Boðendur Brussel-trúar í vanda

Á Íslandi hefur nýr átrúnaður rutt sér til rúms undanfarið. Átrúnaður þessi er mjög laus í reipum, lítið er um skipulagt hugmyndakerfi og safnaðarlíf og svipar honum því að ýmsu leyti til þess átrúnaðar sem hvað útbreiddastur var um heimsbyggðina fyrir nokkrum áratugum. Þá skipti kalda stríðið mönnum í tvær sanntrúaðar fylkingar, önnur trúði blint á boðskap Sovétríkjanna og hin á kennisetningar Bandaríkjanna. Eftir fall hofa og hörga í Moskvu rénaði hinn rauði átrúnaður mjög. Við það urðu hin trúarbrögðin minna sýnileg en þau lifðu engu að síður góðu lífi. Hinn nýi átrúnaður er s.s. af sama toga og þeir sem hér hefur verið lýst. Það sem sameinar áhangendur hans er óbilandi trú á Evrópusambandið og allt sem þaðan kemur.

Hinn nýi siður fer ekki mjög hátt opinberlega þó einstaka aðili skeri sig þar úr. Í raun má líkja ástandinu við það sem ríkti hér á landi á árunum 1530-1540 þegar útbreiðsla lútherskunnar hófst. Þá höfðu menn ekki hátt, heldur reyndu að læða skoðunum sínum að fólki hægt og rólega. Hér á landi er þó víða að finna opinberan áróður fyrir hinum nýja sið. Fremstir þar í flokki fara aðstandendur vefritsins kreml.is. Þó eru menn það klókir þar á bæ að hin nýja trú er ekki boðuð beint, heldur fluttur áróður fyrir málstað samhljóða trúarsetningum hennar og látið líta svo út að hér sé ekki um skipulagt trúboð að ræða. Nafngift vefritsins er liður í því og er hún um margt táknræn. Kreml var helgasti staður hins rauða átrúnaðar og augljóst að hér hefur hin helga borg Brüssel myndhverfst í hinn forna helgistað.

Helsti boðberi nýja fagnaðarerindisins á Kreml.is er Eiríkur Bergmann Eiríksson (EBE). EBE er staðfastur í þeirri trú sinni að ekkert slæmt geti komið frá Evrópusambandinu og þar á bæ séu eingöngu teknar góðar ákvarðanir. Líkt og gjarnan hendir með æsta trúboða má þó víða finna í málflutningi EBE ýmsar mótsagnir.

Nýjasta dæmið um áróður hans fyrir hönd Evrópusambandsins er grein sem birtist á kreml.is þann 15. mars síðastliðinn. Þar fjallar EBE um gin- og klaufaveikifár það sem tröllríður Evrópu og teygði anga sína nýlega til Suður-Ameríku og annan búfjársjúkdóm sem nýlega herjaði á Evrópu, kúariðu. EBE virðist sannfærður um að þeir sem á einhvern hátt vilja takmarka innflutning á kjöti sem mögulega gæti verið sýkt af þessum sjúkdómum, séu í raun að vinna gegn Evrópusambandinu. Því sprettur hann upp til varnar.

Hann heggur á báða bóga, stjórnmálamenn, verndunarsinnar og yfirdýralæknir fá högg og standa völtum fótum eftir. EBE rífst við hina ímynduðu árásarmenn sem herja á Evrópusambandið og eyðir miklu púðri í það að lýsa því að útbreiðsla þessara sjúkdóma geti engan veginn verið Evrópusambandinu að kenna. Það sé augljóst þar sem aðildarlöndin hafi „rétt til að loka landamærum sínum fyrir erlendum landbúnaðarafurðum þegar um sjúkdómshættu er að ræða. Það hafa Danir til að mynda gert“. Það er gott til þess að vita að Evrópusambandsríkin geti gripið til einhverra þeirra ráða sem skynsamleg eru við þessar aðstæður. Reyndar gagnrýnir EBE íslensk stjórnvöld mjög fyrir að grípa til þeirra sömu aðgerða, en það skýrist líklega af því að Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu og aðgerðirnar lúta því öðrum lögmálum þar.

Hinn nýi átrúnaður er ekki laus við kraftaverk, síður en svo. Búfé í Evrópusambandinu virðist þola sjúkdóma sem fellir búpening í öðrum löndum! Í Evrópusambandinu verða skepnugreyin „lasin“ og EBE segir að „flest lifi pestina af og verði hress á ný. Þannig að það er frekar móðusýkin sem fórnar dýrunum á bálkesti mannanna“. Hér er skáldlega og snöfurmannlega mælt. Hví ekki að láta vesalings dýrin hrista slenið af sér í friði og ró fyrir morð- og brennuóðum mönnum? Galdrabrennur miðalda koma ósjálfrátt upp í hugann og maður sér æstan múginn fyrir sér í kringum logandi hræ saklausra dýra.

Það skýtur því skökku við að þessi aðferð, að slátra dýrum sem grunuð eru um smit í stað þess að bólusetja þau, er sú aðferð sem Evrópusambandið sjálft fylgir. Fyrir henni eru efnahagsleg rök. Rúmlega 5% af þeim skepnum, sem smitast, drepast. Þess vegna er reynt að hamla útbreiðslu smits með því að slátra þeim skepnum sem grunur leikur á að séu sýkt og einangra veikina. Hugsunin er sú að betra sé að slátra öllu búfél á afmörkuðu svæði en að rúmlega 5% alls búfénaðar í heiminum falli úr pestinni. Önnur rök mæla gegn bólusetningu og eru þau líka af efnahagslegum toga. Með því að bólusetja er verið að viðurkenna að svæðið sé sýkt og ekki hafi tekist að komast fyrir veikina. Verð afurða frá því svæði lækkar og neytendur fúlsa frekar við kjötinu. Með þeim rökum hefur Evrópusambandið réttlætt slátrunarstefnu sína sem Bretar börðust hvað mest fyrir.

Spennandi verður að sjá hvernig fylgismönnum hins nýja átrúnaðar mun reiða af í trúboði sínu. Ólíklegt er að ný kirkjuordinatía komi frá Danakonungi líkt og gerðist hér árið 1538. Staðreyndin er hins vegar sú að það er með þessa blindu trú eins og aðra að boðendur hennar þurfa oft að tala í mótsögn við sjálfa sig til þess að finna skýringar á öllum undrum heimsins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.