. Í þetta sinnið er það loðnan sem verið er að sækjast eftir. Alls er óvíst hversu mikil veiðanleg loðna er á miðunum og óvíst að það takist að veiða upp í kvótann. Eins má spyrja sig að því hversu mikil útflutningsverðmæti, eða kannski öllu heldur lítil, mega vera í húfi til þess að sjómenn fái að semja í friði? Eru það tvö hundruð milljónir? Fimm hundruð, eða einn milljarður?

Staðreyndin er sú að nægur tími hefur gefist til samningaviðræðna. Útvegsmenn hafa hins vegar verið tregir til þess að koma að samningaborðinu og alvöru viðræður hófust ekki fyrr enn verkfall vofði yfir. Það er ekki nema von að útvegsmenn séu tregir í taumi, þeir geta ætíð treyst á ráðherrana til þess að brjóta á mannréttindum sjómanna og grípa inn í vinnudeilurnar með lögum. Það er löngu kominn tími til þess að sjómenn og útgerðarmenn fái frið fyrir stjórnvöldum til að semja um sín mál. Endalausar lagasetningar gera ekkert nema að fresta því að finna lausn á vandanum. Gróði og hagnaður eiga aldrei að hafa áhrif á það hvort mannréttindi eru virt, þau á einfaldlega alltaf að virða. Þó að forsætisráðherra veitist létt að ganga á bak orða sinna, ætti hann að vera maður til þess að brjóta ekki á lögbundnum réttindum þegna sinna. Það má hins vegar segja að framganga hans í öryrkjamálinu hafi gefið tóninn og því ætti enginn að vera hissa á þessari lagasetningu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.