Harmsaga tónlistarævi minnar

Ungur að árum gerðist undirritaður dyggur tilbeiðslumaður tónlistargyðjunnar. Leið mín lá, eins og margra annarra, í gegnum tónlistarskólana og stundaði ég nám í mörgum þeirra. Lærði ég á ýmis hljóðfæri í ýmsum sveitarfélögum, enda stöðugir flutningar á fjölskyldu minni. Blokkflauta, píanó, klarínett og trommur, við allt þetta var reynt með misgóðum árangri. Það var ekki fyrr en ég sat opinmynntur og horfði og hlýddi á Einar Örn Benediktsson básúna það að málið væri ekki hvað þú gætir heldur hvað þú gerðir, að ég sá hvað fyrir mér átti að liggja. Ég gekk því á fund félaga míns og saman stofnuðum við hljómsveit. Þetta var árið 1984 og hófst þar með hljómsveitaferill minn sem átti eftir að standa næstum samfleytt í 14 ár, með viðkomu í a.m.k. 8 hljómsveitum.

Þessi fyrsta hljómsveit varð hvorki langlíf né afkastamikil. Í henni voru alla tíð aðeins tveir meðlimir, sá er þetta ritar sem skyldi leika á trommur og félagi hans sem átti að sjá um gítarslátt. Hljóðfæraleysi háði okkur allnokkuð, en hvorugur átti nein hljóðfæri, né kunnum við á þau sem við höfðum valið okkur (trommunám mitt var ekki hafið). Félagi minn var tveimur árum eldri en ég og var því sjálfkjörinn leiðtogi hljómsveitarinnar. Hann valdi henni nafnið Dachau og fannst mér það töff mjög. Eftir þann fund sem nafnið var ákveðið skoppaði ég glaðbeittur heim á leið og tilkynnti fjölskyldu minni við matarborðið að hér væri á ferð trommuleikarinn í hinni efnilegu hljómsveit Dachau. Foreldra mína setti hljóða, en útskýrðu svo fyrir mér hvaðan nafnið Dachau var fengið. Brá mér mjög við það, en hélt daginn eftir á „æfingu“ og sagði mig úr hljómsveitinni vegna pólitísks ágreinings.

Næsta hljómsveit var miklu mun merkilegri í alla staði. Það var alvöru pönkhljómsveit og nú áttum við hljóðfæri og kunnum meira að segja aðeins á þau og ég átti meira að segja trommusett. Þó pönkhljómsveit væri var hún af einhverjum orsökum kennd við hina meinlausu dægurlagahljómsveit Sailor og hét "The Young Sailors". Þótti þetta ágætis nafngift vegna æsku okkar og tengsla við sjómennsku og hafið, en atburðir þessir áttu sér stað á Siglufirði. Þessi hljómsveit lék nokkrum sinnum opinberlega og þá helst smellinn "Ég sá hana fyrst." Textinn var eitthvað á þessa leið:

Ég sá han’í júní,
sá han´í júlí,
sá han´í ágúst og reið henni þá.

Dagurinn var ónýtur
fyrir klukkan eitt.
En það var betra að ríða henni,
heldur en að ger´ekki neitt aaagghhh…

Þó ungur væri að árum, um 13 ára, varð ég brátt svo umsetinn hljóðfæraleikari að hin hljómsveitin á Sigló, Kargó, bauð í mig þegar þá vantaði hljómborðsleikara. Þar varð ég fyrir því að svíkja listagyðjuna fyrir söluhagsmuni, en Kargó spilaði vinsældapopp í ætt við Greifana og Stuðkompaníið. Vinsælasta lagið á Siglufirði var "Vodkafamilí" en viðlag þess var svona:

Eldur ís, ég elska þig
Absolout má drekka þig.
Smirnoff, Icy, allir saman
er þetta ekki voða gaman?
Tindavodka, tröllum gefið
Finnlandia bætir kvefið.
Allir far´á fyllerí
vodkafamilí.

Kargó ætlaði sér stóra hluti og þegar undirritaður og bassaleikarinn fluttu til höfuðborgarsvæðisins um svipað leyti, létu aðrir meðlimir sig ekki muna um að fylgja í kjölfarið. Ferill Kargó reis hæst með þátttöku í mússíktilraunum árið 1987, þar sem allir meðlimir spiluðu í náttfötum. Þrátt fyrir mikla alúð við sviðsframkomu komst hljómsveitin ekki í úrslit.

Hljómsveitin Kargó uppfyllti hins vegar ekki sköpunarþörf undirritaðs. Þess vegna varð til hliðarverkefni ("side project") eins og títt er með listfenga tónlistarmenn. Höfundur þessa pistils, ásamt bassaleikara Kargó, voru bekkjarfélagar. Þeir ásamt sex öðrum bekkjarfélögum stofnuðu því hljómsveitina "Band eight". Hér var mikill orðaleikur á ferð. Meðlimir hljómsveitarinnar voru átta og allir í áttunda bekk. Hins vegar var um mun dýpri merkingu að ræða. Þetta var skömmu eftir Live aid tónleikana og "Band eight" hljómar ekki ólíkt "Band aid" og er vísunin þá fullkomnuð. Við lutum styrkri stjórn tónmenntakennara Grunnskóla Siglufjarðar, Elíasar Þorvaldssonar. Sá er betur þekktur sem Elli í Gautum og nutum við góðs af þekkingu hans og reynslu á tónlistarsviðinu, en hann sá um lagaval, útsetningar o.fl. Hljóðfæraskipan var mjög sérstök, en fyrir utan hefðbundin rokkhljóðfæri mátti finna fiðlu, klarínett og fleiri hljóðfæri. Undirritaður sá um hljómborðsleik. Hámarki náði frægð Band eight í klukktíma löngum útvarpsþætti um Siglufjörð sem sá kunni útvarpsmaður Jónas Jónasson sá um fyrir svæðisútvarp Norðurlands. Þar flutti hljómsveitin "instrumental" útsetningu af laginu Cherish, með hljómsveitinni Kool & the Gang. Band eight varð sjálfdauð þegar áttunda bekk lauk.

Næsti áningarstaður undirritaðs á tónlistarbrautinni var afturhvarf til pönksins. Veturinn 1987-1988 sýndi Sjónvarpið þáttaröð þar sem hver framhaldsskóli landsins fékk einn þátt til umráða og mátti gera við það sem hann vildi, „Annir og appelsínur“. Umsjónarmenn þáttarins fyrir MK höfðu frétt af tónlistaráhuga undirritaðs. Í snarhasti var hóað saman í hljómsveit sem fékk nafnið "Dáldið atriði". Á fyrstu og einu æfingu varð til ódauðlegur slagari, Hvassaleitisdóninn:

Hafið þið séð hann?
Hann gengur um götur.
Í skósíðum frakka
að hræða litla krakkaaaahgghh

og viðlagið var:

Hvassaleitisdóninn!
Hvassaleitisdóninn!
Hvassaleitisdóninn!
Hann er ógeðsleeegghhur aarhgghhh!

Hér var alvöru pönk á ferð og því horfið aftur til upprunans. Hljómsveitin lifði ekki lengur en æfingu og upptöku en trommuleiks undirritaðs þar verður minnst um ókomna tíð.
Þá var komið að alvöru lífins. Synir Raspútins starfaði í nokkur ár, spilaði reglulega á böllum, hitaði upp fyrir Ný dönsk, Síðan skein sól o.fl., en varð aldrei sérstaklega þekkt. Eins og oft áður nægði ein hljómsveit ekki sem vettvangur fyrir tónlistarsköpun og því varð til hliðarprósjektið „Eftirlætissynir Raspútins“ sem spiluðu órafmagnað. Aldurinn var farinn að færast yfir hinn fyrrum villta pönkara, því nú lamdi hann ekki húðir heldur sló strengi kassagítars.

Lokapunkturinn á tónlistarferlinum var síðan brúðkaupsbandið „Hinir geðþekku fautar“. Sú hljómsveit spilar eingöngu í brúðkaupum vina og kunningja og eingöngu lög sem meðlimir hennar hafa gaman af. Sá er þetta ritar var kominn að leiðarlokum í tónlistarsköpun. Margir sigrar unnir og mörg tækifæri sem ekki voru nýtt. Band eight, Dáldið atriði, The Young Sailors … engin setti markanleg spor á heimstónlistarsöguna. Lýkur þar með harmsögu tónlistarævi minnar.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.