Bessastaða illur arfur

Dr. Ágúst Einarsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, hefur eins og fleiri Íslendingar skoðun á því hvort flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni eða ekki. Hann tók nýlega 30 ára gamla hugmynd og gerði að sinni, nefnilega að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og á Álftanesið. Í þætti sem Elín Hirst fréttamaður vann og sýndur var í sjónvarpinu sunnudaginn 11. mars síðastliðinn, mátti heyra Ágúst útmála þessa hugmynd sína. Kom þar fram að prófessorinn hefur hugsað málið til hlítar og hefur svör við hverjum þeim mótbárum sem upp kunna að rísa. Ef mönnum finnst þrengt að embættisbústað forseta Íslands með innanlandsflugvelli á einfaldlega að færa bústaðinn út í Viðey.

Raunar kom fljótlega í ljós að Ágúst telur forsetabústaðinn miklu fremur eiga heima í Viðey, en á Bessastöðum. Ástæðu þessa er að leita í sögu þjóðarinnar. Ágúst Einarsson er nefnilega með það á hreinu að á Bessastöðum sátu „illa þokkuð dönsk yfirvöld“ svo vitnað sé beint í orð hans. Hann telur þannig að það særi þjóðerniskennd íslensku þjóðarinnar að þjóðhöfðingi hennar sitji á slíkum stað sem vanhelgaður er vegna kúgunar Baunans. Saga Viðeyjar er hins vegar saga framfarasinnaðra, góðra og gegnra Íslendinga og því er réttara að þjóðhöfðingi vor sitji þar.

Það er gott til þess að vita að söguvitund prófessorsins er svo rík. Það er satt og rétt hjá honum að á Bessastöðum sátu dönsk yfirvöld og saga staðarins sem valdaseturs er því löng. Allar götur til 1804 sat stiftamtmaður á Bessastöðum, en þá var hann góðu heilli færður til Reykjavíkur. Tók þá ekki betra við því dönsk yfirvöld komu á fót skóla á Bessastöðum, skóla sem innprentaði mönnum óþjóðleg fræði og var kenndur við latínu. Þar námu jábræður danskra yfirvalda á borð við Baldvin Einarsson, Jónas Hallgrímsson, Tómas Sæmundsson, Konráð Gíslason og Benedikt Gröndal undir handleiðslu Sveinbjarnar Egilssonar, Hallgríms Schevings og fleiri. Til marks um hið danska yfirbragð skólans má nefna það að reglur um skólann voru miðaðar við kennslukröfur við dómkirkjuskólann í Odense í Danmörku!

Árið 1868 gerðist það síðan að gamall embættismaður úr danska stjórnkerfinu, Grímur Thomsen, festi kaup á Bessastöðum og bjó þar til dauðadags árið 1896. Í upphafi 20. aldarinnar eignaðist staðina maður sem einnig náði langt í stjórnkerfi Dana, Skúli Thoroddsen, en hann sat lengi á þingi einnar hjálendu Danakonungs. Það var ekki fyrr en árið 1941 að Bessastaðir fengu stöðu sem hæfir núverandi hlutverki þeirra, en þá gaf Sigurður Jónasson forstjóri íslenska ríkinu staðinn. Varð það síðan embættisbústaður ríkisstjóra og þremur árum síðar, forseta íslenska lýðveldisins.

Það má því hverjum manni vera ljóst að saga Bessastaða hæfir ekki aðsetri þjóðarleiðtoga vors. Öðru máli gegnir hins vegar um Viðey. Þar var lengi vel þurfamannahæli en árið 1752 voru ómagarnir fluttir hreppaflutningum til að rýma fyrir nýjum ábúendum. Þá reisti danska krúnan embættisbústað landfógeta í Viðey, eftir teikningum húsameistara Danakonungs, Eigtved að nafni. Þar bjó Skúli Magnússon og árið 1794 fluttist Ólafur Stefánsson stiftamtmaður þangað. Sonur hans Magnús, sem nefndi sig Stephensen, eignaðist síðan eyjuna og bjó þar frá 1812 til dauðadags árið 1833. Afkomendur hans bjuggu þar fram á 20. öld, en frá 1960 hefur engin búseta verið þar.

Það ber að þakka dr. Ágústi Einarssyni fyrir að benda þjóð sinni á þá ósvinnu sem viðgengst varðandi bústað forseta vors. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut, því af nógu er að taka. Hvers konar hneyksli er það að Stjórnarráð Íslands sé til húsa í gömlu tukthúsi þar sem aðallega sátu þjóðræknir Íslendingar sem brutu á dönsku yfirvaldi? Og hvað með Kópavog? Enginn sannur Íslendingur getur með góðri samvisku búið á þeim stað þar sem Árni var neyddur til að skrifa grátandi undir eiðinn. Er ekki rétt að flytja Kópavogsbæ austur í Áshildarmýri? Það er gott að vita til þess að prófessorar við Háskóla Íslands eru vakandi yfir velferð þjóðarinnar. Nú er bara að bretta upp ermarnar og sýna forsetaembættinu tilhlýðilega virðingu með því að flytja aðsetur þess til Viðeyjar. Þar mun það hljóta sinn rétta sess, umvafið sögu Stephensenættarinnar og ómengað af sögu Bessastaðaskóla.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.